Ég er heldur ekki "fluttur á hjúkrunarheimilið Eir".

"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" segir máltækið og það kemur upp í hugann varðandi söguna um Parkinsonsjúka Helgu Möller, sem fór á kreik í gærkvöldi af orsökum, sem ég og fleiri tókum raunar ekki eftir. En nú er sá árstími sem hefð hefur verið fyrir að flestar kjaftasögur fari á kreik og þetta getur svo sem gerst á öllum árstímum eins og ég hef fundið á eigin skinni. 

Í hitteðfyrrahaust fóru tvær fyrirsagnir á flug.

Önnur var: "Ómar Ragnarsson fluttur í fangelsi".

Og skömmu síðar: "Ómar Ragnarsson fluttur á Eir".

Sem sagt: Gaurinn á hraðri niðurleið og mátti búast við að stutt yrði í næstu fyrirsögn: "Ómar Ragnarsson fluttur í Grafarvogskirkjugarð."

Það þurfti að hafa fyrir því að koma því á framfæri að hjúkrunarheimilið Eir er næstum tvo kílómetra í burtu frá íbúðinni í Fróðengi 7, sem ég flutti í.

Sú húsasamstæða með Borgarholtsskóla sem næsta hús, var að vísu reist af Eir, en vegna gjaldþrots Eirar, var ákveðið að leigja íbúðirnar þar út á almennum leigumarkaði með engum ákvæðum um aldur leigjanda.

Fyrir aldarfjórðungi fór á kreik aldeilis mögnuð saga af því að ég væri skilinn við Helgu og fluttur að heiman frá henni í blokk við Sólheima.

Sagan var undra fljót að breytast í margar sögur af samböndum mínum við ýmsar nafnkunnar konur og var það svo glæsilegur listi að einhver hefði orðið spældur út af því að missa af svona mörgum krassandi ástarævintýrum.

Fóturinn fyrir sögunni var reyndar réttur út af fyrir sig: Vitað var að ég átti heima við Háaleitisbraut, en ég hafði sést hafa farið laumulegur á svip inn í blokk eina í austurhluta borgarinnar seint að kveldi, greinilega þreyttur og slæptur, berandi nokkra þvælda plastpoka.

Meira þurfti ekki til að hrinda af stað hinum stórkarlalegu sögum af kvennafari mínu en kjaftaskjóðunum láðist að athuga hvaða konu ég væri að heimsækja.

En það var nú engin önnur en hún Helga mín í íbúðinni, sem við höfðum flutt í að Sólheimum 23.  


mbl.is Helga Möller ekki með Parkinson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæispólitík. Spánn 1936-39 og Kórea 1950-53.

Rausæispólitík (real politic) á sér forsögu í Þýskalandi. Otto von Bismarck notaði hana til að ná sínu fram, stjórna atburðarásinni og lokka Frakka til að hefja stríð 1870 sem þeir töpuðu á niðurlægjandi hátt. Í anda Bismarcks spratt valdið fram úr byssuhlaupunum, stríð unnust með járni og blóði og hervald var forsenda fyrir sterkri samningsstöðu. 

Ekkert af þessu er fyrir hendi hjá núverandi valdhöfum í Úkraínu, herinn er ónýtur, mikil spilling í landi sem er við gjaldþrots dyr, og ekki vinnandi vegur að standa í Rússum nema að með stórfelldri útþenslu og mögnun hernaðar í boði NATO upp í skala Evrópustríðs, sem enginn getur grætt á, heldur getur stefnt öllu í bál og brand. 

Í borgarastyrjöldinni á Spáni 1936-39 sendu stórveldin menn og vopn þangað til þess að hafa árhrif á gang stríðsins, en Bretar og Frakkar voru í viðjum kreppu, samdráttar og atvinnuleysis á sama tíma og Hitler hafði skrúfað upp hagvöxt og nær útrýmt atvinnuleysi í Þýskalandi.

Í Frakklandi ríkti sundurlyndi og getuleysi í stjórnmálum og mikill ótti var við það að efna til annarrar heimsstyrjaldar. Stalín dró Sovétmenn út úr stríðinu og Franco vann með aðstoð Mussolinis og Hitlers.

Í Kóreustríðinu vildi McArthur yfirhershöfðingi láta varpa kjarnorkusprengjum á Kína vegna aðstoðar Kínverja við Norður-Kóreumenn í formi vopnasendinga og "sjálfboðaliða". NATO þjóðir höfðu áður fyrir einskæra tilviljun vegna fjarveru Sovétmanna í Öryggisráðinu getað sent lið til til Suður-Kóreu til að afstýra því með naumindum að Norður-Kóreumenn næðu öllu landinu á sitt vald. 

Truman hafði vit fyrir Mc Arthur og rak hann.  

Nú segja sumir að líkja megi Putin við Hitler og benda á sláandi samanburð varðandi innlimum þýskumælandi manna í Súdetahéruðunum í Tékkóslóvakíu inn í Þýskaland 1938 og í kjölfarið kröfur um "Pólska hliðið"í Póllandi sem var þýskt land fyrir 1919.

Nú sendi Pútín menn og vopn til austurhluta Úkraínu þar sem Rússar hafa haft ítök og Rússar hafi þegar innlimað Krímskagann sem var rússneskt land fyrir 1954.

Og Rússar segja nú um Pútín að hann sé fyrsti alvöru leiðtogi landsins, rétt eins og Þjóðverjar sögðu á fjórða áratug síðustu aldar að Hitler væri fyrst alvöru leiðtogi Þjóðverja síðan Bismarck leið. 

Samanburðurinn á  hins vegar ekki við nema að hálfu leyti. Í samræmi við kenningar Hitlers um sókn til austurs og "lífsrými" Þjóðverja í Austur-Evrópu, hlaut hann að knýja þetta fram með hervaldi ef annað dugði ekki og ná þýskum yfirráðum allt austur til Úralfjalla.

Ekki sést hins vegar að Pútín hafi svipað í huga, að leggja undir sig Evrópu allt vestur til Atlantshafs, enda hefur hann ekki yfir að ráða nægum hefðbundum herafla til þess og beiting kjarnorkuvopna er vitfirring. 

Í bili nægir honum við viðhalda svipuðu ástandi áfram og nú er í austanverðri Úkraínu og þess vegna hentar gæti myndun hlutlauss svæðis utan um þann hluta landsins, eins og Merkel og Hollande leggja til, hentað honum vel í bili.

Merkel er raunsæisstjórnmálamaður og veit að samningsaðstaða Rússa er sterk í krafti hervalds þeirra við suðurlandamæri sín. ESB og Vesturveldin eru einfaldlega komin of langt austur og verða að sýna lipurð og kænsku til þess að ætla sér ekki um of.  

Án austurhlutans með sínar auðlindir og iðnað er Úkraína máttlaus og verður byrði á Vesturlöndum ef þau ætla að halda vestrænt þenkjandi valdhöfum uppi í Úkraínu með stórfelldri aðstoð.

Kóreustyrjöldin tók þrjú ár og endaði með pattstöðu eftir að víglínan hafði færst til og frá og endað á svipuðum stað og landamæri Suður- og Norður-Kóreu voru í upphafi stríðsins.

Svipað gæti gerst nú ef báðir deiluaðilar sýna gætni og raunsæi. Krímskagi verður aldrei aftur hluti af Úkraínu, svo mikið er víst, og varðandi hann hefur Pútín þegar "endurskrifað landamæri Evrópu."   


mbl.is Dró fram rússnesk vegabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að "toppa" á réttum tíma.

Íþróttasagan greinir frá því hvernig bestu afreksmenn hafa lent í því að "toppa" á röngum tíma.

Eftir rúmlega aldar langa reynslu á formúlan að liggja fyrir, en bestu þjálfunaraðferðirnar eru orðnar svo margbrotnar og vísindalegar að það getur enn komið fyrir færasta afreksfólk og heilu hópana að ná hámarksgetu annað hvort of snemma eða of seint.

Íslendingar bundu til dæmis miklar vonir við þátttöku Torfa Bryngeirssonar í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952. Ef ég man rétt varð hann fyrir slæmum innvortis meiðslum í aðdragandanum og það truflaði að vísu, en samt var hann á afar góðu róli í að byggja sig upp og ekki vantaði keppnisskapið, samanber það þegar hann vann stangarstökkið í sigrinum fræga á Dönum og Norðmönnum árið áður með hálbólgu og hita og setti glæsilegt Íslandsmet.

En Torfi klikkaði gersamlega í Helsinki, komst að vísu í úrslit en var langt frá sínu besta. 

Eftir leikana var farið í smá keppnisferð um Norðurlönd og þá brá svo við að Torfi stórbætti Íslandsmetið, stökk 4,35 metra, en það hefði dugað til gullverðlauna á OL í Berlín 1936.

Ragnar Lundberg Evrópumeistari í greininni, sem toppaði í Helsinki og krækti í bronsið, sagði að hann hefði ekki átt roð í Torfa þar ef hann hefði verið í þessum ham fyrr um sumarið.

Nú virðist Aníta Hinriksdóttir á uppleið í aðdragana EM og er vonandi að hún "toppi" ekki of snemma, heldur nákvæmlega á réttum tíma.   


mbl.is Aníta bætti Íslandsmetið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverju hafa Danir lifað? Ferðamálaráðuneyti?

Danmörk er lítið land að mestu án auðlinda eins og orku, málma eða skóga. Aðeins um 20% koma frá olíunni í Norðursjó, 5,5% frá kjötvörum og 2,9% frá sjávarútvegi. 

Samt flytja þeir út býsn af iðnaðarvörum eins og húsgögnum og byggja sína afkomu nær eingöngu á mannauði og verkþekkingu. Þeir flytja inn hráefni og vinna þannig úr þeim að þeir geti selt afurðirnar úr landi með góðum ágóða. 

Hér á landi hefur orðið "eitthvað annað", þ. e. eitthvað annað en stóriðja verið skammaryrði, en í Danmörku er það einmitt "eitthvað annað", þ. e. mannauður, hugkvæmni og skapandi greinar, sem eru grundvöllurinn. 

Hér á landi hefur hlutur skapandi greina og frumkvöðlastarfs í listum og vísindum farið fram úr landbúnaðinum og því fyllilega athugandi að safna þessum hluta þjóðlífs og þjóðarframleiðslu undir einn hatt í sérstöku ráðuneyti. 

Sömuleiðis er áberandi hve lítill hlutur stærstu atvinnugreinarinnar, ferðaþjónustunnar, er í kerfi sjóða, sem merktir eru hinum atvinnuvegunum til að örva nýsköpun og framþróun. 

Því má varpa þeirri spurningu upp hvort ekki sé kominn tími á sérstakt ráðuneyti ferðamála í stað þess að það sé í raun í skúffu í iðnaðarráðuneytinu þótt talað sé um ráðherra ferðamála. 

 


mbl.is Ráðuneyti skapandi greina?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband