Ekki einsdæmi. Samanburður á eins hreyfils og fjölhreyfla vélum.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast, hafa mörg alvarleg slys orðið vegna þeirra mistaka, að flugmenn tveggja hreyfla véla hafi slökkt á röngum hreyfli þegar annar þeirra hefur bilað.

Í pistli um flugslysið við Taipai var vakin athygli á því að skrúfur beggja hreyfla vélarinnar snerust þegar hún hrapaði í ána, en flugmenn "fjaðra" venjulega skrúfu þess hreyfils sem drepið er á, það er snúa skrúfublöðunum þannig að skrúfan taki enga loftmótstöðu á sig og standi kyrr. 

Þeir höfðu greinilega ekki átt við skrúfu bilaða hreyfilsins og voru, samkvæmt nýjustu fréttum, að reyna að koma hinum í gang. 

Þegar vélin kemur yfir íbúðablokkirnar er hún að ofrísa vegna þess að flugstjórinn reynir að komast yfir þær með því að lyfta vélinni, en afllaus missir hún hraða og hæð. 

Ég minntist á það í nefndum pistli, að fróðlegt gæti verið að útskýra, hvers vegna bandarísk rannsókn leiddi í ljós hér um árið, að fleiri dauðaslys gerðust í blindflugi á tveggja hreyfla flugvélum en á eins hreyfils flugvélum. 

Ef allt einkaflug er tekið með í reikninginn eru dauðaslysin fleiri á einshreyfils vélum, vegna þess að byrjendur og óvanir flugmenn fljúga þeim frekar en fjölhreyfla vélum.

En þegar menn eru komnir með blindflugsréttindi eru reynsla og þekking álíka hjá þeim sem slík réttindi hafa, og samanburðurinn því mun raunhæfari.

En hér koma nokkur atriði:

1. Þegar drepst á hreyfli eins hreyfils vélar er stjórn hennar miklu einfaldari og auðveldari en á tveggja hreyfla vél. Aðal verkefni flugmanns eru tvö: Að halda flugvélinni í heppilegri flugstöðu á leið hennar niður, - annað er ekki í boði, - og að reyna að koma hreyflinum í gang ef einhver von er til þess. Á tveggja hreyfla vél er viðfangsefnið margfalt flóknara, því að halda þarf flugvélinni á flugi á öðrum hreyflinum og fara ekki niður fyrir ákveðinn lágmarkshraða og gæta þess að skakkt átakið af afli hreyfilsins orsaki ekki missi stjórnar á flugvélinni. Á sama tíma þarf að "ganga frá" bilaða hreyflinum, slökkva á honum og "fjaðra" skrúfuna.

2. Á einshreyfils vél þarf einungis að framkvæma nauðlendingu í lækkun og velja skásta lendingarstað, en á tveggja hreyfla vél er slíkt yfirleitt ekki í huga flugmanna, heldur að reyna að komast á afli annars hreyfilsins til lendingar á flugvelli.

3. Ástæða þess að menn velja tveggja hreyfla vél til flugs er sú að öðlast með því það öryggi að geta alltaf komist klakklaust leiðar sinnar til lendingar, þrátt fyrir vélarbilun. Að nauðlenda utan flugvallar er þar með svolítið fjarlæg hugsun. Afleiðing þessa er, að í mörgum tilvikum er flogið yfir mögulega lendingarstaði á leiðinni til fyrirhugaðs lendingarstaðar og þetta markmið næst ekki.

4. Flugmenn hyllast oft til þess að fara af stað í flug í mun verri veðurskilyrðum á tveggja hreyfla flugvélum en eins hreyfils flugvélum og ofmeta getu þeirra. Með því auka þeir á hættuna á því að lenda í ógöngum vegna lélegs veðurs.    

 

 


mbl.is Slökktu þeir á röngum hreyfli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risalínur fyrir stóriðjuna og endilega ofanjarðar !

Stóriðjufíklar Íslands nota hvert tækifæri sem gefst til þess að þvinga fram stefnu sína með öllum tiltækum ráðum. 

Þeir hamra á því að það þurfi að þenja risavaxnar háspennulínur um landið þvers og kruss til að "auka afhendingarörygggi almennings."

Þetta er alrangt. Það þarf engar tröllauknar línur til þess, heldur hægt að gera það á með miklu smærri línum og þess vegna að hafa þær í jörð sem víðast.

Risalínurnar eru svona tröllauknar vegna þess hve óhemju mikla orku stóriðjan þarf, - þær eru ætlaðar til að auðvelda áframhaldandi vöxt stóriðju, svonefnds "orkufreks iðnaðar" sem þýðir á mannamáli sem mest orkubruðl á gjafvirði fyrir útlendinga. 

Hamrað er á því að orkusala til almennra nota fari ört vaxandi þegar staðreyndin er sú að það er orkan til stóriðjunnar sem fer vaxandi á meðan orkunotkun til innanlandsnota landsmanna sjálfra stendur í stað eins og Jónas Elíasson upplýsti á dögunum í góðri grein í Morgunblaðinu. 

Og þegar þakplata fýkur í óveðri á Suðurnesjalínu er þegar í stað hafinn söngurinn um að "brýnt" sé að reisa nýja risalínu sem fyrst. 

Og auðvitað kemur ekki til mála að leggja línu í jörð svo að óveður hafi engin áhrif á þær. 

Enginn söngur sunginn um það. Nei, loftlínur verða þær að vera. Og þá verður hægt að heimta enn nýjar línur þegar óveður skemma þær.  


mbl.is Brýnt að byggja aðra línu sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórlega vanmetin staða á vellinum.

Það er orðin næstum því hefð fyrir því að þegar bestu knattspyrnumenn liða, þjóða, heimsálfa og heimsins eru valdir, séu það sóknarleikmenn sem verða fyrir valinu og oftast þeir sem flest mörkin skora. 

Þetta helgast af því að knattspyrnuleikir vinnast á því að skora mörk, - og þess er ævinlega getið í frásögnum hverjir skoruðu þau. 

Hitt gleymist að leikir vinnast líka á því að hindra að mótherjarnir skori mörk. Á því og spretthörku sinni byggði til dæmis Guðni Bergsson feril sinn.

Einstaka sinnum komast markverðir ofarlega á lista yfir vinsælustu og dáðustu leikmenn og veldur því sú sérstaða þeirra að standa nær allann leikinn einir sem áberandi aftasti maður liðsins. Þeir "loka markinu" á góðum dögum. 

En ekki man ég eftir því að bakverðir eða varnarmenn hafi hlotið helstu titla í knattspyrnunni. Gullskór eru aðeins veittir fyrir skoruð mörk en ekki fyrir það, hve mörg mörk leikmaður hefur komið í veg fyrir að mótherjar skori, enda erfiðara um slíkt að dæma, - skoruð mörk telja eins og sagt er.

Faðir minn heitinn var þó útvalinn efnilegasti leikmaðurinn hjá Fram árið 1939 og lék sem bakvörður, af því að Lindemann þjálfari færði hann þangað úr framherjastöðu vegna þeirra kosta hans að vera fljótur, leikinn og útsjónarsamur.  

Þótt það kunni að líta út sem eins konar stöðulækkun í liði að vera færður í öftustu varnarlínu, er það yfirleitt þveröfugt.

Við sjáum, að framherji á borð við Messi kemst upp með það að gera fjölmörg mistök í sókninni í sumum leikjum, en honum er fyrirgefið það  og mistökin gleymast og falla í skuggann fyrir snilldinni á bak við skoruð mörk, sem hann á þátt í, af því að "mörkin telja" eins og sagt er og það stendur upp úr.

Mistök varnarmanna eru hins vegar oftast dýrkeypt og skæðir sóknarmenn mótherjanna refsa miskunnarlaust fyrir þau. 

Þess vegna getur til dæmis góður pottþéttur og traustur bakvörður sem  gerir nánast engin mistök, verið virði þyngdar sinnar í gulli og það ber vitni um mikið traust til viðkomandi leikmanns að færa hann í öftustu stöðu, þar sem hraði, taugastyrkur, yfirvegun og það að kunna að "lesa leikinn" eru nauðsynlegir kostir. 

Í skemmtilegum sjónvarpsþætti í gærkvöldi um hina rómuðu vörn Valsmanna, "Mulningsvélina" á níunda áratug síðustu aldar var mikið rætt um það hve líkamlegur styrkur og næstum því ruddalegur leikur Valsaranna hefði haft mikið að segja.

Mér fannst of mikið gert úr því að væla yfir því að þeir hefðu alltaf leikið alveg upp að mörkum þess sem dómararnir leyfðu, nánast einir allra um það.

Að sönnu var það aðall Mulningsvélarinnar að allir voru líkamlega sterkir og sterkir "maður á mann".

Hitt gleymdist að þeir kostir nýtast ekki nema að vörnin sé samhent og vel spiluð með góðum færslum og útfærslum á leikkerfum.

Þessi atriði voru ekki síst galdurinn á bak við Valsvörnina og gerðu það að verkum, að enginn varnarleikur í íslenskum handbolta hefur hlotið jafn mikla frægð að verðleikum og Mulningsvélin.  

 

 


mbl.is Gera Baldur að bakverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð spurning Jóns Baldvins.

Jón Baldvin Hannibalsson spyr þeirrar spurningar í pistli hvort Seðlabanki Bandaríkjanna og Alríkisstjórnin þar hefðu hagað sér eins gagnvart Kaliforníu þegar hún rambaði á barmi gjaldþrots og Seðalbanki Evrópu og ESB haga sér nú gagnvart Grikklandi.

Spurningin er íhugunarverð vegna þess að hún leiðir hugann að því fyrirbæri sem felst í því að þeim mun stærri sem hinn gjaldþrota er og því stærra sem gjaldþrotið er, því meiri líkur eru á því að honum verði ekki leyft að rúlla yfir um.

Þannig var þetta þegar stóru bílaverksmiðjurnar bandarísku urðu gjaldþrota enda gamalt orðtak vestra að það sem væri gott fyrir General Motors væri gott fyrir Bandaríkin og það sem væri slæmt fyrir GM væri slæmt fyrir Bandaríkin.

Þannig gekk þetta líka til í all stórum stíl hér á landi við Hrunið, þegar stór fyrirtæki eins og bílaumboð og tryggingafélög urðu gjaldþrota.

Þessum fyrirtækjum var bjargað en minni fyrirtæki, sem höfðu sýnt meiri ráðdeild og áttu samt í erfiðleikum, fengu ekki stuðning og urðu þannig fyrir mismunun.

Hagkerfi Kaliforníu er eitt hið öflugasta í heiminum og margfalt stærra en hagkerfi Grikklands. Munurinn er svo mikill að hann einn gerir samanburðinn erfiðan, Kalifornía var einfaldlega of stór til þess að hún mætti verða gjaldþrota.

En mikilvægi Grikklands byggist á öðrum atriðum, sem gera það að verkum, að það er hreint ekkert einfalt mál að láta landið verða gjaldþrota.

Landið er útvörður evrópskrar menningar í suðaustri og fyrir sunnan það liggur suðupottur Miðausturlanda og austan það hitnandi suðupottur við vesturlandamæri Rússlands.

Fyrir rúmri öld var spilað mikið áhættuspil vaxandi spennu á milli ríkja og stórvelda sem varð kveikjan að heimsstyrjöld.

Nú er spilað tvöfalt áhættuspil, annars vegar með tilvist og samheldni ESB og hins vegar vegna vaxandi togstreitu Rússlands annars vegar og nágrannaríkja þess og Vesturveldanna hins vegar.

Það gerir mál Grikklands miklu flóknara og erfiðara en gjaldþrot Kaliforníu var á sínum tíma.       


mbl.is Seðlabankinn snýr baki við Grikkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband