Hvað var það sem "ekki gekk upp"?

Ef sama klisjan er endurtekin nógu oft fara smám saman allir að trúa henni. Þannig er það um hina margtuggðu setningu um að heilmargt í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár "hefði ekki gengið upp."

En hins vegar er lítið haft fyrir því að rökstyðja, í hverju það felst að þessi atriði gangi ekki upp.

Þegar Feneyjanefndin setti fram áhyggjur af því að völd forsetans í nýju stjórnarskránni væru það mikil að það gæti skapað óvissu og óróa í íslenskum stjórnmálum, stukku fjölmiðlar á þetta með stórum fyrirsögnum án þess þó að fara nánar ofan í saumana á þessu.

En í stjórnarskrán stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir því að 26. grein núverandi stjórnarskrár héldi sér auk þess sem forsetinn gæti við óvenjulegar aðstæður komið inn í ferilinn að skipun hæstaréttardómara.

Hið síðarnefnda var sett inn til þess að forsetinn gæti haft áhrif ef hugsanleg valdníðsla framkvæmdavaldsins í ráðningu hæstaréttardómara kæmi upp.

En meginþunginn athugsaemdar Feneyjanefndarinnar var vegna málskotsréttar forsetans og þar með var nefndin að segja, að 26. greinin væri varasöm og gæti valdið óvissu og óróa.

En það liggur nú orðið alveg ljóst fyrir að 26. greinin hefur sannað gildi sitt og að það er hvorki þjóðarvilji fyrir því að hún verði afnumin né felld niður í nýrri stjórnarskrá.  


mbl.is Myndi styðja auðlindaákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi umbrot í Sjálfstæðisflokknum.

Sókn ungra Sjálfstæðismanna á landsfundi flokksins rótar heilmikið upp í flokknum, þótt erfitt sé að spá um það hve mikið af tillögum ungliðanna, sem samþykktar hafa verið, ná í raun brautargengi í framkvæmd hjá "flokkseigendafélaginu" eins og Albert Guðmundsson kallaði valdamenn flokksins.

Margt af þessum tillögum myndu jafnvel þykja býsna róttækar hjá Samfylkingunni og í anda hugmynda, sem þar hafa verið á sveimi.

Þetta minnir svolítið á sókn Sjallanna inn á svið krata 1946 með almannatryggingalögunum og það hvernig kornungir Sjálfstæðismenn á borð við Ragnhildi Helgadóttir og Matthías Mathiesen, komu fram á sjónarsviðið og brutust til áhrifa.

Sumar tillögur ungra Sjalla eins og sala áfengis í búðum, eru gamalkunnug frjálshyggjustef.

En það verður spennandi að vita hvaða áhrif sókn ungliða á landsfundinum munu hafa á pólitíkina og fylgi flokkanna.


mbl.is 89% breytinga ungra sjálfstæðismanna samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband