Fór sömu leið og Anna Politkovskaya og fleiri.

Rússland Pútíns hét merkileg bók, sem Anna Politkovskaya skrifaði um spillinguna í Rússlandi. 

Hún galt fyrir það með lífi sínu árið 2006 þegar byssumenn myrtu hana.  

En bókin lifir og veitir einstaka innsýn í það völundarhús spillingarinnar sem Rússland hefur verið frá því að Sovétríkin féllu. 

Þegar hin einstaka frásögn Ingimars Ingimarssonar kom út um kynni hans af ástandinu í Rússlandi Pútíns rímaði það afar vel við bók Önnu. Ljóst var af lestri þeirrar bókar að sá sigraði í valda- og peningatafli þar í landi sem kunni best til verka inni í þessari spilltu veröld.

Pútín var yfirmaður KGB á sínum tíma og þekkir því vel til í njósnunum, klækjunum og brögðunum í hinum hörðu undirheimum stjórnmála og peningaafla sem gegnsýra rússneskt samfélag.

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp" segir rússneskt máltæki. Þegar Sovétríkin féllu innan frá voru ólígarkar kommúnismans fljótir að gerast einhverjir hinir ósvífnustu fjárplógsmenn sem miskunnarlaus kapítalismi getur alið af sér. 

Undir óstjórn fylliraftsins Jeltsíns blómstruðu þeir og hafa ekki sleppt takinu síðan. 

Eins og fleiri valdaþyrstir einvaldar hefur Pútín lag á að fylkja þjóð sinni að baki sér með því að koma því þannig fyrir að hægt sé að benda á ógnandi utanaðkomandi öfl, NATO og ESB.

Hann er slægur sem höggormur og gætir þess að spila alveg að mörkum þess sem mögulegt er án þess að hleypa öllu í bál og brand.

Honum sveið niðurlæging Jeltsínstímans og á auðvelt með að láta líta svo út, sem hann sé fyrsti alvöru "leiðtoginn" sem Rússar hafi átt í áratugi og geti sefað sært stolt stórveldisins.  


mbl.is Boris Nemtsov skotinn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útkall: Flugvél hrapar í Jökulsá á Brú.

Stysta útkallsbókin en jafnfram sú eina sem lýsa mætti sem skemmtilegri bók, ef nota má slíkt orð um útkall, gæti fjallað um það þegar kölluð voru út björgunarsveit, lögregla og sjúkalið til að fara að leita að flugvél, sem vitni sáu hrapa niður í Jökulsá á Brú innan við Kárahnjúka, á meðan Kárahnjúkastífla var í smíðum áður en Hálslón var myndað.

Ég tók þátt í þessu útkalli, af því að skömmu áður hafði ég flogið á TF-FRÚ frá Akureyri til Egilsstaða og frétti af útkallinu á leið upp brekkuna á Fljótsdalsheiði á gömlum Suzuki Samurai jeppa.

Komu þá björgunarsveitarbílar, lögreglubíll og sjúkrabíll á eftir mér með miklum látum og fóru fram úr mér, enda gamli jeppinn minn afllítill.

Ég hringdi í RUVAK og spurði hvað væri að gerast og var sagt að flugvél hefði sést hrapa niður í Jökulsá nokkru áður.

Mér brá óneitanlega en huggaði mig við þá von að flugmaðurinn hefði sloppið lifandi og að ég væri þó, þrátt fyrir allt, eini fjölmiðillinn á svæðinu með allar tökugræjur og búnað og gæti því orðið fyrstur með fréttina og jafnvel fyrstur til að finna flugmanninn.

Gaf ég nú allt í botn á eftir útkallsliðinu, en var þó mjög órótt yfir þeirri tilhugsun hver flugvina minna hefði kannski farist þarna og kveið mjög fyrir því að koma á staðinn.

Þegar ég hafði ekið nokkra stund inn eftir Fljótsdalsheiði í loftköstum á eftir útkallsliðinu, var hringt í mig frá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og mér sagt, að við könnun á hugsanlegum vitnum að flugi vélarinnar, hefði komið í ljós, að ég hefði verið á flugi milli Akureyrar og Egilsstaða fyrr um daginn, að vísu miklu norðar, og var ég spurður, hvort ég hefði orðið var við einhverja aðra flugvél á flugleið minni.

Ég sagði svo ekki vera, enda hefði verið svo erfitt sjónflugsveður, að ég teldi útilokað að neinn annar flugmaður hefði getað fundið leið í þarna í gegn, svo hundkunnugur þyrfti sá flugmaður að vera.

Ég sagðist giska á að ef einhver hefði verið að fljúga á þessu svæði, eins og lýst var, hlyti hann að hafa hrapað niður úr skýjum úr blindflugi með dauðan hreyfil.

Spurði ég hvort hægt væri að lýsa því nánar, sem vitnin sögðu.

Flugstjórnarmenn segðu mér að vitnin hefðu séð einshreyfils flugvél koma lágt úr norðri upp með Hafrahvammagljúfrum, fljúga yfir stífluna og skamma stund inn eftir Hjalladal, en síðan hefði hún steypst niður handan við hæð og ekki sést aftur.

Búið væri að senda leitarflokk frá Kárahnjúkum inn eftir, en ekkert hefði fundist enn, og væri því óttast að vélin hefði lent í Jöklu.

Ég spurði, hvort vitnin hefðu lýst vélinni.

Þeir sögðu, að sagt hefði verið að vélin hefði verið háþekja og blá og hvít að lit.

Nú rann upp fyrir mér ljós og ég svaraði því strax til, að þetta hlyti að hafa verið ég sjálfur á leiðinni til Egilsstaða hálfri annarri klukkustund fyrr. Væri því alveg óhætt að hætta leitinni, enda kæmist enginn sá lifandi úr Jöklu, sem í henni lenti.

Flugstjórnarmenn voru hissa og spurðu hvers vegna ég hefði flogið svona langt af leið á leiðinni til Egilsstaða.

Ég sagði þeim að leiðin út Jökuldal hefði verið ófær vegna þoku, en ég vissi af reynslu, að í vindátt sem þarna var, væri stundum hægt að fljúga inn með Jöklu, fara inn Hjalladal og læðast vestur um Vestur-Öræfi í skjóli við Snæfell og komast meðfram því niður í Fljótsdal.

Þetta hefði ég gert, en skammt fyrir innan Kárahnjúkastíflu væri hæð, sem nefndist Horn og hefði ég orðið að lækka flugið handan við það til að komast innar í dalnum og síðan upp úr honum.

Við það hefði ég vafalaust horfið verkamönnum við stífluna sjónum.

Útkallið var nú afturkallað, en til varð þessi vísa um þá stöðu, sem ég hafði verið í:

 

Á ofsahraða´um illan veg

ók ég fréttaþyrstur.

Í eigið flugslys æddi ég

og ætlaði´að verða fyrstur.  

 


mbl.is Leituðu að flugvél við Þingvallavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröflueldar stóðu í 9 ár, "Öskjueldar" í 3-9 ár.

Eftir langvarandi kyrrstöðu í eldvirkni hófst nýtt tímabil virkni norðan Vatnajökuls árið 2007 þegar gliðnun varð á mjög miklu dýpi við fjallið Upptyppinga með áætluðu kvikufærslu, sem stöðvaðist rúmlega ári seinna. 

En á næstu árum var róleg en samfelld fjölgun jarðskjálfta við Bárðarbungu, og í byrjun ágúst var svo komið, að ég fór tvívegis í sérstök myndaflug yfir bunguna og kringum hana til þess að eiga myndir af þessu svæði ef eitthvað gerðist. 

Framhaldið þekkja allir og það sem hefur verið í gangi þarna í um það bil hálft ár. 

Og reynslan sýnir, að oft er mjög erfitt að spá fyrir um endalok svona umbrota- og eldgosatímabila. 

Þannig komu 14 umbrotahrinur við Kröflu á árunum 1975-84 og það gaus 9 sinnum. 

En svo vikið sé að svæðinu norður af Bárðarbungu má minnast þess að í og við Öskju og norður af henni urðu fimm gos á þriggja ára tímabili frá 1873 til 1876, og það stærsta varð ekki fyrst, heldur númer fjögur í röðinni.

Á tímabilinu 1921-29 urðu fimm lítil gos í Öskju.  

Þá, hvað þá á 19. öld, voru engar mælingar á borð við þær sem nú eru nýtanlegar og því ekki hægt að bera þessar hrinur saman við atburðina nú þótt ljóst sé að mjög margar "sviðsmyndir" séu mögulegar. 


mbl.is Hægar færslur í átt að Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilíft og tilgangslítið ágreiningsefni.

Þegar litir eru skærir eins og til dæmis litirnir sem eru grunnur sjónvarpslita, er fólk yfirleitt sammála um þá. 

Þó má geta þess að í bandaríska sjónvarpslitakerfinu er ekki sami rauði liturinn og í evrópsku kerfunum. 

Ástæðan er sú, að vestan hafs ákváðu menn að hafa litinn eldrauðan, en við það varð húðlitur fólks oft rauðari en ella þegar þurfti að blanda hinum fáu grunnlitum saman til þess að fá út réttan lit. 

Húðlitur fólks er einfaldlega svo fjölbreyttur að oft á litakerfið í mestu erfiðleikum með að ná öllum blæbrigðum rétt.  

Kvað svo rammt að að þessu, að þegar deilt var um það hvort íslenska sjónvarpið ætti að skipta í litasjónvarp hélt einn þingmaður því fram að það væri ótækt, því að margt fólk yrði afkáralega rauðleitt í framan. 

Þarna skaust þótt skýr væri, því að greinilegt var að þingmaðurinn vissi ekki að rauði liturinn í Evrópu var ekki eldrauður, heldur talsvert mildari til þess að auðveldara væri fyrir litakerfið að ráða við litbrigði húðlitar á fólki, því að afar stór hluti af sjónvarpsútsendingum væri með fólk í forgrunni. 

Þegar við erum börn lærum við nöfn litanna af okkar nánustu og þá gerist það tvennt, að engir tveir nefna blandaða liti sömum nöfnum, og rétt eins og sumir eru hreinlega litblindir, er litaskynjunin sennilega misjöfn. 

Við Helga vorum ekki búin að vera lengi í sambúð þegar í ljós kom að okkur greindi afar oft á um það hvaða liti við vorum að horfa á. 

Fljótlega kom að því að ljóst var að það var næsta tilgangslítið að deila um liti, - um það gilti að sitt sýndist hverjum. 

Helga segir að kjóllinn, sem nú er deilt um á netinu, sé hvítur og svartur en ég segi að hann sé ljósblár, raunar mjög ljós-blár og dökkgrár. 

Svo hlæjum við bara af þessu og föllumst á að við höfum bæði rétt fyrir okkur. 


mbl.is Hvernig er kjóllinn á litinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verst ef "smábilun" kostar stórfelldar hamfarir.

Tölvuknúin sjálfvirkni hefur farið sívaxandi á öllum sviðum í lífi mannkynsins í áratugi og virðist ekki vera hægt að sjá fyrir endann á því. 

Því víðtækari og meiri sem hún verður, því meiri líkur eru á því að bilanir, jafnvel á afar afmörkuðum sviðum, valdi stórfelldum vandræðum, allt upp í gereyðingu mannkynsins. 

Á fyrri hluta Kalda stríðsins var það áhyggjuefni Bandaríkjamanna að Rússar voru á eftir þeim í tölvuvæðingu stýribúnaðar vopnakerfa sinna og notuðu enn lampatæki. 

En í ljós hafði komið að svonefnt segulhögg af kjarnorkusprengingum gæti eyðilagt tölvukerfi Kananna en hins vegar stæðust gömlu lampatæki Rússanna slík högg.

Á tíma MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) þurfti ekki nema smábilun í einni tölvu til þess að hleypa af stað kjarnorkustríði.

Það kom óþyrmilega í ljós 26. september 1983 þegar bilun í sovéska kerfinu sýndi að Bandaríkjamenn hefðu sett af stað kjarnorkuárás á Sovétríkin.

Stanislav Petrov, sem var á vakt, taldi sig ekki hafa tíma til þess að ráðfæra sig við æðstu stjórnendur Sovétríkjanna, heldur taldi hann líklegast að um bilun í tölvu í aðvörunarkerfinu væri að ræða. Ef málið færi alla leið, yrði ekki komist hjá kjarnorkustríði. 

Þetta mat Petrovs reyndist vera rétt mat, en honum var refsað með því að hann var rekinn úr starfi sínu fyrir agabrot.

Heimsbyggðin hafði þá ekki minnstu hugmynd um þetta mál.

Í fyrra var frumsýnd verðlaunaheimildamynd um þetta og Petrov heiðraður.

Í dag sjáum við fréttir um samvinnu nokkurra af öflugustu bílaframleiðenda heims til að þróa sjálfvirka bílaumferð.

Ætlunin með tölvustýrðum bílum er sú að vera til þæginda fyrir ökumenn og gera umferðina greiðari og öruggari. Vonandi verður líka hugað að líkum á bilunum og röngum ákvörðunum tölvanna svo að ávinningurinn af sjálfvirkninni verði meiri en tjón af hennar völdum.     


mbl.is Snjallsjónvörp misstu vitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég ætla að hætta´að drekka´á morgun."

"Ég ætla´að hætta´að drekka´á morgun" sungu Stuðmenn á sínum tíma í orðastað blindfulla mannsins, en auðvitað var ekki orð að marka hann. 

Stundarhagsmunir á grundvelli níðþröngra sjónarmiða hafa ráðið för allar götur síðan stefna var mörkuð með Ríó-sáttmálanum 1992.

En nær ekkert hefur verið farið eftir í neinum meginatriðum, og síst af öllu af okkur Íslendingum, sem ökum enn um göturnar mest mengandi bílaflota Vesturlanda. 

Síðan hafa fylgt í kjölfarið Kyoto-samningur og alþjóðafundir, sem hafa í raun sáralitlu skilað. 

Eina alþjóðasamfélagið sem einhverju hefur skilað í að draga úr útblæstri er ESB og er í umræðunni hér málað eins og skrattinn á vegginn á alla lund. 


mbl.is Höfum kosið að gera ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband