Sumir staurar virðast bjóða upp í dans.

Í ferðalagi um Jótland hér um árið var athyglisvert að sjá hvernig reynt var að setja ljósastaura þannig niður að sem minnst hætta væri á því að bílum væri ekið á þá. 

Þetta stakk í stúf í staðsetningu ýmissa staura hér á landi sem virtust sumir settir þannig niður að sem mestar líkur væru að aka á þá. 

Meira en 10 árum síðar eru flestir þessir staurar enn á sama stað, enda töldu talsmenn Vegagerðarinnar eindregið að þeir stæðu á réttum stöðum. 

Sem dæmi nefni ég staurinn, sem "tekur við manni" þegar ekið er til austurs um hringtorgið við Hveragerði, rétt eins og honum sé falið það verkefni að koma í veg fyrir að bílar fari þar út af í lúmskri hálku.

Annar svipaður tekur við manni þegar ekið er til norðurs um hringtorgið norðan við Borgarnes.

Ef þessir staurar væru færðir aðeins til í líkingu við það sem sjá mátti á hringtorgum á Jótlandi, er líklegt að árekstrum bíla við þá myndi fækka.

Og á Álftanesveginum, þar sem var einföld stauraröð, mátti sjá staurana setta þannig niður í langflestum beygjunum, að ef bíll skrikaði til í hálku voru staurarnir einmitt þeim megin sem bílarnir fóru út af, og meira að segja komnir yfir á hina vegarbrúnina þegar beygt var í hina áttina.   


mbl.is Ekið á um 50 ljósastaura
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf jafn tilkomumikið! Mikil landkynning.

Í flugi í dag yfir Bárðarbungu og Holuhraun var flogið yfir ABS liðið við hraunjaðarinn og norðvesturhluta hraunsins, en líka skyggnst um yfir Bárðarbungu. IMG_4917

Hún er lagin við að sveipa sig dularhjúpi og þykjast hvergi nærri koma, og þess vegna var gaman að heyra fréttakonuna amerísku halda vel til haga hlutverki þessarar yfireldstöðvar Íslands. 

Askjan er heilir 10 kílómetrar í þvermál og því erfitt að sjá vel hvernig ísinn í henni hefur sigið um 60 metra. 

Þó mátti sjá í morgun móta fyrir henni, þótt engar ísgjár væru vel sjáanlegar vegna þess hve ört snjóar þarna og einnig mátti sjá óhugnanlega sigkatla í ísinum við norðvesturbrún bungunnar. 


mbl.is Sighraði öskjunnar verulegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað svo? Sandfok er byrjað úr nýrri aurkeilu í Sandvatni.

Fyrir 25 árum flutti ég margar og ítarlegar fréttir af því hvernig með stíflun Sandvatns væri verið að stækka Sandvatn og sökkva leiðinda sandleirum, sem hvimleitt sandfok hefði verið úr um árabil. Svipað væri hægt að gera við uppþornaðan botn Hagavatns og stöðva leirfok úr honum. Margar fréttir og margar myndir. 

Nú eru liðin 25 ár og stór aurkeila hefur myndast í vestanverðu Sandvatni þar sem Sandá rennur í það og ber fram sand og aur. Þetta fyrirbæri hefði átt að taka með í reikninginn fyrir aldarfjórðungi, en það er nú viðurkennt og var meira að segja fjallað um það í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. 

Þessi aurkeila stækkar ár frá ári og að lokum mun sandburður Sandár fylla hið nýja og stækkaða Sandvatn upp og þá mun verða mun meira sandfok úr hinum nýju leirum en hinum gömlu og hefjast enn meiri barátta við það en fyrr. 

Eina ráðið verður þá að gera enn nýja og mun stærri stíflu til að sökkva nýju leirunum og sannast mun þá hið fornkveðna, að það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, því að það vatn mun að sjálfsögðu líka fyllast með tímanum. 

Nú er í gangi svipuð herferð fyrir Hagavatnsvirkjun og var fyrir stækkun Sandvatns á sínum tíma og ætlast til þess að maður sé jafn fáfróður og fyrir 25 árum. 

Sagt hefur verið að Landgræðslan og Skógræktin "þrýsti á" um þessa virkjun, en Landgræðslustjóri hefur borið það til baka og sagt pass í útvarpsviðtali. 

Hagavatnsleirurnar eru afar flatar og Landgræðslustjóri lýsti því yfir í útvarpsviðtalinu að ekki mætti verða nein vatnsborðssveifla þar vegna virkjunar. 

Það myndi þýða að virkjunin gæti ekki haft neina vatnsmiðlun og því verða ónothæf á veturna en aðeins gefa 20-30 megavött á sumrin. Þokkaleg nýting það og eftir miklu að slægjast eða hitt þó heldur. 

Nýtt Hagavatn myndi að sjálfsögðu fyllast upp af jökulleir samt sem áður af því að aurugt jökulvatn rennur í það og með virkjun yrði sett í gang sama hringekjan og með Sandvatni á sinni tíð.

Þetta kalla ég skómigustefnuna, samanber máltækið um að það sé skammgóður vermir að pissa í skó sinn. En engin ein stefna virðist eins vinsæl hér á landi og hún, einkum í jarðvarmavirkjunum, en líka í mörgum vatnsaflsvirkjunum.

Fyrir 25 árum tók ég þátt í því að mæra einhliða gerð Sandvatns með mörgum fréttum og myndum af þeirri framkvæmd án þess að skoða, að málið var og er ekki eins einfalt og það sýnist.

Síðustu árin hef ég fylgst með hinni stækkandi aurkeilu og sandfokinu úr henni.

Ég ætla ekki að brenna mig á því sama aftur og fyrir aldarfjórðungi, hvað sem aðrir gera.  


mbl.is Hraðskreið eyðing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband