Sovéthugsun ráðamanna Sjálfstæðisflokksins.

Ef ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki látið Landsvirkjun reisa Kárahnjúkavirkjun í sovéskum stíl, hefði sú virkjun aldrei risið, því að arðsemin var langt fyrir neðan það sem einkageirinn gat sætt sig við og framkvæmdin allt of áhættusöm.

Besti vitnisburðurinn um hið síðarnefnda kom fram í bréfi Landsvirkjunar til landeigenda á virkjanasvæðinu, sem héldu að þeir gætu orðið milljarðamæringar vegna hins verðmæta lands, sem látið var af hendi.

Orðrétt hljóðaði boðskapur Landsvirkjunar til landeigendanna svona: 

"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu- tæknileg- umhverfislegu- og markaðslegu tilliti, - í raun eyland í raforkukerfinu, og rýrir það meðal annarra þátta gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka." 

Eina leiðin til þess að reisa þessa virkjun var að láta ríkissjóð ganga í ábyrgð, og litlu munaði haustið 2005 að bormenn gæfust upp við Þrælaháls, þegar það tók marga mánuði að komast í gegnum mikið misgengi, sem menn höfðu þó séð ofan frá, en ákveðið að leyna því með því að sleppa þessu eina svæði á borleiðinni við að tilraunaborun.

Og fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar sagði: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."

Innan úr Landsbankanum fékk ég þetta svar þegar ég ræddi um þá áhættu, sem verið var að taka:

"Við höfum engar áhyggjur af því. Því verr sem þetta gengur, því meira græðum við."


mbl.is „Sovésk virðiskeðja“ í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Formsatriði upp á einn dag látið ráða?

Hafnargarðurinn, sem komið hefur í ljós á Hörpureitnum, er hluti af mannvirki, sem var hið stærsta í Íslandssögunni, þegar það var reist.

Íslendingar voru seinir til að reisa stór samgöngumannvirki, og þess vegna eru þau afar fá, sem orðin eru hundrað ára og njóta sjálfkrafa friðunar ef svo ber undir.

Nú er svo að sjá, að menn telji það í besta lagi að bera fyrir sig formsatriði upp á einn dag til þess að ráðast í það að eyða hafnargarðinum á óafturkræfan hátt.

Ef friðun stjórnvalda hefði komið í staðinn fyrir skyndifriðunina einum degi fyrr, mætti ekki hrófla við garðinum.

Það eru 87 ár síðan garðurinn var byggður og í ljósi þess er hlálegt ef einn dagur til eða frá á að ráða því hvort hann verði varðveittur, allur, eða að hluta.

Menn hljóta að vanda betur til verka við að meta þetta mál en svo að eins dags fyrirsláttur megi ráða för.


mbl.is „Þetta er ekki friðað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bush eldri fór rétt að.

George Bush eldri Bandaríkjaforset hafði verið yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar og naut góðrar ráðgjafar varðandi utanríkismál.

Þegar Saddam Hussein, sem Bandaríkjamenn höfðu stutt fram að því, - skepnan reis gegn skapara sínum, vandaði Bush til verka, fékk sér alla nauðsynlga bandamenn auk ályktunar Sameinuðu þjóðanna, og rak Saddam út úr Kuveit, sem hann hafði hernumið.

Ráðgjafar Bush ráðlögðu honum að fórna ekki fleiri mannslífum og ljúka stríðinu úr því að markmiði þess hafði verið náð, með því að láta þarna við sitja.

Þeir lýstu vel fyrir Bush því ógnarlega flækjustigi sem trúarhreyfingar hafa skapað í þessum heimshluta og að það væri allt of mikil áhætta að sprengja það allt í loft upp með því að leggja Írak undir sig og reka Saddam frá völdum.

Þetta reyndist farsælt og allur málatilbúnaður sonar Bush með uppspuna um gereyðingarvopn var af gerólíkum toga, sem meira að segja Tony Blair neyðist til að viðurkenna, að hafi verið mistök, - ástandið núna er sem sagt einmitt það sem ráðgjafar Bush eldri vöruðu hann það rökvíst við, að hann fór að ráðum þeirra.


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband