Áður voru það "ónýtir kofar úr fúaspýtum," nú "ónýt steypa".

Torfusamtökin hafa reynslu að því að fást við mat á húsum, þar sem viðkomandi hús hafa verið dæmd einskis virði en annað hefur komið í ljós. 

Í kringum 1970 átti að rífa Bernhöftstorfuna og reisa risastóran glerkassa fyrir stjórnarráð Íslands. Sagt var að húsin í á torfunni væri "ónýtt kofadrasl og fúaspýtur" enda væri timbur þess eðlis að það entist skammt, fúnaði og yrði ónýtt.

Þess vegna þyrfti að ryðja burt þessu timburdrasli svo sem Fjalakettinum og öðrum úreltum timburhúsum og reisa bákn úr steypu og gleri í staðinn. 

Nú myndi engum láta sér detta í hug að hrófla við Bernhöftstofrunni. 

Það nýjasta er þrátt fyrir alla ástina á steinsteypunni er nú er hún allt í einu orðin að ónýtu drasli sem þurfi að fjarlægja og reisa stærri og meiri steinsteypuklumpa í staðinn. 

Að vísu verður byrjunin fólgin í að rífa það gamla og reisa eftirlíkingu í staðinn.

En þegar um er að ræða menningarminjar verður hins vegar að stíga varlega til jarðar og vanda sig. 

Þar sem slíkt hefur verið gert víða á landinu hefur það gefist vel. 

 


mbl.is Niðurrif „menningarlegt slys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man nú einhver auglýsinguna um "Kápþinking"?

Kannski mætti kalla málið, sem dæmt var í í gær, Búnaðarbankamálið ef ferill hinna sakfelldu er rakinn aftur í tímann vegna þess að við sölu Búnaðarbankans upp upp úr síðustu aldamótum varð til ákveðinn hugsunarháttur og fjársýsluaðferð, sem gekk eins og rauður þráður í gegnum stofnun Kaupþingsbankans og starfsemi hans allt til Hruns. 

Veifað var sem staðreynd að þýskur banki hefði mikinnn áhuga á sölunni þótt í ljós kæmi að ekki var fótur fyrir því, og kaupendur Landsbankans og Búnaðarbankans stunduðu sameiginlegar og samtvinnaðar bókhaldskúnstir til þess að fóðra kaupin svo að á yfirborðinu liti út fyrir að lagðir væru fram miklir fjármunir þegar þessi fjármunir voru í raun að miklu leyti tölur á pappír.

Þessar aðferðir svínvirkuðu og báru þann tilætlaðan árangur að færa nýjum einkaeigendum þessa tvo ríkisbanka á silfurfati undir stjórn þáverandi landsherra á bak við tjöldin.

Þegar fyrir lá hve árangursríkar svona brellur voru og meira að segja löglegar, þótt Vilmundur Gylfason hefði líklega sagt að þær væru "löglegt en siðlaust" athæfi, varð ekki aftur snúið í því að halda áfram að þróa hinn nýja stíl á viðskiptasviðinu þangað til hann færi með himinskautum.

Hannes Smárason lýsti hliðstæðum hundakúnstum þáverandi fjármálasnillinga á Íslandi þannig í tímaritsviðtali 2007 að "það myndi engum detta í hug að gera það sem við erum að gera nema fólki sem veit engan veginn hvað það er að fara út í." Og svaraði með þessum orðum spurningu undrandi blaðakonu um "innihald íslenska efnahagsundursins" sem lýst var í kosningaauglýsingum með kjörorðunum "traust efnahagssstjórrn" og "árangur áfram,- ekkert stopp." 

Sömu stjórnmálaöfl og höfðu hrint af stað 90% lánshlutfalli á landsvísu og unnið kosningar út á það kjörorð, og höfðu jafnframt staðið að mestu þenslu síðari áratuga gáfu hinum innvígðu og innmúruðu snillingum tækifæri til að færa blekkingakúnstir græðginnar á fjármálasviðinu upp í nýjar hæðir á heimsvísu með stofnun og starfsemi Kaupþings og hinna einkabankanna.  

Óbrotgjarnasti vitnisburðurinn til allrar framtíðar um það hvert menn voru komnir þegar hæst lét var myndband fyrir starfsfólk og viðskiptavini Kaupþingsbanka þar sem fullyrt var að í þeim banka hefði verið fundin upp alveg ný og háþróuð formúla í fjármálaviðskiptum sem hlaut nafnið "Kaupthinking", borið fram "Kápþinking".

Þar með væru Íslendingar orðnir svipaðir brautryðjendur og byltingarfrömuðir í fjármálasnilld á heimsvísu og víkingarnir voru í landafundum fyrir þúsund árum.

Þegar horft er á þetta myndband tekur maður andköf af undrun yfir því hvert þessir menn og þjóð þeirra voru komnin. Og tekur aftur andköf þegar maður heyrir hvaða augum Sigurður Einarsson lítur á dóm Hæstaréttar, því að skoðun hans á dóminum er í rökréttu samhengi við alla atburðarásins, sem hófst með sölu ríkisbankanna fyrir 13 árum, og munurinn á viðhorfum hans og hæstaréttardómaranna er svo yfirgengilega mikill, að maður á ekki orð.

Man nú nokkur "Kápþinking"? Eða er þetta aðferð sem er að stinga upp kollinum á ný hér og þar í nýjum myndum?

Lára Hanna, máttu og geturðu framkallað myndbandið um "Kápþinking" fyrir okkur svo að við getum notið þess að sjá það aftur. Og helst aftur og aftur og aftur? 


mbl.is Mikilvægt að ekki skapist friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miskunnsami Samverjinn fjarstaddur.

Miskunnsami Samverjinn í dæmisögu Krists kom nauðstöddum manni til hjálpar eftir að góðborgarar og prelátar höfðu gengið fram hjá honum í blóði sínu hver á fætur öðrum án þess að gefa sig að honum eða leggja honum lið.  

Ef Kristur hefði verið að segja þessa dæmisögu á Íslandi á þessum Drottins degi, hefði hann líklega sett prest, þingmann, dómara og vellauðugan framkvæmdastjóra í hlutverk þeirra sem sýndu sinnuleysi en öskukarl í hlutverk miskunnsama Samverjans. 

Munrinn er þó sá, að enginn öskukarl var á ferð þar sem nauðstadda íslenska konan lá með tveggja ára barn við hlið sér.

Hliðstæður þessarar íslensku sögu er reyndar alþekktar víða úr borgarsamfélögum heimsins og eru taldar merki um ákveðna firringu í streitu borgarlífsins, sem svipti okkur samkennd með náunga okkar.

 

 


mbl.is Hunsuðu konu í flogakasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband