Man nú nokkur Evu Joly?

Nú eru liðin rúmlega sex ár síðan þau meintu efnahagsbrot voru framin, sem dæmt var loks fyrir í Hæstarétti í dag. Skömmu eftir Hrunið fékk Egill Helgason hina frönsku Evu Joly til þess að koma til Íslands til þess að gefa ráð um það hvernig ætti að fara að við að rannsaka einstök atriði Hrunsins til þess að koma lögum yfir þá, sem kynnu að hafa brotið lög.

Eva lagði til að nota mikla fjármuni og mannafla til þess að rannsaka alla anga málsins og spáði því að það að þetta myndi taka mörg ár.

Það var ekki lítið sett í gang til þess að gera sem minnst úr Evu Joly og tala niður til hennar í hvívetna. Þetta væri bara ein af þessum vinstri sinnuðu kerlingum sem hötuðust við markaðskerfið og stæðu fyrir nornaveiðum.  

Í hönd fór tími sem hefur enst langleiðina til þessa dags, 12. febrúar, þegar fyrstu bankastjórarnir hljóta dóma, að margir hafa orðið til þess mestallan þennan tíma að horfa í þá peninga og vinnu sem málareksturinn hefur tekið.

Björn Bjarnason rifjar það upp á bloggsíðu sinni að þeirr spurningu hafi verið varpað upp eftir Hrunið hvort hægt væri að byggja réttláta og sanngjarna refsidóma á reiði almennings.

Mér finnst vel koma til greina að varpa slíkri spurningu upp, samanber dómana yfir sakborningunum í Geirfinns- og Guðmundarmálum sem voru uppkveðnir undir gríðarlegum þrýstingi frá almenningi og fjölmiðlum.

Þáverandi dómsmálaráðherra orðaði þetta með því að segja opinberlega að með fangelsun og dómstólameðferð væri þungu fargi létt af þjóðinni.

Björn Bjarnason kemst að þeirri niðurstöðu í pistli sínum að kostirnir við málareksturin og dómana vegi þyngra en efasemdir um að fara hefði átt í þessa vegferð Sérstaks saksóknarar.

Séu dómarnir réttir muni það styrkja réttarkerfið og efla traust á fjármálakerfinu og stjórnskipan okkar sem aftur muni verða til þess að skila meiri fjárhagslegum ávinningi en nam þeim kostnaði, sem málareksturinn hefur kostnað. 

Ég held að þessi rök Björns séu gild. 

 

 


mbl.is Kaupþingsmenn sakfelldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsandi fyrirmynd.

Það virðist eitthvað svo öfugsnúið þegar kornungt og efnilegt fólk þarf að glíma við sjúkdóma, sem frekar láta á sér kræla á efri árum og það er gangur lífsins að hinir eldri þurfi að kjást við Elli kerlingu og fylgifiska hennar. 

Þegar frændgarðurinn er stór er margt sem gleður og er uppörvandi en líkindin á áföllum eru einnig þeim mun meiri sem fólkið er fleira. Mist Edvardsdóttir

Fátt kom þó meira á óvart en það áfall þegar kornung frænka mín þurfti að horfast í augu við vágest af því tagi sem ungt fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.

Þetta dundi yfir þegar hún var einmitt að stimpla sig inn sem afrekskona í landsliðsklassa.

En það hefur verið sagt að sannur meistari öðlist ekki þann sess nema þegar hann hefur sýnt hvaða mann hann hefur að geyma þegar áföll dynja yfir og verst gengur. 

Sannur meistari er sá sem snýr ósigri í sigur og eflist við hverja raun.

Svo sérkennlega sem það hljómar hefur fátt veitt meiri birtu inn í lífið og tilveruna síðasta árið en hetjuleg barátta Mistar Edvardsdóttur við krabbameinið, sem hún varð að horfast í augu við þegar engin átti sér ills von. 

Hún er lýsandi fyrirmynd fyrir okkur öll. 

 


mbl.is Mist 1 - Krabbamein 0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útþensla veldur oftast óróa og tortryggni.

Mannkynssagan greinir frá ótal dæmum um það að útþensla á ýmsum sviðum veldur oftast óróa og tortryggni. Þetta átti við um útþenslu stórvelda fyrri tíma svo sem Persa, Rómaveldis og Múslimatrúarinnar.

Útþensla verður oftast á kostnað einhverra, sem telja sig verða að veita andóf. 

Í öllum svona tilfellum hafði útþenslan styrjaldir í för með sér, jafnvel þótt tilgangurinn væri ekki alltaf svo slæmur, svo sem í Krossferðunum, þar sem hugsjónin var að breiða út friðarboðskap og fagnaðarerindi Kristindómsins, en notað vopnavald til þess.

Á Stiklastöðum í Noregi er stór stytta af Ólafi helga Haraldssyni sitjandi á hesti með Biblíuna í annarri hendi og veifandi sverði í hinni.

Útþensla frönsku byltingarinnar sem varð fljótt að hernaðarlegri sigurfíkn Napóleons, kostaði svonefndar Napóleonsstyrjaldir í tvo áratugi. 

Útþensla Prússlands og síðar Þýskalands olli styrjöldum í meira en eina og hálfa öld og urðu styrjaldirnar æ skelfilegri eftir því sem á leið. 

Útþensla Bandaríkjanna og heimsvelda nýlenduveldanna kostuðu styrjaldir, ekki aðeins við að þenja út þessi nýlenduveldi, heldur líka vegna þess að þjóðir eins og Þýskaland, Ítalía og Japan töldu sig vera afskipt, og útþensla japanska veldisins ár árunum 1905-45 kostaði hrikalegar stríðsfórnir. 

Hitler stefndi með einbeittum brotavilja að útþenslu Þriðja ríkisins og í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar var útþensla á vegum tveggja risavelda, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, efni í kalt stríð með ýmsum styrjöldum svo sem í Kóreu og Víetnam.

Þegar Kalda stríðinu lauk hófst útþensla NATO og ESB til austurs og var með furðu friðsamlegu yfirbragði lengi vel. En þegar lagt er upp í ferðalag verður að hyggja að ferðalokum, hvenær, hvar og hvernig þau geti orðið, en það var ekki gert.

Í bjartsýni héldu menn að þessi útþensla gæti orðið friðsamleg þótt hún fælist í því að þenja út hernaðarbandalag, bara vegna þess að hernaðarbandalagið var skilgreint sem varnarbandalag.

Þá gleymdu menn því að "varnarbandalögin" sem stofnað var til á báða bóga í aðdraganda tveggja heimsstyrjalda urðu til þess að þau stríð urðu þeim mun vítækari og skelfilegri sem bandalögin voru stærri og öflugri og svardagar bandalagsþjóðanna meiri, og að hugsjónin um fælingarmátt hernaðarbandalaga getur oft fætt af sér andhverfu þess sem í orði kveðnu er stefnt að.

Öllum mátti verða ljóst að þegar farið var í útþensluleiðangurinn til austurs í Evrópu eftir fall Berlínarmúrsins 1989 myndi koma að því að komið yrði að endamörkum útþenslunnar og að nauðsynlegt væri að gaumgæfa vel fyrirfram hvar þau leiðarlok kynnu að verða, jafnvel þótt menn vonuðu að í lokin yrðu allar þjóðir frá Atlantshafi til Úralfjalla eitt samfellt sæluríki lýðræðis og mannúðlegrar markaðsvæðingar.

Menn gleymdu særðu stolti fyrrum risaveldis, gleymdu því, að svonefndir öryggishagsmunir vega ávallt þyngst í huga þjóðanna og að það er erfitt fyrir utanaðkomandi að ráða því hvernig hver þjóð lítur á sína hagsmuni. 

Þess vegna rambar Evrópa "óvænt" á barmi stórstyrjaldar rétt eins og menn hafi ekkert lært af því sem gerðist fyrir rúmri öld.  Og þegar grannt er skoða sést, að það er ekki svo "óvænt".

Allri útþenslu, hversu jákvæðum augum sem menn líta á hana, linnir við einhver endamörk, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.      


mbl.is Skilyrði Rússa óásættanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf stærri ramma fyrir svona ferðir.

Þessar dagana og vikurnar er langalgengasta vindáttin suðvestanátt með éljagangi eða snjókomu. 

Á sama tíma er bjart að mestu á norðausturhluta landsins. Gosstöðvarnar í Holuhrauni hafa verið sjáanlegar á mila.is á sama tíma sem dimmviðri hefur verið hérna megin á landinu. 

Í kvöld var rakastigið aðeins rúmlega 60% á þessum slóðum sem þýðir þurrviðri.

Ef Norðurljósaferðir eiga að heppnast betur en nú er, þyrfti að hugsa sér stærri ramma fyrir þær, þar sem gert væri ráð fyrir frávikum og auknum kostnaði í hluta þeirra vegna þess að fara þyrfti hinum megin á landið til að uppfylla væntingar.

Meðalverðið fyrir ferðirnar yrði þá haft nógu hátt til þess að dekka þennan aukakostnað þegar hann kæmi upp.  

Fyrir 30 árum athugaði ég þá hugmynd að bjóða ríkum útlendingum upp á ævintýraferð á Íslandi, þar sem verðið yrði haft nógu hátt til þess að geta séð við skakkaföllum vegna veðurs og farið á einstökum dögum hinum megin á landið. 

Ég fékk mér firmanafnið Hugmyndaflug af því að flug átti að vera aðalatriðið í einstæðri upplifun sem í boði væri. 

Sá sem keypti sér svona ferð fengi loforð um að lenda á innan við viku á einhverjum einum af fjórum eftirtöldum stöðum: Við Látrabjarg (Hvallátur), í Hornvík, í Herðubreiðarlindum og í Kverkfjöllum þar sem skíðaflugvél yrði notuð til að lenda bæði niðri við skálann og uppi á toppnum.

Sú ferð yrði lang mögnuðust af þeim öllum, ef aðstæður leyfðu. 

Ef ekki yrði hægt að fara á neinn ofangreindra staða, yrði hluti af verði ferðarinnar endurgreiddur, enda jafnaðarverðið miðað við að þola áætluð frávik vegna veðurs og annars.  

Ég viðraði hugmyndina við Pétur Einarsson, þáverandi flugmálastjóra, og honum leist vel á.

En skrifræðið felldi hana, enda næstum því eins og að fara að reka British Airways hvað það varðaði, auk þess sem ég hafði nóg annað að sýsla.

 


mbl.is 1.200 skoðuðu norðurljós í gær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bættur öryggisbúnaður hefur bjargað tugum mannslífa.

Ekkert eitt atriði hefur átt stærri þátt í stórfækkun banaslysa í umferðinni hér á landi en stórbættur öryggisbúnaður bíla. Það sem af er þessari öld er hægt að fullyrða að öryggisbúnaðurinn hafi bjargað mörgum tugum mannslífa. Bílslys.

Með svonefndum EPA og NCAP mælingum og kröfum í Bandaríkjunum og Evrópu hafa bílaframleiðendur neyðst til taka alla hönnun bíla til endurskoðunar og styrkja og hanna bílana þannig að þeir þoli árekstra sem best. 

Þar ræður stærð bílanna ekki mestu eins og sést á því að fyrir nokkrum árum kom ameríski Ford pallbíllinn herfilega út úr árekstrarprófi en núna skarta sumir af minnstu bílunum fimm stjörnum í evrópska prófinu. 

Nú er jafnvel Toyota iQ með hæstu einkunn, en sá bíll er aðeins 2,99 metra langur, eða einum og hálfum metra styttri en bílar í millistærðarflokki. Enda er hann víst með eina níu líknarbelgi sem raðað er í kringum farþegana. 

En aldrei verður nógsamlega áréttað, að án notkunar bílbelta er gildi og getu þessa búnaðar og annarra öryggisatriða í byggingu bílsins stórlega skert, því að öllum þessum öryggisatriðum er komið fyrir með tilliti til þess að fólk noti bílbeltin. 


mbl.is Tveir fluttir á slysadeild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband