Minnir á upphaf lyfjahneykslismála.

Síðan uppvíst varð um stórfellda notkun stera hjá helstu kastíþróttamönnum veraldar á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar, hafa öldur slíkra mála skollið á íþróttaheiminum hvað eftir annað. 

Hámarki náðu þessi mál á Ólympíuleikunum í Seoul 1986, tveimur áratugum eftir að fyrst vitnaðist um svona misnotkun. 

Og brot Kanadamannsins Ben Johnsons varpaði skugga á árangur Carl Lewis og annarra hlaupara þótt aldrei sannaðist beint að þeir hefðu haft rangt við. 

Hneykslismálum af þessum toga virðist ómögulegt að útrýma. 

Það hefur lengi verið ljóst að bílaframleiðendur um allan heim hafa auglýst rangar eyðslutölur bíla og stundum stórýktar. 

Þegar auglýst er að 1500 kílóa bíll eyði innan við fimm lítrum í blönduðum akstri blasir við að þetta er stórlega ýkt. 

En gallinn er sá, að flestir kaupendur eru svo stoltir af bílavali sínu, að þeir geta ekki horfst í augu við sannleikann, heldur bæta jafnvel um betur í frásögnum sínum til þess að réttlæta bílakaup sín.

Gríðarlegir þjóðahagsmunir eru í húfi ekki síður en hagsmunir bílaframleiðendanna. 

Flogið hefur fyrir að í Bandaríkjunum hafi ákveðnu svindli svipuðu því hjá Volkswagen verið sópað undir teppið með hljóðri áminningu, engri sekt og þöggun. 

Enda miklir innanlandshagsmunir í húfi varðandi það að verjast innrás þýsku dísilbílanna. 

 


mbl.is Öllum bílaframleiðendum vantreyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákn olíualdarinnar.

Þegar fundnar hafa verið leifar frá Þjóðveldisöld á Íslandi hefur sumt vakið undrun vegna þess hvernig þær hafa lýst mikilli velsæld, ríkidæmi og veldi þeirra kynslóða sem þá byggðu landið. 

Stórkostlegir landamerkjagarðar á þingeyskum heiðum og stórir skálar höfuðbóla hafa sýnt, hvernig þessar kynslóðir nýttu sér landgæði út í ystu æsar án þess að huga að afleiðingum rányrkju á skógum og skógarkjarri. 

Um það vitna til dæmis kolagrafir sem hafa fundist á örfoka landi við Kjalveg og heimildir um skógarnytjar þar sem gróður er fyrir löngu horfinn. 

Hluti af skýringu á hinum stóru framkvæmdum þjóðveldisins er þrælahaldið fyrstu aldirnar en einnig hlýrra loftslag en síðar varð.

Virða verður þessum kynslóðum til vorkunnar að hluta, að þær vissu ekki í fyrstu að jarðvegurinn undir skógi og kjarri á Íslandi var og er ekki þétt mold ofan á klöpp og möl eins og í Noregi, heldur öskublandinn, laus og rokgjarn. 

Þar að auki fór loftslag kólnandi. 

Nú stendur til að reisa verslunarmiðstöð í Garðabæ, einum af útbæjum Reykjavíkur og táknum olíualdarinnar, því að dreifð úthverfi og nágrannabæir borga um víða veröld  eru skilgetið afkvæmi þeirra samgangna, sem gnægð ódýrs jarðefnaeldsneytis hefur skapað, hins "ameríska lífstíls." 

Við þessa einu verslun eiga að standa sextán olíu- og bensíndælur. 

Einhvern tíma seinna á þessari öld eða snemma á hinni næstu má reikna með að einhver forsætisráðherra þess tíma muni gangast fyrir friðun þessa mannvirkis með sextán eldnseytisdælur við eina verslun sem tákns um olíuöldina, mesta góðæris-, gróðæris og rányrkjutímabils í sögu mannkynsins.  


mbl.is 16 bensíndælur við Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleikinn í næstum sjö áratugi.

Það er ekki nýtt að trúverðugleiki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sé umdeildur.

Þegar Norður-Kóreumann réðust með hervaldi á Suður-Kóreumenn 1950 stóð þannig á, að Rússar voru óánægðir með gang mála á vettvangi ráðsins og fulltrúi þeirra sótti ekki fundi þess um skeið í mótmælaskyni.

Þar af leiðandi fékkst samstaða í ráðinu um að Sameinuðu þjóðirnar beittu hervaldi gegn Norður-Kóreumönnum, sem i raun þýddi samþykki við því að Bandaríkjamenn sendu herlið til Kóreu.

Kóreustríðið stóð í þrjú ár og enn þann dag í dag hefur ekki verið gerður friðarsamningur á milli kóreskuu ríkjanna, heldur hefur einungis verið vopnahléssamningur í gildi.

Eftir þessa afdrifaríku ákvörðun í Öryggisráðinu kom fulltrúi Rússa aftur á fundi þess og ráðið hefur síðan verið vettvangu togstreitu stórveldanna. 

Áratugum saman fékk kommúnistastjórn Kína ekki fulltrúa í ráðinu, heldur fór stjórn Sjang Kai Sheks á Taivan með atkvæði Kína, og brenglaði sú skipan störf ráðsins mjög og rýrði trúverðugleika þess.

George Bush eldri hafði lag á að gera hernaðaríhlutun í Írak löglega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 1992, en sonur hans fór aðra leið 2003 með ólöglegri innrás, og hefur engin ein ákvörðun Bandaríkjamanna um málefni þessa svæðis verið afdrifaríkari og vafasamari en hún.

Á vettvangi Öryggisráðsins hefur hið gamla módel Kalda stríðsins ríkt alla tíð, þar sem Bandaríkjamenn beita neitunarvaldi sínu í þágu Ísraelsmanna og Rússar í þágu stjórnvalda í Sýrlandi.

Þetta er orðin næstum 70 ára gömul saga mismunandi trúverðugleika sem ekki sér fyrir endann á.    


mbl.is Trúverðugleikinn í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband