Nærbuxnalaus þingmaður á Alþingi.

Fátt er nýtt undir sólinni, að minnsta kosti það að þingmenn greiði atkvæði nærbuxnalausir á þingi. Það gerði Albert Guðmundsson á útmánuðum 1980. 

Málavextir voru þeir að Albert var fastamaður í Stjörnuliði mínu og lék með því einn af tugum leikja þess kvöld eitt í Laugardalshöllinni. Þegar leiknum var lokið voru tveir leikmenn, ég og hann, mikið að flýta okkur. 

Ég var að flýta mér til að koma ekki of seint til að skemmta suður í Keflavík og hann til að taka þátt í áríðandi atkvæðagreiðslu á kvöldfundi á Alþingi. 

Þegar við vorum að klæða okkur í fötin kom í ljós að nærbuxur Alberts voru týndar. Honum lá mikið á og allir í klefanum fóru í dauðaleit að buxunum og hamaðist ég einna mest, en þessu lauk þannig vegna tímahraks að við Albert urðum báðir að hverfa af vettvangi og hann nærbuxnalaus til atkvæðagreiðslunnar á þinginu.

Ég fór suður með sjó og kom síðan seint heim, dauðþreyttur eftir at kvöldsins. Helga var komin upp í rúm. 

Þegar ég er að afklæðast skellir hún upp úr og spyr hvers konar nærbuxur þetta séu hjá mér, - þær líkist frekar tjaldi en buxum.

"Ætli teygjan hafi bara ekki slitnað" segi ég.

"Kanntu annan?" spyr hún. Það komast tveir í þessar buxur."

Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði í flýtinum í búningsklefanum farið óvart í buxur Alberts, en hann var á að giska tvöfalt víðari um sig en ég. 

Ég hafði samband við Albert daginn eftir og varð það niðurstaða málsins að vegna þess að hann var þá í forsetaframboði væri rétt að bíða með afhendingu buxnanna þar til það kæmi í ljós hvort yrði kjörinn forseti. 

Yrði hann kjörinn yrði sérstök athöfn þar sem ég myndi stilla mér aftast upp í röð sendiherra erlendra ríkja, þegar þeir afhentu forsetanum skilríki sín, og myndi ég þá afhenda honum nærbuxur hans. 

 


mbl.is Nærbuxur þrengdu að þingmanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að flá kindina í stað þess að rýja hana?

Í gamla daga var sagt að það væri hyggilegra að rýja kindina heldur en að ganga það hart að henni að flá hana. 

Þetta kemur upp í hugann varðandi það hvernig virðist eiga að ganga að Grikkjum með hnúum og hnefum til að kreista út úr þeim fjármuni, sem þeir eiga ekki lengur og heimta af þeim skuldagreiðslur sem þeir eiga heldur ekki neina möguleika lengur á að greiða.

Þegar þjóðarframleiðslan hefur minnkað um marga tugi prósenta og atvinnuleysi er 25% og allt upp í 50% hjá unga fólkinu, blasir við að allt tal um að svo lemstrað þjóðfélag geti borgað svimandi háar skuldir sínar er augljós fíflagangur og tómt mál að tala um það, hvernig þessar skuldir urðu til, - þeirri fortíð verður ekki breytt heldur einungis um það að ræða að afskrifa þær eins mikið og þarf.

Því að eini möguleikinn í svona gjörtapaðri stöðu er að leita að lausn, sem getur aukið þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur Grikkja á nýjan leik svo að þeir eigi möguleika á að komast á fæturna í stað þess að stefna inn í enn meira svartnætti en nú blasir við.   


mbl.is Þurfa að uppfylla ströng skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Án "fjórða valdsins" hrynur þrískipting lýðræðislega valdsins.

Margir hafa horn í síðu fjölmiðlanna og telja þá vera of fyrirferðarmikla og valdamikla. 

Þeir telja að þrír hlutar valdsins, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald sé fyllilega nægilegt í skipan nútíma lýðræðisþjóðfélags.

Þessir armar valdsins séu fullfærir um að ná í og hafa hjá sér þær upplýsingar sem þarf til að framkvæma ríkisvaldið.

Reynslan sýni að fjölmiðlum sé oft misbeitt gróflega og því hið besta mál að draga úr þeim tennurnar. 

Nú er það svo að fjölmiðlamenn geta alveg eins gert mistök og aðrir, þannig að sú röksemd, að þeim séu stundum mislagður hendur, á alveg eins við hjá þeim sem vinna við framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Og þegar litið er yfir tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna fyrir árið 2014 sést vel hve miklu hlutverki fjölmiðlar gengdu á ýmsum sviðum til þess að koma mikilsverðum málum í umræðu það ár hjá þremur greinum valdsins, málum sem sum hver hefðu annars ekki verið til umræðu eða umfjöllunar, hvað þá komið fyrir dómstóla. 

Sum þessara mála kunna að vera óþægileg fyrir valdaöfl sem þess vegna vilja þagga þau niður og velja stundum fjölmiðlafólki hin verstu nöfn.

En lýðræðið og þrískipting valds þess er gagnslaust nema til sé svið, sem fæst við það að koma nauðsynlegum og réttum upplýsingum og staðreyndum á framfæri svo að fólkið geti notað sitt lýðræðislega vald.

Annars er allt tal um lýðræði orðin tóm.      

 


mbl.is Mbl.is tilnefnt fyrir umfjöllun ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímanna tákn, niðurlæging Náttúrminjasafnsins?

Ferðamenn, sem koma til Íslands, eru að fara yfir milljón á ári og ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur landsins, mælt í peningum, yfir 350 milljarðar á ári.

Meira en 80% ferðamanna segjast vera komnir vegna einstæðrar náttúru landsins.

Hinn eldvirki hluti Íslands er talið eitt af sjö merkustu náttúrufyrirbærum Evrópu og í hópi 40 merkustu náttúrufyrirbæra heims.

Á sama tíma fær eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, Náttúruminjasafnið 5% - 10% af fjárveitingum hinna tveggja safnanna, skrifstofu þess er hent úr húsnæði sínu út á guð og gaddinn í boði forsætisráðherra og Háskóla Íslands, og ástand og verustaður fyrir muni safnsins er þjóðarskömm. 

Tímanna tákn? 

 


mbl.is HÍ fær gömlu Loftskeytastöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband