Þegar páfinn kom til Bandaríkjanna.

Í ferðalagi til Múrmansk í Sovétríkjunum með hópi ungra og frískra bílablaðamanna 1978 sögðu leiðsögumenn okkar að vændi þekktist ekki í þessu ríki jöfnuðar, frelsis og alræðis öreiganna. 

Búið væri að útrýma því í krafti kommúnismans. 

Strax tveimur dögum síðar höfðu tveir bílablaðamannanna aðra sögu að segja og útskýringin væri sú að í svona hernaðarlega mikilvægri hafnarborg væru konur af þessu tagi á launum hjá KGB sem njósnarar og því ekki vændiskonur í kapítaliskum skilningi þess orðs. 

Úr því að tengd frétt er um þetta fyrirbæri alveg uppi í hlaðvarpa páfans í Róm kemur í hugann saga af ferð páfa fyrir mörgum árum til Bandaríkjanna. 

Hann kveið fyrir því að lenda í klónum á aðgangshörðum blaðamönnum vestra og leitaði ráðlegginga hjá fróðum manni á því sviði. 

Ráðgjafinn sagði honum að ef erfiðar og jafnvel ósvifnar spurningar dyndu á honum, væri skást að segja sem minnst og bera við vanþekkingu ef ekki vildi betur. 

Þegar páfinn stóð frammi fyrir blaðamönnum við komuna til New York var fyrsta spurningin, sem dundi á honum: "Yðar heilagleiki, hver er skoðun yðar á vændiskonum?" 

Minnugur ráðlegginganna svaraði páfinn: "Hvað, eru nokkrar vændiskonur hér?"

Og risafyrisögn blaðsins var auðvitað: "Það fyrsta sem páfinn spurði um þegar hann kom til New York, var: Eru nokkrar vændiskonur hér?"


mbl.is Samþykkja „rautt“ svæði í Róm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núverandi Mini er of stór.

Hinn upprunalegi Mini sem kom fram 1959 kom fram í nokkurn veginn alveg eins útgáfum, Annars vegar sem Austin Seven og hins vegar sem Morris Mini Minor.

Alls voru notuð fimm orð í tegundarheitinu og á endanum stóð Mini eitt eftir. 

Forsaga Mini nafnsins var sú að Morris Minor var fyrsta snilldarhönnun Alec Issigonis árið 1948, breiðari og lægri en fyrirrennaranir og myndi teljast vera í Yaris stærðarflokki nú.

Þegar Issigonis hannaði bíl aldarinnar hvað hönnun snerti, (85% fólksbíla heims eru með sömu uppsetningu á vél og drifbúnaði og gamli Mini) fékk hann heitið Mini Minor þegar hann var með Morris merkinu.

Hann var jafn rúmgóður og Minor þótt hann væri 70 sentimetrum styttri, 15 sentimetrum mjórri 17 sentimetrum lægri og 200 kílóum léttari en Minor.

Akstureiginleikarnir gerðu hann að sigursælasta rallbíl heims á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Hinn nýi Mini var og er hins vegar álíka langur og Minor var og 18 sentimetrum breiðari og þvi óumdeilanlega í öðrum stærðarflokki en forfaðirinn. Í raun er hann minnsti BMW bíllinn. 

Þótt aksturseiginleikar hans nálgist eiginleika forföðurins er hann alltof stór til þess að sama tilfinning fáist við að aka honum og gamla Mini. 

Því eru það góðar fréttir að til standi að framleiða nýjan bíl, sem fer hálfa leið í áttina að gamla Mini, og því kannski aukaatriði að búið sé að snúa stærðarmun hinna upprunalegu Mini og Min Minor við. 


mbl.is Sameinast um nýjan Mini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju "öryggishagsmunir" og heræfingar?

Þegar Kalda stríðinu lauk vonuðust menn til þess að nú væri loksins kominn friður til framtíðar í Evrópu. "Friður um okka daga" sagði Neville Chamberlain líka 1938 þegar hann veifaði blaði við komuna til London eftir samningana við Hitler í Munchen. 

Heima fyrir kallaði Hitler blaðið, sem Chamberlain veifaði með undirskriftum þeirra beggja, "einskis virði pappírssnifsi." Sem það og var því að Hitler var í óða önn að "endurskrifa landamæri Evrópu." 

Ætla hefði mátt að friðurinn í kjölfar Kalda stríðsins hefði gert heræfingar "vegna öryggishagsmuna" óþarfa. George Bush eldri lofaði Gorbatsjov því á fundi þeirra á Möltu að NATO myndi ekki seilast til austurs frá Þýskalandi, enda sýndist það nægur árangur að breyta Austur-Þýskalandi úr Varsjárbandalagsríki í NATO ríki í einu vetfangi. 

En þótt vopnaskak minnkaði og herlið NATO færi til dæmis með herlið sitt frá Íslandi, var það falskur friður. 

Nú, tæpum aldarfjórðungi eftir lok Kalda stríðsins, og átta árum eftir brottför hersins af Miðnesheiði, blasir við að raunverulegt átakasvæði með tilheyrandi ófriði og hernaðarbrölti, hefur einfaldlega færst til austurs allt að landamærum Rússlands. 

Ástæðurnar eru kunnuglegar í augum Rússa, - viðleitni nágrannaþjóða þeirra til að skapa sér meira sjálfstæði gagnvart stoltum og stórum nágranna með því að auka samvinnu við Vesturveldin og gefa þeim æ lausari taum og áhrif allt upp að landamærum Rússlands og inn á svæði, sem var beinn hluti landsins öldum saman, allt fram yfir miðja síðustu öld. 

Í Krímstríðinu 1854-56 féllu 75 þúsund Rússar í valinn.  

Sókn, sem Hitler nefndi "Drang nach Osten" var að gerast á árunum 1938 til 1941 í aðdraganda innrásar hans í Sovétríkin sem kostaði á að giska 20 milljónir manna lífið. 

Valdhafar í nágrannaríkjum Rússa vinguðust þá við vestrænt veldi og leyfðu því að hreiðra um sig í löndum sínum. 

Þegar sagt er að Rússar eigi að láta sem ekkert sé, er það á skjön við þá staðreynd, að hvað sem öllu friðartali líður, eru öll ríki heims sífellt að "þjóna öryggishagsmunum sínum" með því að stunda alls kyns viðbúnað og heræfingar.  

Meira að segja hér á landi var haldin heræfingin Norðurvíkingur 1999 til þess að "þjóna öryggishagsmunum Íslendinga" og valin sem mesta hugsanlega hryðuverkaógn við Íslands að mati þáverandi valdhafa, æfing á hálendi Íslands, þar sem öflugustu vígvélar NATO, F-15 orrustuþotur, æfðu sig í að salla niður ímyndað náttúruverndarfólk á lokuðu heræfingasvæði! 

Það þarf ekki annað en að skoða flott söfn í skólum og menningarstofnunum Rússlands til að sjá áhersluna sem lögð er á hetjulega baráttu þjóðarinnar gegn innrásum Napóleons og Hitlers og sjá að hugtakið "Seinni heimsstyrjöldin" sést ekki þar, heldur einungis "Föðurlandsstríðið mikla". 

Það er engin leið að leggja mat á það, sem er að gerast við suðvestur og vesturlandamæri Rússlands nema að hafa hliðsjón af biturri reynslu Rússa fyrr á tímum sem þeir geta ekki gleymt, því miður. 

Hvernig sem mat manna er á Pútín og Rússum er nauðsynlegt í öllum deilum að deiluaðilar reyni að skilja hverjir aðra. Sjaldan hefur verið meiri þörf á því en nú. 


mbl.is Áttu „uppbyggilegan“ fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur ekkert breyst í 39 ár?

Ég sá enga af Rocky myndunum á sínum tíma, en af því að ég hef verið hnefaleikanörd í 65 ár kíkti ég á Rocky I í kvöld, mest til að átta mig á því hvort Sylvester Stallone væri stórlega ofmetinn sem kvikmyndagerðarmaður og leikari. 

Hann skrifaði víst þetta handrit á 20 klukkustundum, taka myndarinnar tók 28 daga, kostnaðurinn var 1 milljón dala og innkoman 225 milljónir. 

Þótt myndin fengi 10 tilnefningar til Óskars 1976 og hreppti þrjár styttur, fékk hún það misjafna dóma að maður átti ekki von á miklu. 

En handritið var skárra en ég bjóst við og trú sönnum atburðum í ferli grunnfyrirmyndanna, hnefaleikaranna Chuck Wepners, Muhammad Alis og Joe Frazier.

Að baki er hrár bandarískur veruleiki og töfrarnir á bak við gömlu ævintýrin um Öskubusku og syni karls og kerlingar í koti sem vinna ástir prinsessunnar.

Sjá má að ýmsir þenja sig í hneykslun yfir því að myndin skuli hafa hafist hálftíma fyrir klukkan tíu í kvöld af því að hún hafi verið bönnuð innan 12 ára fyrir 39 árum.

Það hefur nú ýmislegt breyst og þróast í 39 ár og ekki gat ég séð hvað var svona voðalegt við myndina sem gerði það að verkum að sama mat þyrfti að gilda nú og þá.

En brot gegn boðum og bönnum eru að sjálfsögðu lagabrot, sama hve á hve úreltum og forneskjulegum forsendum reglurnar byggjast.

 

P. S. Hvenær ætlar fjölmiðlafólk og þýðendur að átta sig á því að enskt pund er 0,453 kíló en ekki 0,5 kíló og að það tekur fimm sekúndna einfaldan hugarreikning að breyta á milli þessara mælieininga. Rocky var 190 pund í myndinni og reikningurinn því svona:

190:2= 95. 95 mínus einn tíundi eru 95-9,5= 85,5 kíló.

Ef menn vilja fá nákvæma útkomu má bæta 600 grömmum við vegna tölunnar 3 aftast í 0,453 og þá er niðurstaðan 86 kíló.       


mbl.is Stefnir í annað brot hjá RÚV?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband