Flóttamenn fyrri tíma hér á landi.

Þótt umfang flóttamannavandans hér á landi og í öðrum Evrópulöndum sé meira og erfiðara viðfangs en oft áður, er þetta ekki í fyrsta skipti sem stríð, óáran og harðstjórn erlendis hefur skolað til okkar flóttamönnum. 

Í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar flúðu margir, einkum Gyðingar, frá þeim löndum í Evrópu sem fasískar einræðisstjórnir réðu og allmargir komust til Íslands. 

Þá kom enginn til landsins nema á sjó og því var auðveldara um vik að takamarka strauminn og velja úr hópnum. 

Löngu eftir stríð þótti athyglisvert, hvernig úrvalið fór fram, og til dæmis bent á það að frekar væru teknir norskir skógarhöggsmenn en ágætlega menntaðir Gyðingar. 

Á mörgum sviðum hérlendis lögðu innflytjendur til mikilsverðan skref til menningar og framfara.

Sem dæmi má nefna tónlistarmennina Carl Billich, Viktor Urbancic, Franz Mixa, Jósef Felsmann, Jose M. Riba, Róbert Abraham Ottóson og Jan Moravék.

Tveir frægustu flóttamenn, sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararrétt eru líklega Bobby Fisher og Vladimir Askenazy.

Í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari fóru um 14 milljónir manna á vergang og hingað til lands kom fjöldi Þjóðverja. Margir þeirra voru konur, sem lögðu fram drjúgan skerf til þjóðfélagsins, einkum við störf í sveitum landsins.  

Eftir innrás Sovétmanna í Ungverjaland 1956 var tekið á móti hópi flóttamanna hér, og lögðu þeir margir ágætan skerf til samfélagsins. Dæmi um það var frjálsíþróttaþjálfarinn Simony Gabor, sem þjálfaði suma af bestu afreksmönnum okkar, svo sem Vilhjálm Einarsson.

Stríðin á Balkanskaga í lok síðustu aldar skiluðu allmörgum flóttamönnum hingað.

Það er einkum á ákveðnum svæðum úti á landi þar sem innflytjendur hafa orðið mikilvægur þáttur í að halda atvinnulífinu gangandi, svo sem á Vestfjörðum.

Þjóðahátíðin svonefnda leiddi ágætlega fram þá menningarstrauma, sem blönduðust íslenskri menningu, svo sem hjá ýmsum erlendum tónlistarmönnum, sem tóku að sér tónlistarkennslu og leiðbeiningar og stjórn á tónlistarsviðinu. 

Þar kom í ljós að innflytjendum frá fjarlægum löndum, svo sem frá Asíu, tókst mörgum hverjum mjög vel að aðlagast íslensku samfélagi og nýtast því vel. 

Nú kemur flóttamannastraumurinn almennt um lengri veg en oft áður og þá verður mikilvægi þess að vanda til móttöku þeirra enn víðtækara en fyrr. 


mbl.is Taka verði vel á móti flóttafólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara orð en engar efndir?

Nú eru 33 ár frá stóru umhverfisráðstefnunni í Ríó þar sem undirritaður var sáttmáli, kenndur við þá borg, um umhverfis- og náttúruvernd, um sjálfbæra þróun og um að náttúran ætti að njóta vafans þegar ekki væri algerlega skýrt hver umhverfisáhrif aðgerða mannsins væru.

Liðin eru 18 ár síðan Ríó-ráðstefnunni var fylgt eftir í Kyoto með alþjóðasamningi, sem taka átti gildi fyrir meira en áratug.

Bandaríkin og fleiri mestu umhverfissóðar heims undirrituðu ekki samninginn og skemmst er frá því að segja að hvorugur þessara sáttmála hefur í raun verið virtur af þjóðum heims í heild.

Þar eru Íslendingar einhverjir mestu skussarnir varðandi það að koma sér undan þessum skuldbindingum eins og mögulegt hefur verið.

Við höldum áfram að aka um á mest mengandi bílaflota í Vestur-Evrópu, gefa sjálfbærri þróun langt nef og láta virkjanir og framkvæmdir njóta vafans en ekki náttúruna.

Nú eru liðin 17 ár síðan Árósasamkomulagið var gert, sem tryggir almanna samtökum aðgang og lögaðild af framkvæmdum, sem hafa áhrif á umhverfið.

Íslendingar drógu, einir Vestur-Evrópuþjóða, lappirnar í því máli og samkomulagið eða sáttmálinn fékkst ekki í gegn á Alþingi nema allir flokkar samþykktu hann.

Þá var búið að þynna hann svo út, að þegar fyrst reyndi á hann í alvöru, í Gálgahraunsmálinu, var úrskurður Hæstaréttar sá, að almenn félög hundraða og þúsunda manna, sem málið skipti, fengju ekki að eiga lögformlega aðild að málinu.

Nú hafa ráðamenn þjóða heims enn uppi svipaðan fagurgala og verið hefur sunginn í 33 ár án þess að það bóli nokkuð á efndum.

Getuleysi þjóðarleiðtoga heimsins hefur verið sláandi á öllu þeim fundum og ráðstefnum öðrum en ofannefndum, sem haldnar hafa verið, spilað á fiðlur meðan Róm brennur.   


mbl.is Mikilvægt að ná sátt um loftlagssamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband