Var þjóðaratkvæðagreiðslan 1918 vanhugsuð og ómarktæk?

Innan við helmingur kjósenda á kjörskrá tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1918 um Sambandslagasamninginn við Dani. 

Þar að auki voru konur innan við fertugt ekki atkvæðisbærar og ef núverandi kröfur hefðu verið um skilyrði til að vera á kjörskrá hefði þátttakan verið enn lægri, jafnvel undir 40%. 

Svipuð þátttaka var í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um vínbann á fyrri hluta síðustu aldar. 

Nú hefja menn upp þann söng að ekkert sé að marka þessar atkvæðagreiðslur vegna þess að um helmingur kjósenda ákvað að segja pass og láta hinn helminginn taka ákvörðun fyrir allan hópinn. 

Birgitta Jónsdóttir er ekki að kasta rýrð á þessar atkvæðagreiðslur með orðum sínum heldur að benda á, að þátttaka geti orðið betri ef þær eru samhliða þeim kosningum sem flestir taka þátt í bæði hér og erlendis. 

Þess vegna er til dæmis oft gripið til þess ráðs að hafa atkvæðagreiðslur um einstök innri mál sveitarfélaga samhliða byggðakosningum.

Innan við helmingur Bandaríkjamanna á kosningaaldri tekur þátt í forsetakosningum þar í landi og enginn forseti Bandaríkjanna hefur fengið meirihluta fólks á kosningaaldri.

Andstæðingar beins lýðræðis segja að alla, sem ekki taka þátt, beri að skoða sem andstæðinga þess máls sem kosið er um.

Samkvæmt því voru allir forsetar Bandaríkjanna rúnir fylgi.   


mbl.is Beint lýðræði þegar það hentar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættulega lélegar merkingar og lögbrot.

Íslenskir vegaverktakar ætla seint að gyrða sig í brók varðandi fullnægjandi merkingar vegna framkvæmda og fyrir bragðið lenda vegfarendur í vandræðum og jafnvel beinni hættu. 

Eitt dæmið blasti við á leið upp Kambana í fyrrakvöld í þéttri umferð á leið til Reykjavíkur. 

Í vinstri beygju þar sem vegurinn þrengdist vegna vinnu við ytri akreinina og bílarnir framundan skyggðu á framhald vegarins, komu bílar á ytri akreininni svo skyndilega að fyrstu merkingu, að margir áttu í mestu vandræðum með að forðast hana og máttu þakka fyrir að aka ekki á merkingarnar eða á bílana við hliðina. 

Þetta olli samfelldri hættu og vandræðum á þessum stað. 

Alls staðar erlendis eru sett upp stór og áberandi viðvörunarmerki nógu langt frá þrengingu eða öðrum framkvæmdum til þess að bílstjórar geti gert ráðstafanir í tíma.

Á Reykjavíkursvæðinu er lang oftast ekkert hirt um þetta þannig að bílstjórar lenda oft í hinum mestu vandræðum.

Dæmi um það var fyrir viku þegar leiðin lá suður Reykjanesbraut og til hægri inn á Vífilsstaðaveg.

Þá kom allt í einu í ljós þegar komið var að aðreininni, að hún var lokuð vegna framkvæmda.

Í stað þess að maður hefði fengið tækifæri til þess að beygja til hægri einum gatnamótum fyrr, þurfti í staðinn að aka suður í Hafnarfjörð, til hægri eftir Reykjanesbraut til Álftanesvegamóta, þar aftur til hægri í átt til Reykjavíkur og loks enn til hægri austur eftir Vífilsstaðavegi, alls minnst fjóra auka kílómetra um fjölda gatnamóta með hringtorgum og umhferðarljósum.

Eftirgrennslan hefur leitt í ljós, að verktakarnir bregðst reiðir við og segjast ekki hafa mannskap eða peninga til þess að sinna lögbundum skyldum sínum í þessu efni og Vegagerðin og Reykjavíkurborg bera hinu sama við.

Ég hef hvergi erlendis séð þetta liðið nema hér á landi.   


mbl.is Umferð beint um Þrengslaveg í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að vera óveður í aðsigi.

Margir ypptu öxlum þegar bent var í byrjun 21. aldarinnar, að hún kunni að verða enn óróasamari en 20. öldin með sínar tvær heimsstyrjaldir og ótal aðrar styrjaldir. 

Spádómar um að trúarbrögð yrðu vaxandi undirrót illinda, hernaðar og ófara þótti mörgum fjarstæður fyrir 15 árum. 

Það sýndist svo ólíklegt að á öld upplýsingatækni og stóraukinna samskipta þjóða gæti stefnt í eitthvað svipað ástand og ríkti í Evrópu á tímum 30 ára stríðsins og Siðaskipta. 

Einnig voru menn og eru enn í raun sofandi fyrir þeirri miklu hættu á alvarlegum stríðsátökum og stórfelldum nýjum vandamálum, sem breytingar á kjörum þjóða af völdum loftslagsbreytinga munu leiða af sér. 

Flóttamannaholskeflan, sem nú skellur á Evrópu, er og verður ekkert einsdæmi um ný og tröllaukin vandamál sem koma munu víða upp vegna óstöðvandi fjölgunar mannkyns, þverrandi auðlinda á næstu áratugum og átaka af völdum deilna um trúarbrögð og stjórnmálastefnur. 

Nú gengur sagan af litlu gulu hænunni í endurnýjun lífdaga þegar á fundum leiðtoga þjóða næst engin samstaða og kötturinn segir "ekki ég" og hundurinn segir "ekki ég."


mbl.is Ekki náðist samstaða á neyðarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skítalykt af málinu".

Stundum eru mál þannig vaxin þegar fengin er svonefnd niðurstaða í afgreiðslu verkefnis, að engu er líkara en að fyrst hafi niðurstaðan verið ákveðin og forsendur og afgreiðsla síðan löguð að henni, svo að hin fyrirfram ákveðna útkoma sýnist vera rétt. 

Þetta blasir við þegar litið er á áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar na-sv brautar Reykjavíkurflugvallar. 

Upp kemur gamla orðtakið frá fyrstu árum Spaugstofunnar: "Það er skítalykt af málinu." 

Í stað þess að leysa málið með því að lækka byggingarnar sem á að reisa við na-enda brautarinnar eða færa þær fjær með skipulagsbreytingu á byggingarreitnum, er málið keyrt áfram í átt að því sem virðist fyrirfram ákveðinn niðurstaða. 

Brautin sjálf tekur miklu minna raunverulegt rými í brautakerfi vallarins en margir halda, því að 70% hennar myndu verða áfram á sínum stað inni í kerfi flugbrauta og akstursbrauta, þótt aðflugið að henni yrði eyðilagt. 

Það er aðeins suðurendi hennar, hinum megin á vellinum, sem skagar út úr brautakerfinu. 


mbl.is Alvarlegar villur í skýrslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband