Nýir tímar í íslenskri tónlist.

"Hver er þessi María Ólafsdóttir? er spurning sem hefur vaknað að undanförnu. Hvaðan kemur þessi kornunga söngkona, sem kom, sá og sigraði í kvöld? 

Svarið liggur í fádæma vel heppnaðri útrás íslenskra tónlistarmanna og kvikmyndagerðarmanna undanfarin ár. 

1500 tónleikar þeirra erlendis á síðasta ári eru nefndir sem dæmi, dæmi um það sem fyrir nokkrum árum var kalla "bara eitthvað annað" (annað en stóriðja) í hæðnistóni þegar velt var upp, í hverju framtíð Íslands fælist.  Sjálfur hef ég fylgst með því hvernig Haukur Heiðar Hauksson og Dikta hafa mátt hafa sig alla við að anna erlendri eftirspurn undanfarin ár. 

María Ólafsdóttir hefur verið önnum kafin erlendis við þessa nýju landvinninga, sem byggjast ekki á klækjum brellum og sápukúlulíkri spilaborg eins og bankaútrásin á sínum tíma, því að enginn nær árangri í krefjandi samkeppninni á þessu sviði nema að hafa eitthvað raunverulega gott fram að færa.

Það eru nýir spennandi tímar runnir upp í íslenskri tónlist og ástæða til að óska þeim, sem þar spretta upp og gera góða hluti, til hamingju.

Einnig Ríkisútvarpinu, sem steig upp um klassa í útsendingunni í kvöld, þannig ýmis vandamál fyrri útsendinga urðu gleymdar og grafnar.

Heyrst hafa raddir um að RUV eigi að hætta við það, eftir 19 ára feril, að taka þátt í Söngvakeppni evrópskrar sjónvarpsstöðva.

Það er sérkennilegt sjónarmið.  


mbl.is María Ólafs fer til Vínarborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjóta fyrst og spyrja svo?

Óvenju gild og mörg rök eru fyrir því að Hagavatnsvirkjun sé í biðflokki. Leirurnar sem sökkva á eru flatar og Landgræðslustjóri hefur mótmælt því að lónið, sem mynda á til að sökkva leirunum, verði notað sem miðlunarlón vegna þess óhjákvæmilega og nýja leirfoks sem myndi verða nýföllnum leir á hverju vori þegar lítið er í lóninu.

Hvert verður gildi og hagkvæmni virkjunarinnar ef hún verður í lamasessi á veturna? Og útsöluverðið á orkunni?Sandvatn

Og hvaðan eiga gróðurhúsabændurnir, sem sagt er að eigi njóta góðs af virkjuninni að fá orku á veturnar. 

 

Á mynd RAX, sem sýnd er með frétt á mbl.is og er sennilega tekin fyrir nokkrum árum, sést hvernig vatnið er að fyllast upp af framburði Sandár vinstra megin á myndinni, - svonefnd aurkeila, sem gerir ekkert annað en að stækka ár frá ári með nýju sandfoki.

Þá mun þurfa nýja og stærri stíflu til að sökkva enn stærra svæði en gert var um 1990 og svona áfram koll af kolli. 

Sama mun gerast varðandi stækkað Hagavatn. Þarna er skómigustefnan, að það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, lifandi komin.

En virkjanaákefðin er svo mikil að það á að skjóta fyrst og spyrja svo.  

 


mbl.is Hagavatn fari í nýtingarflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótasetning Vilmundar: "Löglegt en siðlaust".

Fyrir um fjórum áratugum þegar Vilmundur Gylfason fjallaði um ákveðin álitamál í viðtali í sjónvarpsþætti og viðmælandinn reyndi að réttlæta gerðir sínar með því að segja að þær hefðu allar verið fyllilega löglegar, hraut út úr Vilmundi: "Löglegt en siðlaust", einhver merkilegustu orð síðustu aldar, því að enn í dag, fjórum áratugum síðar, varpa þessi orð ljósi á nýjustu viðfangsefnin í dómsmálum hér á landi og stærsta mál síðustu áratuga, Hrunið. 

Það eitt, að þetta skuli vera í gerjun hér á landi nú, sýnir hve langt Vilmundur var á undan samtíð sinni, ekki aðeins hér á landi, heldur á alheimsvísu. 

Eva Joly nefnir dæmi um alþjóðasamhengið, að í öðrum löndum sé meðferð mála hliðstæðu Al Thani-málinu ekki komin á það stig sem birtist í dómi Hæstaréttar. 

Nýlega var í bandarískum sjóvarpsþætti varpað ljósi á spillt hagsmunatengsl bandarískra bankastofnana og þingmanna og var það rakið í bloggpistli hér á síðunni á dögunum. 

Hinir sakfelldu í Al-Thani-málinu halda fram sakleysi sínu og einn þeirra ætlar að leggja málið fyrir Mannréttindadómsstól Evrópu. 

Þetta er út af fyrir sig rökrétt afstaða hinna sakfelldu, því að allan feril sinn frá síðustu aldamótum réði för hjá þeim ákveðið hugarfar sem strax gekk fram af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, sem sýndi álit sitt og hug á táknrænan hátt og tók út allan sparnað sinn hjá Búnaðarbankanum. 

Má það vel vera í minnum haft þótt sá hinn sami Davíð hafi, ásamt Halldóri Ásgrímssyni, staðið á bak við það hvernig þeir Kaupþingsmenn og Landsbankamenn komust upp með klæki sína við kaupin á ríkisbönkunum.  

Margir munu kalla hugarfarið sem Davíð mótmælti, siðblindu, því að hinir ákærðu hafa ekki talið neitt athugavert við gerðir sínar, hvorki lagalega né siðlega og trúa þessu sennilega sjálfir.  

Þess vegna eru orð Vilmundar í fullu gildi í dag sem og viðfangsefnið á alþjóðlegan mælikvarða, að athæfið, sem dæmt hefur verið fyrir, hafi hvorki verið löglegt né siðlegt. 

Eva Joly getur verið stolt af sínu framlagi til málsins, hvernig sem það fer á endanum í Strassborg. 

Á hinn bóginn verður ávallt að vanda til verka þegar um er að ræða það svið lýðræðisins, sem getur brotist út í reiði sem yfirgnæfi sanngirni og réttlæti eins og gerðist í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma. 

 


mbl.is „Mjög gott fyrir lýðræðið á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krepputunga, Hvannalindir, Kverkfjöll, Askja og Herðubreiðarlindir "lokuð".

Miklu skiptir varðandi lokanir og öryggisráðstafanir í kringum gosið í Holuhrauni að reynt verði að sýna meiri sveigjanleika en gert var í fyrra.

Svo er að sjá á korti yfir breytt aðgangssvæði við eldgosið að staðirnir, sem taldir eru upp í fyrirsögn þessa pistils séu á því svæði, sem þess vegna getur verið lokað fyrir venjulegri umferð, en hins vegar opnast aðgangur að Dyngjuhálsi og Dyngjufjallaleið þótt á hættusvæði sé.

Heitið "aðgangsstýrt svæði" vekur vonir um að settir verði í það fjármunir og mannskapur að stjórna umferð eftir veðri og aðstæðum með tengslum við þá sem eru á ferðinni því að það er slæmt fyrir ferðaþjónustuna ef ástandið lagast ekkert frá því í fyrrasumar.

Úr sögunni er óþörf lokun, sem var í fyrra á Þríhyrningsleið, Álftadalsleið, Brúardalaleið og fleiri leiðum norðaustan við Arnardalsá.

Eftirsjá er að svæðinu vestan við Dettifoss en huggun að hægt verður áfram að að fara að fossinum austan megin eins og var áður en nýi vegurinn var lagður vestan megin að honum.    

 

 


mbl.is Breytt aðgangssvæði við eldgosið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband