Langbylgjutæki hefði breytt öllu.

Það var giskað á það hér á síðunni þegar byrjað var að reyna að leita að Kerstin Langenberger, að hefði hún verið með lítið langbylgjutæki á sér hefði það geta afstýrt leitinni. 

Nú er komið í ljós, að þetta var rétt, jafnvel þótt sending langbylgjutækisins væri bara aðra leiðina.

Því að hefði hún hlustað á það, hefði hún fengið að vita að leit væri hafin og hefði þá getað nýtt sér neyðarsímann í Hvanngili.

Hún vissi hins vegar ekkert um að leit væri hafin og notaði því ekki símann.  


mbl.is Vissi ekki að leitað var að henni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þetta er kristin þjóð mestan part.

Kristur gat að vísu verið "aktivisti" eða aðgerðasinni þegar svo bar undir. Hann fór inn þar sem fjárplógsmenn höfðu komið sér fyrir í guðshúsi með viðskipti sín og hratt um borðum þeirra reiður mjög. 

Fór líka í mikla innreið í Jerúsalem ásamt göngu mikilli. 

En kenning hans var samt í grunninn frelsi ("sannleikurinn mun gera yður frjálsa), fögnuður (fagnaðarerindið, fegurð ("gætið að blómum vallarins"), friður ("komið til mín...ég mun gefa yður frið."), fyrirgefning og umburðarlyndi ("dæmið ekki, því að þér munið sjálfir dæmdir verða.")

Þess vegna er grátlegt að það skuli vera meðal kristinna þjóða í Evrópu sem stærstu og mannskæðustu stríð siðustu alda og herferðir með vopnum og drápum skuli hafa átt upptök sín.

Það er að vísu ekki öll sagan, því að bæði Japanir og síðar Kínverjar undir Maó stóðu að drápum tuga milljóna manna á síðustu öld. En kenning Maós var upprunnin í Evrópu. 

Þjóðverjar þurftu að gjalda dýru verði fyrir villimennsku Hitlers og nasistanna og hafa leitast við að læra af því.

En nú virðist síga á ógæfuhlið og það er nöturlegt, ef satt er, að stækkandi hluti, nú orðinn fimmtungur þýsku þjóðarinnar, sem ól af sér Heine, Göthe og Beethoven, skuli nú hallast að harðneskjulegum og miskunnarlausum hugmyndum um blóðuga byltingu, ef marka má skoðanakönnun um það efni.   

 

   


mbl.is Fimmtungur Þjóðverja vill byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmarkalaust frelsi er ekki til.

"Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar." Þetta er eitt af því frumkvöðlar vestrænnar hugsunar um frelsi tóku fram sem forsendu fyrir mesta mögulega samanlagða frelsi allra og vöruðu með því við því að óheft frelsi fárra gerði fjölda annarra ófrjálsa. 

Núverandi trúfrelsisgrein íslensku stjórnarskrárinnar setur þennan varnagla og í tillögu stjórnlagaráðs segir að trúfrelsi skuli "háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi." 

Sú fullyrðing er því röng sem sífellt er tönnlast á að múslimar á Íslandi eigi rétt á samkvæmt íslenskum lögum að láta öfgafyllstu túlkun á Sharía-lögum gilda hjá sér, svo sem handarhögg fyrir þjófnaði og líflát fyrir að vera ekki múslimatrúar. 

Ef múslimar gætu sett á Sharía-lög innan sinna raða og framfylgt þeim gætu kristnir öfgamenn myndað söfnuð, þar sem þrælahald væri stundað, konur sviptar málfrelsi á opinberum vettvangi, hins vegin fólki refsað fyrir kynhvöt sína og heimilt væri að nota vopnavald til að kristna fólk, samanber boðorðið um að menn skuli ekki girnast þræl eða ambátt náunga síns, ummæli í Nýja testamentinu um að konur skuli þegja á fundum og skipun Krists um að fara og gera allar þjóðir kristnar, en það skóp fordæmi Ólafs "helga" Noregskonungs og krossfaranna, sem birtist í styttu af konungnum á hesti með Biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni.

Á Ítalíu er bannað að stofna fasistaflokk og í Þýskalandi bannað af stofna nasistaflokk. Svo róttækt bann og frelsisskerðing þykir nauðsynleg aðgerð í ljósi þeirrar villimennsku og hörmunga sem fasistar og nasitar leiddu yfir heiminn. 

 

Það er afar einfölduð mynd að stilla átökunum við íslamska hryðjuverkamenn í Írak og Líbíu upp sem átökum eingöngu milli múslima annars vegar og vestrænna þjóða hins vegar.

Hryðjuverkamennirnir myrða og limlesta fyrst og fremst aðra múslima og Jórdanir og Egypta hafa beitt hervaldi gegn þeim af fyllstu hörku og íslamistarnir verið fordæmdir af fleiri þjóðum, þar sem múslimatrú eru höfuðtrúarbrögðin.   

 


mbl.is Heitir „varanlegum sigri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Áunnin fáfræði" er oft knúin áfram af stundarhagsmunum.

Allt fram til ársins 2006 trúði ég því þessari fullyrðingu öflugasta fjölmiðlamanns allra tíma: "Sannleikurinn mun gera yður frjálsa." Ég trúði því að með því að birta óhlutdrægar upplýsingar og gera mismunandi skoðunum jafnhátt undir höfði myndi fást fram skynsamlegasta niðurstaðan í umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi. 

Þetta reyndist tálsýn. Strax árið 1999 fór í gang herferð gegn starfi mínu og var þess krafist að ég yrði rekinn frá RUV fyrir að "misnota aðstöðu mína" með "einhliða áróðri" og "einokun á umfjöllun".

Rökin fyrir þessari kröfu voru þau að ég hefði sýnt myndir af virkjunarsvæðum, en það hefði enginn gert fyrr og því hlytu slíkar myndbirtingar út af fyrir sig að vera hlutdrægar.

Vanræksla mín og annarra fram að því í að sýna virkjunarsvæðin var talin vera rök fyrir því að ekki ætti að fjalla um virkjunarsvæði og áhrif virkjana, af því að fyrirfram væri vitað að svæðin væru einskis virði, hefðu ekki kunnug fólki fram að því og að það eitt sannaði að þau væru ekki krónu virði!

Svona viðbrögð voru mér svo sem ekki ókunnug, því að svipuðu hafði verið haldið fram þegar ég sýndi ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi á níunda áratugnum í þáttum og fréttum.

Það var argasta hlutdrægni að sýna ástand landsins.  

Á vegum útvarpsráðs 1999, var umfjöllun mín um virkjanamál rannsökuð rækilega, einkum sú ásökun að ég hefði verið hlutdrægur í birtingu mismunandi sjónarmiða og einokað umfjöllunina, og kom í ljós að hún átti ekki við rök að styðjast. Þessi sýknun gerði mögulegt að halda áfram upplýsingamiðlun um málin fram til 2006, en þá var óhjákvæmilegt að gefast upp fyrir því sem kalla má "áunna fáfræði", sem knúin var áfram af fjársterkustu valdaöflum þjóðfélagsins. 

"Áunnin fáfræði" sést vel í núverandi umfjöllun um Hagavatnsvirkjun. Verið hefur í gangi síbylja um ágæti virkjunarinnar og fullyrt að allir aðilar, heimamenn, Orkustofnun og stjórnvöld séu einróma sammála um kosti hennar og að nákvæmar og ítarlegar rannsóknir liggi fyrir að henni fylgi einungis kostir og alls engir gallar. Fullyrt að Landgræðslan og Skógræktin beiti auk þess þrýstingi á að keyra málið í gegn. 

Ég skrifaði grein um málið nýlega í Morgunblaðið þar sem þetta var hrakið, meðal annars sú síendurtekna fullyrðing að Landgræðslan sé meðmælt virkjuninni og "þrýsti á" um hana.

En þetta er eins og að stökkva vatni á gæs. Áfram birtast pistlar þar sem síbyljan um allsherjar ágæti virkjunarinnar er endurtekin. Ég hef skorað á þá, sem halda í síbyljuna, að hrekja þau rök sem birtist í greininni, en því er ekki ansað. 

Þegar ég ræði við fólk um málið, virðist enginn hafa lesið þessa grein mína og enginn kannast við neitt annað en dýrð og dásemd þessarar virkjunar.

Augljósir stundarhagsmunir eru í húfi varðandi vikjunina, þar sem hagsmunir seinni kynslóða eru fótum troðnir. Þess vegna verður "áunnin fáfræði" um hana keyrð áfram hér eftir sem hingað til með góðum árangri fyrir þá sem þessari aðferð beita.  

 


mbl.is Afneitunarsinni á olíuspena
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útspil Davíðs kann að verða tvíbent.

Þótt Reykjavíkurbréf sé ekki ritað undir nafni er líklegast að Davíð Oddson sé höfundur síðasta Reykjavíkurbréfs, ef miðað er við efni þess, sem er lán Seðlabankans til Kaupþings rétt fyrir Hrunið í október 2008. 

Í bréfinu er leitast við að fría Davíð af allri ábyrgð á þessu láni og koma ábyrgðinni alfarið yfir á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Einnig er sagt að krafan um afsögn Davíðs hafi verið fáheyrt rugl. 

Tvennt kanna að trufla þessa röksemdafærslu Davíðs og beina umræðunni í aðra átt en hann vonast til. 

Í fyrsta lagi ber bæði Má Guðmundssyni núverandi Seðlabankastjóra og Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi Seðlabankastjóra, saman um það, að lögum samkvæmt beri stjórn Seðlabankans ævinlega endanlega ábyrgð á lánveitingum bankans. 

Í öðru lagi var það krafan alla tíð í Búsáhaldabyltingunni frá október 2008 til janúar 2009 að bæði ríkisstjórnin og Seðlabankastjórnin færu frá. 

Og bæði ríkisstjórnin, með ráðherrum Sjalla og Samfó, og Seðlabankastjórinn fóru frá. 

Skrifin í Reykjavíkurbréfinu og aðrar umræður um málið hljóta að gefa þeirri kröfu aukið vægi að birta símtalið fræga milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar. 

Og þá verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins. 


mbl.is Hyggst gera skýrslu um Kaupþingslán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband