"Hvað hefur þjóðin gert...?"

"Hvað hefur þjóðin gert til þess að verðskulda svo voðalega bankamenn?" spyr Páll Vilhjálmsson. 

Hann svarar ekki spurningunni en bendir á að neyðarlög og neyðaráætlun vegna hugsanlegs hruns bankakerfisins hafi verið til reiðu þegar Hrunið kom og að það sé samsvarandi og viðbúnaður Íslendinga þegar Þjóðverjar tóku Danmörku 9. apríl 1939.

Þar með er svo að sjá við Íslendingar og ráðamenn okkar hefðum ekkert rangt gert, heldur einingis hinir "voðalegu bankamenn."

Málið er ekki alveg svona einfalt. Nefnum nokkur dæmi.

Þegar rödd Danske bank heyrðist 2006 trúði þjóðin eða að minnsta kosti yfirgnæfandi meirihluti hennar þeim sem sögðu að hér væru á ferð "danskir öfundarmenn" og látið að því liggja að þeir þyldu ekki að gamla nýlendan væri að kaupa upp eignir í Kaupmannahöfn.

Gaman að geta blásið í glæður þjóðrembunnar við svona tækifæri. 

Þjóðin trúði Hannesi Hólmsteini sem sagði að Ísland gæti orðið jafnoki stærstu fjármálamiðstöðva heims og að nauðsynlegt væri varðandi "íslenska efnahagsundrið" að "bæta í" og auka hraðann í uppsveiflunni.

Þjóðin trúði kosningaloforðunum 2007 "traust efnahagsstjórn!" og "árangur áfram - ekkert stopp!" 

Þjóðin trúði því að hlutabréfin í bankabólunni myndu hækka áfram endalaust og að gengi krónunnar gæti verið áfram 30-40% hærra en nokkru sinni fyrr. 

Þjóðin trúði því að það væri skynsamlegast í góðæri að fjórfalda skuldir heimilanna og fjórfalda skuldir fyrirtækjanna á örfáum árum. 

Þjóðin trúði fjármálaráðherranum sem sagði á þingi vorið 2008: "Sjáið þið ekki veisluna?"

Þjóðin trúði seðlabankastjóranum sem sagði um svipað leyti að íslensku bankarnir stæðust ströngustu álagspróf. 

Þjóðin trúði þeirri stjórnvisku Seðlabankastjórans sem birtist í því að það sama vor hafnaði hann boði breska Seðlabankans um að hjálpa til við að vinda ofan af bankabólunni.

Þjóðin trúði þeim ráðherra sem sagði tveimur mánuðum fyrir Hrun, að erlendur efnahagssérfræðingur, sem gagnrýndi íslenska efnahagsundrið, þyrfti að fara í endurhæfingu.

Þjóðin trúði því að þeir, sem voru gagnrýnir á íslenska efnahagsundrið bæði hér og erlendis væru úrtölumenn og kverúlantar.

Þjóðin trúði Viðskiptaráði 2007 þegar það sagði, að til Norðurlandanna þyrftum við ekkert að sækja varðandi efnahagsmál. 

Þjóðin trúði því að íslenskir bankamenn væru afburða snillingar sem hefðu gerbylt lögmálum í fjármálalífinu. 

Þjóðin trúði forseta sínum sem trúði því sjálfur að íslensku útrásarvíkingarnir í bankakerfinu væru jafnokar landkönnuðanna íslensku sem fundu Ameríku fyrir rúmum þúsund árum. 

 

Þjóðin trúði því þá að það væri svo stórkostlegt að Icesave væri í sömu stöðu og útibú Lansbankans hér á landi af því að þá "kæmu peningarnir strax inn."

Þjóðin trúði því og trúir því enn hvað það hefði verið dásamlegt að 40% af kostnaðinum við að reisa Hörpuna fengust frá Hollendingum og Bretum, oft á tíðum góðgerðarsjóðum og lífeyrisþegum, sem trúðu á íslenska bankakerfið og töpuðu inneignum sínum.

Þetta erlenda fólk var talið eiga það skilið að tapa fé sínu fyrir það hvað það hefði verið trúgjarnt og fúst til að trúa fagurgalanum og spila áhættuspil með fé sitt.

Það gilti um útlendinga en ekki um okkur sjálf.  


mbl.is Tengingin við Hreiðar og Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í Yellowstone eru heilög vé."

Þessi orð sagði bandarískur fyrirlesari á tíu ára afmælisfundi Ísor í hitteðfyrra þegar hann var að sýna fundarmönnum kort af helstu jarðvarmasvæðum Bandaríkjanna og greina frá því að reynsla og þekking Íslendinga myndi geta nýst Bandaríkjamönnum vel.

Hin fjölmörgu svæði voru sýnd með mislitum og misstórum hringjum, og voru lághitasvæðin ljósgul en háhitasvæðin með roða.

Eftir að hafa farið snögga hringferð um landið á kortinu benti bandaríski sérfræðingurinn á stóran eldrauðan hnött vestarlega í landinu og sagði: "Þetta er Yellowstone. Þar verður aldrei hróflað við neinu, því þar eru heilög vé." 

Samt er þetta lang, lang öflugasta háhitasvæði Norður-Ameríku, með tíu þúsundu hverum, þar á meðal hundrað goshverum. 

Þar væri hægt að reisa tugi ígilda Hellisheiðarvirkjunar og gera blá, gul, græn og rauð lón að vild og njörva allt svæðið þvers og kruss í neti í háspennulínum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum og virkjanavegum, auk mikilfenglegrar stíflu í Yellowston-ánni þar sem samnefndur foss yrði tekinn í nefið fyrir öfluga vatnsaflsvirkjun í nafni hins íslenska slagorðs: Við verðum að lifa á landinu og nýta það. 

Þar væri líka hægt að lita gosin úr Gamla trygg (Old Faithful) í öllum regnbogans litum. 

Og hægt að leggja margfaldan "landstreng" fyrir sölu rafmagns til Salt Lake City og annarra stórborga í vesturátt frá hinu stórkostlega nýtingarsvæði í Klettafjöllunum. 

Allt í nafni hinnar íslensku trúarsetningar um nýtinguna, sem á okkar landi er opinberlega stillt upp í rammaáætlun sem andstæða verndunar, sem ekki er metin til krónu virði. 

Þessi eina setning bandaríska sérfræðingsins fannst mér vera frétt ráðstefnunnar, "news" á ensku. 

En enginn fjölmiðill hafði áhuga á því heldur var að sjálfsögðu tekið einn einu sinni gamla góða viðtalið um það hvernig við Íslendingar værum í fararbroddi á heimsvísu í "nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku" eins og hún birtist okkur á Hellisheiði og dvínandi afli og eiturgufum. 


mbl.is Ekki list heldur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband