Tifandi tímasprengja?

Fyrr í vetur varð heilmikið uppistand í París vegna dróna sem ítrekað var flogið yfir miðri borg, án þess að vitað væri hverjir stæðu að baki því og án þess að málið yrði upplýst. 

Nú gerist svipað í Manchester. Ekki fylgir þó sögunni þar hvort um rangan vitnisburð, hugarburð eða hrekk hefði verið að ræða varðandi frásögninni af meintri ógn. 

En fjölgun þessara flygilda og það hve erfitt virðist að hafa hemil á flugi þeirra, stöðva það eða upplýsa, hverjir fljúga þeim, getur varla endað með öðru en slysi. 

Það er ekki uppörvandi hve lítill árangur næst við að upplýsa svona mál og hafa hemil á þessu flugi, hvað þá að vita af leysibyssum og drónum í höndunum á mannleysum, en það orð yfir illmenni eða rudda væri líka hið ágætasta heiti á mannlausum flygildum og flugvélum.  


mbl.is Dróni tafði Icelandair-vél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar ekki með hreinan skjöld í gegnum tíðina.

Tom Leehrer tók nokkur dæmi um illindi á milli þjóða og trúflokka í söng sínum um "Natiola Brotherhood Week", hugmynd sem kom upp í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum og Leehrer tætti sundur í ísköldu háði.

Á þessum árum logaði allt í átökum á Norður-Írlandi milli mótmælenda og kaþólskra og í einu erindinu segir: 

All the Protestants hate the Katholics

and the Katholics hate the Protestants

and the Hindus hate the Muslims

and everybody hates the Jews.  

Síðasta setningin felur í sér að alhæfingar standast sjaldan um fjandska"p og illsku. Dæmin eru mýmörg, allar götur síðan sagt var: "Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?"

Sovétríkin stóðu að því með öðrum stórveldum að samþykkja stofnun Ísraelsríkis, en að baki því lá ekki aðeins samúð með ofsóttu fólki, heldur var Stalín haldinn andúð á Gyðingum og hræðslu við þá á efri árum, og var því ekkert á móti því að koma þeim úr landi.

Sjálfir sýndu Ísraelsmenn Gyðingum, sem flúðu frá Arabaríkjunum til Ísraels, megna lítilsvirðingu.

Íslendingar voru fullir fordæmingar á Gyðingaofsóknum, en tóku samt 30 norska skógarhöggsmenn fram yfir Gyðinga þegar beitt var ströngu vali á þeim sem fengju að flytja til Íslands áður en stríð skall á 1939. 

Til þess að verða lögreglustjóri í Reykjavík 1939 og leggja meðal annars grunn að útlendingaeftirliti var viðkomandi sendur á námskeið hjá SS-sveitum Himmlers í Þýskalandi.

Þegar ég fór að hitta fjölda fólks af íslenskum ættum í tengslum við samkomur þeirra vestan hafs, kom í ljós að miklu fleiri en mig hafði órað fyrir, höfðu djúpa andúð á blökkumönnum og réttindabaráttu þeirra. 

Jesse Owens var þjóðhetja í Bandaríkjunum fyrir að stela sviðsljósinu á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 af Hitler og aríum hans, en heima fyrir mátti Owens þola mismunun og lítilsvirðingu eftir sem áður. 

Noregskonungur og norska ríkisstjórnin, sem var útlagastjórn, var í stríði við Þjóðverja á meðan að hernámi Noregs stóð, en samt flykktust norskir aðdáendur nasismans til austurvígstöðvanna til þess að berjast þar í grimmdarlegu stríði, sem gerði stríðið á vesturvígstöðvunum að barnaleik í samanburðinum.

Íslendingar hér heima sýndu réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum mikinn skilning en gerðu samt að skilyrði fyrir komu bandaríska varnarliðsins til Íslands, að í því væru engir blökkumenn. 

Píus páfi sagði þegar banatilræði við Mussolini mistókst, að guðleg forsjón fylgdi einræðisherranum.

Svívirðileg meðferð á börnum danskra kvenna og þýskra hermanna eftir stríð var ljótur blettur á norrænni þjóð. 

Áður hef ég minnst á mikla grimmd Finna í innrásarherjum Hitlers í norðanverðu Rússlandi sem kona, sem lifði þar meðan á hersetu innrásarhersins, sagði mér frá 64 árum síðar. 

Nasistar áttu innlenda samstarfsmenn í öllum löndum og ummæli yfirmanns FBI eru því vafalaust sannleikanum samkvæm. 

Einn nánasti heimilisvinur foreldra minna, ljúfmenni með afbrigðum, fór í nám á illræmdasta stað Þýskalands 1938, Dachau, á vegum Heinrichs Himmlers og kom heim með radíósenditæki, sem skyldi verða tiltæk ef með þyrfti. Til þess kom aldrei. 

En þessi ljúfi maður dýrkaði bandaríska blökkumannatónlist og blakka tónlistarsnillinga vestanhafs. 

Til þess að verða lögreglustjóri í Reykjavík 1939 var viðkomandi sendur á námskeið hjá SS-sveitum Hitlers. 

Og til þess að leysa Guðmundar- og Geirfinnsmálin var fenginn þýskur lögregluforingi, sem hafði hlotið fram sinn í heimsstyrjöldinni hjá Gestapo á Ítalíu. 

 

 

 


mbl.is Yfirmaður FBI vekur reiði í Póllandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóknari klúðurstaða í vinnudeilum en dæmi eru áður um?

Efast má um að nokkurn tíma hafi stefnt í eins flóknar og erfiðar vinnudeilur og nú fara vaxandi með viku hverri. 

Ófriðareldurinn læsist um vinnumarkaðinn á þann hátt að afar erfitt er að átta sig á umfangi hans og afleiðingum af einstökum athöfnum, því að þjóðfélagið og atvinnulífið eru svo margfalt flóknari og samanslungnari en áður var. 

Hættan á að stórtjón hljótisst af deilunum er þó meiri en oftast hefur verið áður. 

Í stað þess að reyna að byggja upp trúnað og traust við aðila vinnumarkaðarins og gefa ekki aðeins loforð, heldur standa við þau, er eins og ríkisstjórnin hafi verið svo ölvuð af völdunum, sem hún fékk í kosningunum að hún geti gengið fram í taumleysi á öllum sviðum valdabrölts sína og þjónkunar við græðgisöflin. 

Margir áratugir eru síðan hér hefur verið ríkisstjórn, sem hefur ekki aðeins gengið eins fram af samtökum launafólks og almenningi, heldur einnig byggt upp vantraust hjá atvinnurekendum.  

Fáir hafa séð þetta betur en Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem hefur undrast síendurtekið klúður á flestum sviðum, sem er ekkert fagnaðarefni né efni í Þórðargleði fyrir pólítíska andstæðinga stjórnarinnar, því að þetta snertir þjóðina alla. 

Andrúmsloft trúnaðarbrests komst á þegar launþegasamtökunum fannst fyrri ríkisstjórn ekki standa við væntingar sem hún hafði gefið um samráð og samvinnu við að vinna þjóðina út úr hinum mikla vanda sem blasti við eftir Hrunið. 

En í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur keyrt um þverbak og um hrein svik loforða að ræða með margvíslegri aðför að atriðum, sem voru forsenda vinnufriðar. 

Síðan hafa innstu koppar í auðræðinu, sem ræður ferðinni jafnt hér á landi sem í fjármálakerfi heimsins, beinlínis storkað almenningi með heimskulegu framferði manna, sem virðast telja sig hina ósnertanlegu, sem eigi að komast upp með það að vera úr öllum tengslum við kjör alþýðu manna.

 


mbl.is Segir oft glymja hæst í tómri tunnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband