"Samningana í gildi!" - sama og fyrir 37 árum.

Talsmenn ASÍ segja að ríkisstjórnin hafi svikið í ýmis atriði þriggja aðila samkomulags við gerð síðustu samninga. 

Með því hafi orðið trúnaðarbrestur á milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarinnar og að ekki sé hægt að hefja samninga nú nema þessi atriði verði dregin fyrst til baka.

Því hafnaði fjármálaráðherra í útvarpsviðtali á RUV nú  í kvöld.

Þetta minnir óhugnanlega á ástandið eftir svonefnda Sólstöðusamninga 1977 þegar ríkisstjórnin lagði fram ákveðinn skerf í kjölfar þess að formaður Framsóknarflokksins hafði mælt með því á þingi að lágmarks mánaðarlaun yrðu ekki lægri en 100 þúsund krónur.

Ef ég man rétt snerist samkomulagið um að ríkisstjórnin tryggði með aðgerðum sínum að kaupmáttur launa, sem höfðu hækkað um allt að 25% og 100 þúsund króna lágmarkslaun rýrnaði ekki um of.

Í ársbyrjun 1978 var svo komið að verðbólguskrúfa með víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags var komin á slíkan skrið, að ríkisstjórnin taldi sig tilneydda til að setja lög sem áttu að draga úr launahækkunum og þar með að minnka verðbólguna.

Verkalýðshreyfingin brást ókvæða við þessu taldi ríkisstjórnina hafa svikið samningana.

Stjórnin dró aðeins í land á útmánuðum en taldi ógerlegt að halda samningunum að fullu í gildi ef koma ætti í veg fyrir óðaverðbólgu.  

Verkalýðshreyfingin greip til svonefnds útflutningsbanns með verkföllum, sem bitnuðu aðallega á sjávarútveginum. 

Í kosningunum 1978 beið ríkisstjórnin afhroð, en nýrri ríkisstjórn vinstri flokkanna tókst aldrei að standa undir væntingunum, sem slagorðið "samningana í gildi" fól í sér.

Í hönd fór verðbólgutímabil, sem náði hámarki vorið 1983, þegar verðbólgan komst í 100%.

Ríkisstjórnin 1983 greip til harkalegra aðgerða og bannaði meira að segja öll verkföll það ár meðan verið væri að koma böndum á verðbólguna.

Langvinnt og hart verkfall BSRB skilaði að vísu tímabundnum ávinningi í launum opinberra starfsmanna en verðbólgan át hann fljótlega að mestu upp.

Ekki varð komið böndum á verðbólguna fyrr en með Þjóðarsáttarsamningunum 1990.

Samningsatriðin 1977 og núna eru ekki fyllilega sambærileg. 1977 var um að ræða að láta vísitölutryggja kaupmátt launanna, sem vegna vaxandi víxlhækkana verðlags og kaupgjalds reyndist ríkisstjórninni ofviða og raunar næstu ríkisstjórn líka.

Ekki er að sjá að atriðin núna, sem talsmenn ASÍ segja að hafi verið svikin, séu sama eðlis og 1977 og því er ekki uppörvandi að heyra um þá kergju sem komin er í deilurnar nú.  

 


mbl.is Greiðir ekki fyrir lausn deilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frið þótt ófriður sé í boði?

Það hefur stundum verið sagt um harða málafylgjumenn í ólgusjó átaka að þeir tregðist við að velja frið ef ófriður er í boði. 

Þetta var stundum notað hér í gamla daga um hörðustu baráttumenn launþegasamtaka. Áberandi undantekning frá þessu voru kjarasamningarnir 1964 og 65, sem gengu undir heitinu júnísamkomulag 1964 og júnísamkomulagið 1965, og síðar þjóðarsáttarsamningarnir 1990.

Nú er svo að sjá að fyrir norðan sé verið að leita eftir friðsamlegri lausn á kjaradeilum, þótt ófriður sé í boði. 

Margt kallar á að slik viðleitni sé sýnd í hinu flókna og viðkvæma ástandi nú, sem til dæmis gæti ógnað gjöfulustu atvinnugreininni, sem er ferðaþjónustan. 

Ef friður er í boði, ber að velja hann þótt ófriður sé líka í boði. 


mbl.is Vilja semja við Framsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband