Flokkarnir hafa nálgast hvor annan.

Í ríkisstjórnarsamstarfinu 2009-2013 reyndi á það hvort Samfylkingin og Vg gætu starfað saman við einhver erfiðustu viðfangsefni sem nokkur íslensk ríkisstjórn hefur þurft að leysa. 

Að sjálfsögðu hrikti oft í því stjórnarsamstarfi vegna ólíkra áherslna flokkanna í stórum málum, en engu að síður entist stjórnin út kjörtímabilið og hafði þá tekist að koma efnahagsmálum landsins inn í þá uppsveiflu sem síðan hefur haldið áfram.

Helstu ágreiningsefni flokkanna hafa verið afstaðan til ESB og mismunandi skoðanir innan flokkanna til umhverfis- og náttúruverndarmála.

Þessi ágreiningur hefur minnkað með árunum.  Eins og er er innganga í ESB í biðstöðu um óákveðinn tíma og á þessu kjörtímabili hafa flokkarnir verið nokkuð samstíga á þingi þegar þau mál hafa verið á dagskrá.

Í umhverfismálum var lengi vel stór hópur flokksmanna í Samfylkingunn, einkum á virkjana- og stóriðjusvæðum, eindregnir fylgjendur stóriðjustefnunnar. 

Þetta var stór meirihluti þingmanna flokksins 2003 þegar hann lagðist á sveif með þáverandi stjórnarflokkum í Kárahnjúkavirkjunarmálinu. 

Þrátt fyrir stefnuna "Fagra Ísland" haustið 2006 munaði aðeins örfáum atkvæðum á landsfundi flokksins 2009 að samþykkt yrði tillaga um að flokkurinn vildi að sem allra flest álver yrðu reist á landinu. 

Á næstu landsfundum sveigðust menn hins vegar í átt til sterkari umhverfissjónarmiða og á síðasti landfundur Samfylkingar fór fram úr Vinstri grænum hvað varðaði fráhvarf frá gömlu olíuvinnslustefnunni.

Þess ber að gæta að í skoðanakönnun 2003 kom í ljós að þriðjungur stuðningsmanan Vg var meðmæltur Kárahnjúkavirkjun og ráðherra flokksins fór létt með það 2013 að veita meiri ívilnanir og stuðning ríksins við stóriðju á Bakka en nokkur ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar hafði gert áður við sambærilegar aðstæður.

Á árum Viðreisnarstjórnarinnar gáfu þáverandi stjórnarflokkar þrívegis það loforð fyrir kosningar að starfa áfram í stjórn ef þeir fengju til þess meirihluta.

Þetta skapaði hreinar línur og kjósendur vissu meira um það, að hverju þeir gengju, en ef gamla lagið hefði verið viðhaft að báðir flokkarnir gengju óbundnir til kosninga.  

Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur voru þá með talsvert ólíka forsögu og áherslur, en það hindraði ekki þetta samstarf þeirra.

Sama ætti vel að vera hægt að gera nú.  


mbl.is Samfylking og VG í eina sæng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðar framfarir í gerð bensínhreyfla kunna að breyta miklu.

Langt fram eftir fyrsta áratug þessarar aldar var það hald manna, að dísilvélin væri að vinna sigur í kapphlaupinu við bensínvélina um hylli kaupenda og þar með framleiðenda. 

Stórbætt tækni við innspýtingu og þróun forþjöppu og millikæla olli því að dísilvélin, sem eitt sinn skilaði aðeins rúmlega 20 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis, var kominn upp í 100 hestöfl á hvern lítra. 

Útblástur gróðurhúsalofttegunda var kominn langt niður á dísilbílunum og menn spáðu jafnvel algerum ósigri bensínhreyfilsins. 

Volkswagen verksmiðjurnar höfðu verið í fararbroddi í þróun dísilvélanna allt frá því er Golf dísil með forþjöppu setti ný viðmið í kringum 1980. 

En í viðtali fyrir 10 árum sagði tæknisérfræðingur Fiat verksmiðjanna að bensínvélin ætti enn mikið eftir og að bylting myndi verða í afköstum og mengunarvörnum. 

Þetta gekk eftir með tilkomu Fiat Twin-air vélinni og síðar Ford Ecoboost, en þar skila tveggja og þriggja strokka smávélar allt upp í 125 hestöflum á hvern lítra sprengirýmis. 

Útblástur sótagna og fleiri slæmra efna er mun minni en á dísilvélum og til dæmis hefur verið á döfinni í París að stórminnka hlut dísilbíla.

Hér á landi hafa dísilvélar komið vel út á veturna, því að þær virðast ekki eins næmar fyrir áhrifum kuldans á eyðsluna og bensínvélar.

En bensínvélarnar sækja líka á á því sviði og framundan er spennandi einvígi þessara tveggja höfuðgerða bulluhreyfla auk þess sem áframhaldandi framfarir í gerð rafbíla munu óhjákvæmilega fara að skila sér þegar bestu olíulindir jarðar fara að þverra og orkuskipti óumflýjanleg.  

Bílaframleiðendur eru grunaðir um græsku varðandi mælingar á eyðslu og mengun og stundum er of mikill munur á uppgefinni og oft hlægilega lítilli eyðslu og raunverulegri eyðslu. 

Hyondai verksmiðjurnar voru til dæmis staðanar að svindli á hluta til í Bandaríkjunum í fyrra, ef ég man rétt.

Gríðarlegar fjárhæðir og hagsmunir eru í húfi. Við erum að sjá svipað fyrirbæri og þegar fyrst komst upp um lyfjamisnotkun íþróttamanna.  

 


mbl.is Boða endalok dísilbílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vikivaki og Birdland?

Hugsanlega eru lögin, sem lætur fólki líða best, eins mörg og fólkið er margt.

Ef ég ætti án umhugsunar að velja lög sem ég vildi heyra spiluð koma lögin Vikivaki eftir Jón Múla með þverflautuleik Rúnars Georgseonar og lagið Birdland með Manhattan Transfer strax upp í hugann.

The girl from Ipanima, lagið Garden Party með Mezzoforte og Meat Loaf með Paradise by the dashboard light eru ekki langt undan.  


mbl.is Er þetta það eina rétta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið ekki búið fyrr en það er búið.

Svalt veðurfar fram eftir sumri varð til þess að margar svartsýnispár og fréttir um vandræði sem af kuldunum hlytust skutu upp kollinum. 

Í gúrkutíð í fréttum var ágætt út af fyrir sig að fá eitthvað bitastætt til að segja frá. 

Hrun berjasprettu var aðeins ein af þessum fréttum, en líklega var stærsta fréttin um það að hætta væri á hruni í vatnsbúskap Landsvirkjunar með milljarða tjóni. 

En íslenskt veðurfar er óútreiknanlegt í báðar áttir, bæði hvað snertir hlýindi og kulda, úrkomu og þurrka.

Nú stefnir hraðbyri í ágæta berjasprettu, þótt seint sé, og jafnvel sýnist líklegt að Hálslón fyllist áður en það fer að hausta.

580 rúmmetra innrennsli á sekúndu fyrir nokkrum dögum er einsdæmi á þessum árstíma sem og allt að 15 stiga hiti á Brúaröræfum dag eftir dag.

Það mætti orða þetta þannig, að sumarið sé ekki búið fyrr en það er búið, jafnvel langt fram eftir hausti.  


mbl.is Ræst hefur úr berjasprettu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband