Aðstæður eru misjafnar.

Eitt af því sem flækir kjaramálin er hve aðstæður fyrirtækja og launþega eru misjafnar. 

Lengi vel hefur það verið talin þumalfingursregla að launakostnaður fyrirtækja sé um 70% af veltu þeirra. En þetta er afar misjafnt. 

Misjöfn staða fyrirtækja getur líka truflað skattheimtu af þeim, samanber veiðigjöldin, en það var notað sem helsta röksemd fyrir lækkun þeirra að lítil sjávarútvegsfyrirtæki þyldu þau ekki jafn vel og stærstu fyrirtækin sem eru rekin með stórgróða, bæði vegna stórlækkunar á eldsneytisverði og lágs gengis krónunnar, sem kemur þeim til góða sem þurfa að selja vöru eða þjónustu útlendingum.

Það flækir málin líka að fyrirtækin eru ýmist einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki.

Reynslan sýnir, að forsvarsmenn opinberra fyrirtækja eru gjarnir á að velta launahækkunum út í verðlagið með því að hækka þjónustugjöldin, en það bitnar oftast verst á þeim sem lélegust hafa launin. Þessi varð raunin eftir hið mikla verkfall BSRB 1984. 

Núna er uppgangur á svæði Framsýnar og verið að vinna í nýjum stórframkvæmdum.

Það skapar oft mikla bjartsýni sem verður til þess að launagreiðendur vilja komast hjá því mikla bakslagi sem verkföll valda.

Sú bjartsýni getur hins vegar komið mönnum í koll, eins og kom vel í ljós við Kárahnjúkavirkjun þar sem flest helstu verktakafyrirtækin urðu gjaldþrota og sum þeirra augljóslega vegna gríðarlegra væntinga, sem ekki rættust. 


mbl.is Þrír kjarasamningar undirritaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hið kalda hjarta hafanna."

Enn er hafin umræða um það hvort kólnandi veðurfar sé í vændum hér á landi og hvort nýtt kuldaskeið, allt að 30 ára langt, gæti hafist. 

Þessi spurning var viðfangsefni sjónvarpsþáttar sem ég gerði nokkru fyrir síðustu aldamót og bar nafnið "Hið kalda hjarta hafanna."

Þátturinn var að meginstofni danskur en blandað í hann íslenskum köflum, viðtölum og myndum. 

Nánar tiltekið er "hið kalda hjarta hafanna" sterkur hafstraumur sem hlykkjast eins og ormur um Atlantshaf og Indlandshaf. 

Megin drifkrafturinn er hlýr Golfstraumurinn sem þeytist út úr Karíbahafi framhjá Flórída til norðaustur og komast nyrstu greinar hans allt til Murmansk og Svalbarða, en einnig er lítil grein norður með vesturströnd Grænlands og önnur öllu öflugri grein hringar sig sólarsinnis í kringum Ísland. 

Þegar hinn salti Golfstraumur kælist á nyrstu slóðum hans, sekkur hann til botns og fer með botninum til baka suður Atlantshaf yfir í Indlandshaf og til baka aftur og lokar þar með hringekjunni. 

Danir stunda þjóða mest sjómælingar á Norður-Atlantshafi vegna yfirráða sinna yfir Færeyjum og Grænlandi og byggðu sjónvarpsmyndina um þetta á þeim. 

Þeir vörpuðu því fram að ef mjög mikið magn af tæru bræðsluvatni jökla kæmi út í hafið, væri það tæra vatn léttara en kólnandi Golfstraumurinn og myndi valda því að Golfstraumurinn sykki  sunnar en áður og það drægi úr afli hans og þar með hringekjunnar, hins kalda hjarta hafanna, sem knýr áfram æðaslátt hennar. 

Af því drógu þeir þá ályktun, að allt of hröð hlýnun loftslags með stórfelldri bráðnun jökla á norðurhveli gæti orðið til þess að kalla fram kuldaskeið og það jafnvel vísi að nýrri ísöld. 

Einnig var á þessum tíma hægt að sjá á tölvulíkönum að heildarhlýnun lofthjúps jarðar gæti valdið kólnun á afmörkuðum svæðum og til dæmis gæti orðið mun svalara og rakara veðurfar í Norður-Evrópu en áður. 

Undanfarin ár hefur sjór verið mun hlýrri fyrir norðan Ísland en áður og það hefur valdið hlýrra og úrkomusamara veðurfari á norðanverðu landinu en áður. 

Sjórinn nokkru fyrir sunnan landið er hins vegar kaldari núna en undanfarin ár, hvað sem því nú veldur. 


mbl.is Nýtt kuldaskeið gæti tekið við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson.

Einu sinni var stjórnvitringur. Hann hét Bjarni Benediktsson og var forsætisráðherra frá 1963 til 1970. 

Áður en hann varð forsætisráðherra fór misjöfnum sögum af stjórnmálastörfum hans eins og gengur.

Hann var einn af helstu lögspekingum landsins og átti stóran þátt í lýðveldisstofnuninni og í utanríkisstefnu Íslendinga.

Sem borgarstjóri í Reykjavík til 1947 lagði hann grunn að þeirri félagslegu þjónustu í borginni sem tryggði Sjálfstæðisflokknum meirihluta borgarstjórnar langt fram eftir öldinni.

Í stóli ritstjóra Morgunblaðsins 1956-1960 var hann harðskeyttur svo að mörgum þótti nóg um.

Þegar hann tók við embætti forsætisráðherra 1963 voru blikur á lofti í kjaramálum.

Í hörðu verkfalli 1961 höfðu laun verið hækkuð um 13% og strax í kjölfarið felldi ríkisstjórnin gengi krónunnar um 13% og af stað fóru víxlhækkanir launa og verðlags.

Bjarni sá, að við svo búið mátti ekki standa og nýtti sér alla stjórnvisku sína, kænsku og áunna lipurð til að koma á það góðu trúnaðarsambandi og persónulegum samskiptum milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar að verkföllum var afstýrt 1964 með svonefndu júnísamkomulagi og síðan aftur með nýju júnísamkomulagi árið eftir.

Bjarna tókst að stýra þjóðarskútunni í gegnum gríðarleg áföll á árunum 1967-70 af lagni og stjórnvisku.

Við hörmulegt fráfall hans 10. júlí 1970 skynjaði þjóðin sterkt, að hún hafði misst einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnum aldarinnar, mann sem hafði komist í stöðu landsföður.

Nú er uppi válegt ástand í kjaramálum. Annar Bjarni, Benediktsson eins og frændi hans, er í raun límið í ríkisstjórninni og heldur henni saman. Hann á möguleika til að komast í svipaða stöðu og nafni hans forðum.

En tími hans er ekki kominn og enginn veit enn hvort hann hefur það sem þarf, til þess að endurtaka leikinn frá 1964. Staða hans er önnur og umhverfið annað en var hjá frænda hans 1963-1970.

Ekkert trúnaðartraust ríkir milli ríkisstjórnar og launþegahreyfinganna og ringulreið er á vinnumarkaði.

Hvorki hillir undir júnísamkomulag né nýja Þjóðarsátt líka þeirri, sem menn afrekuðu að ná fram 1990. Ríkisstjórnin og valdaöflin, sem að henni standa, hafa storkað almenningi með því að nota endurheimt vald til að hygla þeim sem mest hafa, oft upp í opið geðið á alþýðu manna.

Einu sinni var talsmaður svipaðra afla sem hét Bjarni Benediktsson. En hann var stjórnvitringur.   


mbl.is Verkföllin bíta marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Carl Möller fannst í ruslatunnu.

Þótt ótrúlegt megi virðast eru ofangreind fyrirsögn dagsönn. Ungar dætur mínar heyrðu undraveikt mjálm í öskutunnu nálægt heimili okkar og reyndist þar vera lítill kettlingur, sem greinilega hafði verið ætlunin að "koma fyrir kattarnef" á þennan hátt.

Þær björguðu kettlingnum, sem hlaut nafnið Carl Möller í höfuðið á hljómborðsleikara Sumargleðinnar.

Þetta var stórmerkilegt dýr og varð að fullgildum meðlim í stórfjölskyldunni eins og um mennska veru væri að ræða. Hef ég sagt ýmsar sögur af honum hér á bloggsíðunni en veit þó ekki hvort þessi hefur áður birst:

Kalli, eins og hann var alltaf kallaður, týndist einu sinni í nokkra daga. Eftirfarandi símtal átti sér stað nokkrum kvöldum síðar þegar síminn hringdi hjá okkur og rödd sagði í símann:

"Á Carl Möller heima þarna?"

"Já," svaraði ég.

"Get ég fengið að tala við hann?"

"Nei, því miður, hann er ekki heima og jafnvel þótt hann væri heima, gætirðu að vísu talað við hann en hann gæti alls ekki talað við þig."

"Hvernig stendur á því?"

"Það er vegna þess að hann er köttur." 

"Nú, það er þá nafnið hans, sem stendur hér á spjaldinu sem er hengt um hálsinn á honum?"

"Hvað stendur á spjaldinu? Ég var búinn að gleyma því."

"Það stendur: Carl Möller. Sími 553 1211."


mbl.is Hitti manninn sem fann hann í rusli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband