Ömurlegt ástand í safnamálum ríkisins.

Stundum vekja heimsóknir til fjarlægra staða mann til umhugsunar um ástand ýmissa hluta. 

Ferðalag til Murmansk í Sovétríkjunum sálugu 1978 opnað augun fyrir ástandinu í "sæluríki" kommmúnismans.

Borgin liggur norðar en Reykjavík og samanburðurinn á þessum tveimur borgum því marktækur. 

Það var eins og vera kominn til Reykjavíkur þrjátíu árum fyrr, 1948, - malargötur, biðraðir vegna skorts á nauðsynjavörum, gamaldags vörubílar með verkakalla á pöllunum, lélegur frágangur á hálfkláruðum húsum. 

Á hinn bóginn var allt aðra sögu að segja um söfnin í borginni. Þarna voru þessi fínu söfn um menningu, sögu og náttúru Rússlands, hreint til fyrirmyndar. 

Manni rann til rifja ástand sambærilegra íslenskra safna. 

Síðan eru liðin 37 ár og enn er ástandið í safnamálum hins opinbera hér á Íslandi til skammar, jafnt holan þar sem hús yfir íslensk fræði á á rísa sem húsnæðisleysi þess safns, sem ætti að vera hvað veglegast, safn íslenskrar náttúru. 

 


mbl.is „Kallað hola íslenskra fræða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kangerlussuaq er einstakur staður.

Kangerlussuq eða Syðri-Straumfjörður eins og staðurinn var kallaður fyrrum, sem einstakur staður á flesta lund. 

Þótt sagt sé í frétt um staðinn á mbl.is að hann sé á vesturströnd Grænlands, er hann í raun næstum 200 kílómetra frá henni, því að hann er inn af botni 185 kílómetra langs og mjós fjarðar. 

Fjörðurinn er meira en þrefalt lengri en Eyjafjörður og það þröngur, að vindar frá hafinu milli Grænlands og Baffinslands komast ekki þangað inn eftir nema fara yfir fjöll. 

Fyrir bragðið er þarna afar þurrt loftslag og hlýtt um hásumarið. 

Meðalhitinn að degi til í júli er 16 stig, - ég endurtek: 16 stig. Það er líklega hæsti hiti norðan heimskautsbaugs og þremur stigum hlýrra en í Reykjavík. 

En sumarið er mjög stutt og háveturinn með tuga stiga meðalfrosti. 

Inn af Kangerlussuaq gengur fallegur dalur með afar fjölbreyttur gróðurfari. 

1999 var ógleymanlegt að koma úr jeppaferð þvert yfir Grænlandsjökul niður risastóran skriðjökul og lenda inni á hreindýraslóðum þar sem voru nýfæddir hreinkálfar. 

Skriðjökulstunga gengur niður í botn dalsins með fallegri á, sem fellur meðfram jöklinum í flúðum og fossum. 

Á leiðinni út að Kangerlussuaq var furðu gróðursælt, en þegar nær dró flugvellinum tóku við sandaöldur. 

Þegar komið var upp á þá ystu, blasti skyndilega við stór alþjóðaflugvöllur með öllum stærðum og gerðum flugvéla, frá smárellum upp í Boeing 747 breiðþotur og jafnvel Concorde. Þetta var eins og að koma til eftir eyðimörkinni til einhvers flugvallar í Arabaríki. 

Þegar jeppaleiðangurinn var farinn, var allt svæðið inn af Kangerlussuaq ósnortið að undanskilinni svipaðri jeppaslóð og finna má á hálendi Íslands. 

Það gerði "Safari-upplifunina" enn sterkari en ella. 

Nokkrum árum síðar seldu Grænlendingar Volkswagenverksmiðjunum dalinn og jökulinn fyrir bílaprófanir sínar og grunar mig að með því hafi stór hluti sjarma svæðisins farið fyrir lítið.

Þess má geta að flugvöllurinn stendur á freðmýrarlandi, sem menn óttast að muni gefa eftir með hækkandi lofthita, þannig að völlurinn kunni að sökkva með tímanum.  

 


mbl.is Hefja flug til Kangerlussuaq
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er af sem áður var.

Á fyrstu árunum eftir stríð og síðan aftur frá 1954 var faðir minn vörubílstjóri. Bíllinn var Ford árgerð 1946 og tók einn í sæti við hlið ökumanns, en við voru þrír bræðurnir, þannig að þegar foreldrar okkar fóru í bæjarferð, til dæmis frá Stórholti vestur í bæ til afa og ömmu á Ásvallagötu komst öll fjölskyldan ekki fyrir inni í bílnum. 

En við því var ráð. Við bræðurnir fórum upp á pallinn á bílnum og héldum okkur í sérstakt handrið, sem var fremst á pallinum upp við hús bílsins. 

Á þeim árum var leyfilegt að fólk stæði við svona handrið á vörubílspöllum og héldi sér í þau. 

Stundum kom fyrir að foreldrum okkar fannst skárra að við sætum, einn eða tveir, á milli þeirra í sætisbekknum inni í bílnum, heldur en að halda okkur standandi í handriðið uppi á opnum bílpallinum. 

Ef okkur var troðið, einum eða jafnvel tveimur á milli foreldra minna, ók pabbi en mamma var á útkíkki eftir því hvor ekið væri fram á lögregluna. 

"Beygja ykkur!" hrópaði hún ef hún sál löggubíl eða lögregluþjón, og þrýsti höfðum okkar fram og niður til þess að við sæumst ekki utan frá. 

Þetta var 35 árum áður en skylt varð að hafa bílbelti og öryggiskröfurnar því allt aðrar en síðar varð, - miklu líkara því sem enn er á vélhjólum. 

Ekki minnist ég þess að nokkurn tíma í mínu minni hafi orðið slys vegna þess að Íslendingar féllu af bílpöllum. Stórslys varð á stríðsárunum þegar margir hermenn létust þegar herbíll hlaðinn mönnum valt við vegamót Dalvíkurvegar og Norðurlandsvegar, en ekki veit ég nánar deili á atvikum þar. 


mbl.is Með soninn ofan í kerru á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg hæfileikakona.

Ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast hæfileikum Sölku Sólar við krefjandi aðstæður og átta mig á því af hverju sól hennar skín jafn skært og raun ber vitni.

A tónleikum í Háskólabíói í vor vantaði á síðustu stundu söngkonu til þess að fullmanna hljómeykið "Náttúrubörn", sem í voru KK og KK-band auk mín, til að flytja spánnýtt lag og texta: "Hjarta landsins".

Ég hringdi í Sölku síðdegis, og enda þótt hún væri önnum kafin í vinnu uppi á RUV, lét hún til leiðast að reyna þetta.

Hún hafði aldrei heyrt lagið né heldur séð textann, gat þó skroppið vestur örstutta stund til þess að renna í gegnum það.

Síðan komst hún ekki aftur vestur eftir fyrr en komið var að því að flytja lagið.

Skemmst er frá því að segja að hún stóð sig svo vel, eins og yfirfullur salur áheyranda getur borið vitni um, að það vakti undrun og aðdáun.

Ísland er ekki á flæðiskeri þegar ungar, glæsilegar og hæfileikaríkar konur birtast þjóðinni hver á fætur annarri og láta til sín taka.


mbl.is Salka Sól: Ég bara reif hnappinn af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband