"Það er engin leið að hætta..."

"Það er engin leið að hætta" sungu Stuðmenn á sínum tíma þegar þeir límdu þessa setningu um Popplag í G-dúr inn í hausana á aðdáendum sínum.

Þótt mörgum hætti til að reyna að trúa öðru er ekki hægt að láta sem ýmsar yfirlýsingar ráðamanna séu ekki raunverulegur ásetningur sem verði framkvæmdur.

"Íslandsbanki seldur innan 2 ára" er ein slík yfirlýsing og þar með má búast við að sama muni gilda um aðra banka.

Bankarnir voru seldir 2002 og á árinu 2015 er engin leið að hætta.

"Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær sæstrengur verður lagður milli Íslands og Bretlandseya" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi fyrirtækisins fyrir tveimur árum.

Nú er búið að hnykkja á þessu á fundi með David Cameron og eftir það verður engin leið að hætta.

Það er sem sé hamast við að negla það og fullyrt að annað muni gilda hér en í Noregi þar sem orkuverð til innanlandsnota hækkaði um 40% með tilkomu sæstrengs.

Forstjóri Landsvirkjunar tekur gjarna samanburð við fiskútflutning og hækkun fiskverðs innanlands eftir að farið var að fljúga með fiskinn til útlanda, en láist að geta þess að fiskneysla er aðeins lítilll hluti af neyslu almennings hér á landi, en enginn kemst hjá því að kaupa raforku.

"Ríkisstjórnin styður það einróma að reisa álver í Helguvík" var ein allra fyrsta yfirlýsing núverandi ríkisstjórnar.

Hún hefur ekki verið dregin til baka og auðvitað er engin leið að hætta því að láta reisa hér risaálver, sem munu ásamt sæstrengnum kveða upp dauðadóm yfir íslenskum náttúruverðmætum, sem ósnortin eru orðin að helstu auðlind landsins en verða það ekki lengi meðan popplag ráðamanna í G-dúr verður sungið, af því að það er engin leið að hætta.


mbl.is S&P: Íslandsbanki seldur innan 2 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er nefnilega vitlaust gefið."

Það var fáheyrt á sínum tíma þegar skuldbindingar ríkissjóðs varðandi lífeyri voru fluttar frá ríkinu yfir á nýstofnað RUV ohf.

Þarna var farið öðruvísi að en við einkavæðingu annarra ríkisstofnana, en fyrir bragðið gátu þáverandi stjórnvöld losað ríkið við dágóð útgjöld og sýnt fram á betri afkomu ríkisins sem þessu nam.

Ef þetta hefði ekki verið gert, væri staða RUV allt önnur og betri nú en hún er.

"Það er nefnilega vitlaust gefið" sagði Steinn Steinarr í ljóði sínu og eiga þauk orð vel við í þessu máli.

Enn er hafinn söngurinn um að leggja Ríkisútvarpið niður eða einkavæða það og menn láta eins og útvarpsgjaldið hér á landi sé eitthvað alveg sérstakt og einstaklega hátt.

Þó er það lægra á hvern skattborgara en í nágrannalöndum okkar, meðal annars Bretlandi, þar sem hagkvæmni 200 sinnum fjölmennara þjóðfélags ætti að auðvelda Bretum að slá Íslendingum við.

Nú er Íhaldsflokkurinn einn við völd í Bretlandi en ekki heyrist að þar á bæ séu menn orðnir æstir í að leggja BBC niður.

Hefði verið fróðlegt að einhver hefði spurt David Cameron hvort einkavæðing eða slátrun BBC væri ekki efst á lista hjá flokki hans.  


mbl.is Skuldir RÚV nærri 7 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr vöndu að ráða.

Fyrir örfáum misserum var oft notað orðið "svartagallsraus" um þá skoðun sumra glöggra manna, að mannkynið stefndi inn í sívaxandi vandamál vegna óróa og upplausnar sem skapaði stóraukinn flóttamannavanda víða um álfur, jafnvel þar sem menn sáu enga eða litla hættu á að slíkt gerðist.

Svona ástand af völdum afleiðinga loftslagsbreytinga af mannavöldum mun skapast víða ef ekkert verður að gert, og því miður hefur tíminn frá Ríó-ráðstefnunni 1992 verið látinn renna úr greipum að mestu, alls 23 mikilvæg ár.

George Bush, varkár forseti Bandaríkjanna 1991, stóðst þá freistingu að breyta samstilltum aðgerðum alþjóðasamfélagsins gegn innrás valdagráðugs skjólstæðings síns í Írak inn í nágrannaríkið Kuveit í herferð til að steypa honum og gera stjórnmálalega og trúarlega byltingu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sonur hans aðhafðist þveröfugt, og sú aðgerð, innrásin í Írak 2003, auk stuðnings við að steypa af stóli Gaddafí í Líbíu og Assad í Sýrlandi, hefur ekki aðeins skapað allt annað og verra ástand í þessum heimshluta en nokkurn óraði fyrir, heldur er löndunum handan Miðjarðarhafsins mikill vandi á höndum vegna dæmalauss flóttamannastraums.

Þar er úr vöndu að ráða og skiptir litlu í því sambandi hvert skipulag er á málum einstakra ríkja, - flóðbylgja flóttamannanna berst þangað inn af landfræðilegum ástæðum og hefði gert það hvort eð er.

Á blogginu hér heima má hins vegar sjá menn bölsótast yfir vonsku ESB í málinu og þjóðum þess, í í sumum tilfellum fer sami bloggarinn létt með að núa ESB um nasir að vilja endurreisa ofstopa nasista við að "hreinsa" álfuna, en líka að stunda skaðlega og barnalega aumingjagæsku.

Hjá öðrum bloggara er hiklaust alhæft að flóttamennirnir séu "múslimaskríll"  og "vanir hryðjuverkamenn."

Enn sem komið er eru flóttamennirnir einn þúsundasti af íbúafjölda ESB og því ætti það ekki að vera með öllu óviðráðanlegt að þjóðir álfunnar standi sameiginlega að því að leysa flóttamannavandann.

En samt er úr vöndu að ráða.


mbl.is Vaxandi áhyggjur af Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitler taldi komu hers BNA til Íslands 1941 mestu "ögrunina".

Sending Bandaríkjahers til Íslands í júlí 1941, Atlantshafsfundur Roosevelts Bandaríkjaforseta og Winstons Churchills í ágúst og heimsókn Churchills til Íslands voru með merkustu viðburðum þess árs í hernaðarsögunni.

Þegar Adolf Hitler hellti úr skálum reiði sinnar yfir "stríðsæsingamanninn" Roosevelt í ræðunni, sem hann hélt 11. desember 1941 þegar hann sagði Bandaríkjamönnum stríð á hendur, tíndi hann til eins mörg atriði og hann gat fundið frá árunum á undan til þess að sanna það, að Roosevelt hefði verið og væri stríðsæsingamaður sem reyndi allt hvað hann gat til að efna til ófriðar við Þýskaland og Öxulveldin.

Hitler fullyrti að Roosevelt hefði verið sannfærður um að sending bandarísks herliðs til Íslands myndi "neyða" Þjóðverja í stríð við Bandaríkin. Samkomulag Bandaríkjamanna við Breta um að skipta út herliði Breta á Íslandi fyrir bandarískt lið hefði verið gróft hlutleysisbrot, en hann (Hitler) hefði samt ákveðið að láta þessa ögrun ekki hafa tilætluð áhrif.

Það var að vísu rétt athugað hjá Hitler, að sending Bandaríkjaherliðs til Íslands var merkasta aðgerð Bandaríkjamanna fram að því sem hlutlauss ríkis.

Með því tóku þeir ákveðið frumkvæði, en hernmám Breta 1940 og síðar Bandaríkjamanna árið eftir markaði straumhvörf að því leyti á árunum 1936 til 1940, að fram að því höfðu Þjóðverjar og Ítalir ævinlega haft frumkvæðið í atburðarásinni og bandamenn orðið að bregðast við.

Hitler fékk eitt af sínum mestu bræðisköstum í byrgi sínu í Eifel-fjöllum 10. maí 1940, sama daginn og Þjóðverjar réðust til sóknar inn í Niðurlönd og Frakkland, þegar hann frétti af hernámi Íslands.  

Hernám Íslands varpaði skugga á það sem Hitler taldi glæsilegustu herför sögunnar.

Koma Bandaríkjahers til Íslands, Atlantshafsfundurinn, heimsókn Churchills til Íslands og auknir árekstrar á milli Bandaríkjamanna og Þjóðverja á Atlantshafi voru atburðir, sem hlutu óhjákvæmilega að leiða til stríðs Öxulveldanna við Bandaríkin.

Það er vel að bjóða David Cameron að feta í fótspor Churchills.   

 

 


mbl.is Heimsókn Cameron „söguleg stund“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband