Endurtekur sagan frá 1977 sig?

1977 var uppi mikil óánægja hjá launþegahreyfingunni vegna þess hve hraksmánarlega lág lægstu launin væru, langt frá því að vera mannsæmandi eins og það var orðað þá. Þetta var á árum verkfalla og víxlverkana launa og verðlags með gengisfellingum og tilheyrandi. 

Dæmi um verðbólguna var, að  1974 sá ég um að ráða skemmtikrafta fyrir 1100 ára afmælishátíðir Íslandsbyggðar í Reykjavík og á Akureyri og borgaði skemmtikröftunum strax sem og allan ferðakostnað. En skriffinnskan tafði fyrir því að ég fengi borgað hjá þessum bæjarfélögum og verðbólgan át svo upp þessar fjárhæðir, að ég tapaði á þessu á báðum stöðum! 

Borgaði sem sagt á endanum með mér enda komst verðbólgan á árunum 1974-75 í 50%, þá mestu síðan 1942. 

Í umræðum á Alþingi gerðist það sama og nú. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru í stjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar og Ólafur Jóhannesson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, tók í umræðum á Alþingi 1977 undir kröfu launþega um 100 þúsund króna lágmarks mánaðarlaun.

Það fór illa í atvinnurekendur og marga Sjálfstæðismenn, sem sögðu að svo mikil launahækkun myndi hlaupa verðbólgunni af stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Eftir verkföll í júní 1977 var samið í svonefndum Sólstöðusamningum um myndarlega hækkun lágmarkslauna. Verðbólgan tók mikinn kipp og í ársbyrjun 1978 var svo komið að ríkisstjórnin taldi sig nauðbeygða til að grípa til aðgerða gegn henni.

Við það fór allt á annan endann svo að árið 1978 varð eitthvert hið sviptingasamasta í stjórnmálasögu landsins.

Verkalýðshreyfingin fór í mikinn ham undir kjörorðinu "Samningana í gild!" og um sumarið féll meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem setið hafði þar að völdum alla öldina.

Stjórnin féll í kosningunum í mesta kosningaósigri Sjalla og Framsóknar.  

Vinstri stjórn tók við en mistókst að uppfylla loforðin um samningana í gildi og féll sjálf lömuð af sundurlyndi aðeins 13 mánuðum síðar. 

Nú er spurningin hvort svipað muni gerast nú og enn mistakist að ná lægstu smánarlaununum upp í mannsæmandi upphæð.

Aðstæður eru um sumt ólíkar. 1977 voru lán ekki verðtryggð og skuldir heimilanna voru því allt annars eðlis en nú, af því verðbólgann át lánin upp og færðu skuldurum tugi milljarða á kostnað sparifjáreigenda.

Nú þýðir 10% verðbólga margfalt meira áfall fyrir yfirskuldsett heimili landsins en 30-50% verðbólga gerði 1977.

Verðbólgan fram til Þjóðarsáttarinnar 1990 olli því að útilokað var annað en að hafa ströng gjaldeyrishöft. ´Þjóðársáttin lagði grunn að því að smám saman var hægt að koma hér á gjaldreyrisfrelsi sem entist þó aðeins í nokkur ár.

Ef verðbólgan fer aftur af stað nú með tilheyrandi gengisfellingum, er útséð um að hægt sé að losa um gjaldeyrishöftin. 

En sumir segja að það sé allt í lagi, því að hvort eð er verði ekki hægt að losa um höftin og að góð reynsla hafi verið gengisfellingu krónunnar 2008-2009.

Svolítið skrýtið, því að gengisfellingin sú arna olli þeim vanda sem verið var að reyna að leysa að hluta með skuldaniðurfellingunum margumræddu og gengisfelling rýrir launakjör og kaupmátt hratt og örugglega og étur með áframhaldandi gjaldeyrishöftum upp ávinning af skuldaniðurfærslunni.  

 

 

 


mbl.is Grunnlaun dugi fyrir nauðsynjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur frá Afríku.

Hópur mannasálfræðinga og dýrasálfræðinga rannsakaði hegðun kynjanna varðandi makaval og komst hér um árið og komst að svo merkilegri niðurstöðu, að tímaritið Time gerði hana að "forsíðusögu" (Cover Story) blaðsins. 

Þeir töldu að í sögu mannsins væri svo skammur tími síðan aðstæður breyttust frá því í skógum og á sléttum Afríku, að erfðaeiginleikar formæðra og forfeðra okkar réði enn miklu um hegðun manna.

Ástæðan fyrir því að konur löðuðust oft að eldri mönnum og væru sérstaklega veikar fyrir mönnum í einkennisbúningum, svo sem hermönnum, væri sú að frumkonan (apakonan) leitaði að sterkum manni, sem gæti varið hana og börnin og "skaffað" til heimilisins og hefði afl og vald. 

Þá skipti aldurinn ekki máli. 

Byssa og einkennisbúningur hermanna væri tákn um afl og vald. Og frægir, valdamiklir og ríkir menn hefðu mikið aðdráttarafl. 

Karlmaðurinn sæktist hins vegar eftir konu sem væri ung og frísk, gæti alið af sér heilbrigð börn og annast þau vel . Það væri sennilega grunnskýringin á því fyrirbrigði meðal karlmanna, sem kallað væri "grái fiðringurinn".  

Þessi Time-grein birtist rétt eftir að ítalskt herskip hafði stoppað stutt í Reykjavíkurhöfn og upphófst eltingarleikur yngismeyja við ítölsku hermennina, sem stóðu vart út úr hnefa og hlaut eftirá heitið "Hljómskálagarðsfarganið" ef ég man rétt. 

Ég gerði að því grín á skemmtunum að meirihlutinn af sjö börnum okkar hefðu fæðst í september og októberbyrjun á þeim árum, þegar ég var í gervi og búningi jólasveins níu mánuðum fyrr.

Það sannaði að konur væru veikar fyrir einkenninsbúningum !  


mbl.is Af hverju eltast karlar við yngri konur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sexflokkur" að festast í sessi? Sérstaða Sjallanna horfin?

Í kosningunum 2013 endaði ferill "fjórflokksins" svonefnda, að minnsta kosti í bili. Síðan þá hefur verið að festa sig í sessi nýtt flokkakerfi í skoðanakönnunum sem kalla mætti "sexflokkinn". 

Fjórflokkurinn varð til árið 1942 og lifði í 59 ár. Einstaka sinnum komu upp nýir flokkar sem fengu tímabundið fylgi, en lognuðust síðan útaf. 

Algengustu stærðarhlutföllin í prósentum voru: Sjallar með um 40% og hinir þrír með 15-25%. 

Nú eru stærðarhlutföllin ekki ólík hvað snertir það að Sjallar eru enn stærsti flokkurinn, en hinar tölurnar hafa verið að fletjast út, svo að hlutföllin eru: Sjallar með í kringum 25% og hinir fimm með í kringum 15% hver. 

Munurinn á þessum nýju hlutföllum og hinum gömlu er sá, að á tímabilinu 1942-2013 var ekki hægt að hafa Sjálfstæðisflokkinn utan stjórnar nema að allir hinir flokkarnir stæðu saman að ríkisstjórn. 

Og ekki var hægt að mynda tveggja flokka stjórn án þáttöku Sjálfstæðisflokksins.

Ef sleppt er þjóðstjórnarárunum 1942-44 stóð Sjálfstæðiflokkurinn að ríkisstjórn í allan tímann 1944-2013 nema 42-44, 56-58, 71-73, 78-79, 88-91 og 2009-13.

Hann var í stjórn 54 ár en utan stjórnar í 15 ár. Hér er stjórnarþáttaka nokkurra þingmanna Sjallanna í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-83 ekki talin sem plús, því að yfirgnæfandi meirihluti þingflokksins var í stjórnarandstöðu. Það jafnar sig út við árin 1944-47 þegar fimm þingmenn flokksins stóðu ekki að Nýsköpunarstjórninni en yfirgnæfandi meirihluti þingflokksins studdi stjórnina. 

Nú hefur þetta allt breyst vegna veiklunar Sjallanna. Nú geta þrír til fjórir af fimm hinna flokkanna myndað ríkisstjórn og þarf ekki að hafa þá alla innanborðs í ríkisstjórn. 

Og ekki verður lengur hægt að mynda tveggja flokka stjórn, en staða Sjallanna í því efni var eitt sterkasta tromp þeirra í næstum sjö áratugi. 


mbl.is 36,4% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Hin nýja tækni við gerð dróna hefur opnað marga heillandi möguleika til að nýta þessi stórkostlegu flygildi við viðfangsefni, sem annars væri illmögulegt eða ómögulegt að leysa. 

Sama átti við um leysigeislana á sínum tíma. 

En hvort tveggja, leysigeisla og dróna, gildir að það er ekki spurningum um hvort, heldur hvenær þessi tækni veldur slysum og áföllum. 

Raunar er sívaxandi notkun dróna til loftárása oft lítilmótlegt athæfi, þar sem menn sitja á skyrtunni við stjórnborð í fjarlægð og stýra drónunum til þess að sprengja fólk í tætlur.

Í slíkum tilfellum gæti átt við nýyrðið mannleysa, sem kom upp í umræðum á fréttastofu RUV um hina nýju gerð flygilda.

 

Nú þegar liggur fyrir að víða um heim hafa menn reynt að nota leysigeisla til þess að blinda flugmenn í aðflugi að flugvöllum og sýnir það alveg sérstakt innræti þeirra sem beitt hafa geislunum.

Sé miðað við þessa reynslu er ekki spurning um hvort heldur hvenær menn með svipaðan einbeittan brotavilja á háu stigi valda manntjóni.

Engar reglur eru enn hér á landi um notkun dróna og meðan svo er, vaxa líkurnar á óhöppum og slysum af þeirra völdum.  


mbl.is Fimm drónar sveimuðu yfir París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband