Getur "alheimurinn" verið bara lítið brot af raunverulegum alheimi?

Orðið alheimur getur varla staðist með því að segja að alheimurinn þenjist út. Ef hann þenst út, er hann að fara inn í rými sem er utan alheimsins, en þar með er merking orðsins alheimur ekki sú, að innan hans rúmist "allt".

Ef raunverulegur "alheimur" er óendanlegur er þessi alheimur, sem sagður er þenjast út, óendalega lítill.

Svona hrannast mótsagnirnar upp þegar vísindi mannsins eru að feta sig inn í hina óendanlegu stóru tilvist alheimsins.

Eigi milljónir lífvænlegra reikistjarna eftir að myndast sýnir það hve hinn stutti tími lífsins og mannkynsins er agnarlítið brotabrot af lendum lífsins og hve stórlega við ofmetum veldi okkar í sköpunarverkinu.

Við tölum um geimverur af afar mikilli þröngsýni, þegar rætt er um hugsanlegar verur, mönnum líkar, á öðrum hnöttum, því að við erum auðvitað sjálfir geimverur og föllum 100% undir það hugtak.

Og verðum ekki nema agnar brotabrot af þeim aragrúa geimvera sem eiga eftir að koma fram á sjónarsviðið á hinum óendanlega mörgu nýjum lífvænlegu hnöttum, sem eiga eftir að verða til.  


mbl.is Jörðin einn fyrsti lífvænlegi hnötturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri spár en hjá greiningadeildunum hér um árið?

Frægt var hér um árið þegar Davíð Oddssyni líkaði ekki við greiningar, spár og starfsemi Þjóðhagsstofnunar og Verðlagseftirlitsins og lagði þessar stofnanir einfaldlega niður.

Meðal raka fyrir þessu var, að hinir öflugu bankar og hagdeildir helstu samtaka væru fullfær um að gera ekki aðeins jafn góðar spár og greiningar, heldur betri.

Í aðdraganda Hrunsins kom hins vegar í ljós að þegar á reyndi leitaðist hver greiningardeild við að gera spár sem hentaði viðkomandi fyrirtæki eða samtökum best.

Nú sýnist mönnum hagkerfið vera komið á svipað ról að ýmsu leyti og árin 2004 og 2007 með teiknum um þenslu, verðbólgu og jafnvel gengisfellingu krónunnar ef málum skipast ekki vel.

Spurningin er hvort spárnar hjá greiningardeildunum verði mikið betri nú en þegar síðasta stóra uppsveiflan var hér.


mbl.is Uppsveiflan frábrugðin þeirri síðustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynslan af fyrirheitunum 2002.

Ekki skorti fögur fyrirheit árið 2002 þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir. Davíð Oddsson forsætisráðherra hét því að einkaeignaraðildin yrði dreifð í anda Eyjólfs Konráðs Jónssonar og að þannig fengist fram besti kosturinn varðandi svona rekstur.

Ríkisekstur íslenskra banka hafði lungann af öldinni verið gróðrastía pólitískrar spillingar í landinu.

En fögur orð og fyrirheit Davíðs dugðu ekki, jafnvel þótt þau kynnu að hafa verið gefin í góðri trú, því að við völd voru þeir tveir flokkar sem höfðu í helmingaskiptastjórnum sínum 1950-56, 1974-78 og frá 1995 keyrt áfram hið pólitíska eignarhald öðrum ríkisstjórnum fremur.

Niðurstöðuna þekkja allir: Í stað dreifðrar eignaraðildar almennings kom einhver harðsvíraðasta einkavinavæðing allra tíma þar sem stjórnarflokkarnir tveir skiptu bönkunum bróðurlega á milli skjólstæðinga sinna og bankarnir voru að stærstum hluta gefnir með bókhaldsbrellum og uppdiktaðri aðild þýsks banka.

Í hönd fór stórkostlegasta svikamylla íslensk fjármála- og efnahagslífs sem endaði með hruni.

Nú gefur Bjarni Benediktsson fögur fyrirheit um að lært verði af reynslunni 2002. En hættan er sú að það verði litlu minni innistæða fyrir efndum þess en hjá Davíð 2002.

Valdaöflin á bak við helmingaskiptastjórn Sjalla og Framsóknar eru nefnilega svo sterk, og hugsunarhátturinn frá 2002 er svo sláandi, þegar hann er að byrja að birtast enn á ný, að hættan á þenslukenndum aðdraganda sem uppleggs í nýtt Hrun er raunveruleg.

Sennilega er skásti kosturinn sá að ríkið eignist bankana, enda þótt spor hinnar miklu pólitísku spillingar sem fylgdi ríkiseign þeirra frá árunum fyrir 2002 hræði.


mbl.is Sameining kemur til álita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Blekkingum" seint útrýmt?

Það hefur tíðkast alla tíð að birtar séu myndir af söluvöru, sem innihalda mismunandi miklar blekkingar.

Gildir það ekki bara um hótel víða um lönd heldur margt annað.

Þegar á fyrstu áratugum bílaaldar fóru framleiðendur að nota blekkjandi sjónarhorn og ýmis önnur atriði til þess að gera bílana að girnilegri söluvöru.

Fólkið, sem sat í bílunum eða stóð við þá var yfirleitt afar lágvaxið og grannt, og konum einkum stillt þannig upp eða komið þannig fyrir, að bíllinn sýndist sem allra stærstur.

Hlutföllum bílanna var vísvitandi breytt á myndum og þeir oft gerðir lengri og breiðari en efni stóðu til.

Árgerðirnar frá 1939 til 1948 voru nær óbreyttar hjá flestum bílaframleiðendum í Bandaríkjunum, en samt var birtur langur listi af "nýjungum" hjá hverri árgerð sem áttu að sannfæra kaupendur um hve miklu betri hver ný árgerð væri en eldri árgerðir.

Gekk svo langt að auglýsa meiri breidd og rými inni í bílum, sem voru nær ekkert breyttir.

Það er hins vegar stundum erfitt að birta alveg "réttar" myndir af ferðamannastöðum.

Einkum er það veðrið sem veldur því í okkar landi og öðrum í norðanverðri Evrópu, að sólskinsmyndirnar í auglýsingum og ferðamannabæklingum eru í raun rangar.

Úrkomudagar eru nefnilega að meðaltali fleiri en þurrviðrirdagar.

En þetta eiga ferðamenn að vita fyrirfram og auðvitað er ekkert gagn í því að birta mynd af útsýni, þar sem skyggni er sama og ekkert vegna súldarveðurs.

Það sem verið er að kynna verður jú að sýna á myndum, teknum í þeim veðurskilyrðum, að það sjáist hvað verið er að kynna.

 

 

 

 


mbl.is Koma upp um blekkingar hótela
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband