Stærsta stund íslenskrar knattspyrnu?

Tvöfaldur sigur Íslendinga yfir einhverri bestu knattspyrnuþjóð heims í alvöru stórmótskeppni er þegar orðin stærsta stund íslenskrar knattspyrnu, hvernig sem framhaldið verður. 

Við erum að uppskera árangurinn af því þegar ný gullaldarkynslóð kom inn á völlinn fyrir nokkrum árum, menn eins og Gylfi Þ. Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson, en þá man ég eftir því að veðjað var á þá hér á síðunni sem framtíðar gullaldarlið okkar. 

3:0 markatala gegn Hollendingum í tveimur leikjum heima og að heiman er eitthvað sem enginn bjóst við fyrirfram, en auk þess að hafa fengið til liðs við okkur Lars Lagerback og Heimi Hallgrímsson, hið fullkomna þjálfarapar, og að vera að byrja að njóta þess að geta leikið knattspyrnu innan húss allt árið. 

Íslenska liðið vann verðskuldaðan sigur þótt Hollendingar væru meira með boltann.

Geri Hollendingar jafntefli í næsta leik sínum, erum við komnir áfram á EM, hvernig sem allt veltist.

Ofan á þetta voru íslensku áhorfendurnir í Amsterdam líka sigurvegarar í að láta í sér heyra, þrátt fyrir að vera tuttugu sinnum færri! 

 

Þetta er bara geggjað!  


mbl.is EM blasir við íslenska liðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi sem fróðlegt er að stilla upp.

Ef 50 flóttamenn hefðu verið fluttir til landsins eins og til stóð var um að ræða einn flóttamann á hverja 6600 íbúa Íslands og samkvæmt tölum í Fréttablaðinu í dag hefði það kostað um 5,5 milljónir alls að taka á mótihverri flóttakonu með tvö börn. 

Setjum sem svo að 330 flóttamenn yrðu fluttir inn, er það einn flóttamaður á hverja þúsund íbúa. 

Ef flóttamennirnir verða 200 og meðaltekjur á íslenska vinnumarkaðnum eru rétt innan við fimm milljónir á ári mun kostnaður við hverja flóttakonu með tvö börn verða sem svarar árslauna eins af hverjum 1-2000 launþegum, eftir því hvernig börnin eru metin.

Miðað við það að margar milljónir flóttamanna eru nú þegar í nágrannalöndum Sýrlands, þar sem íbúarnir eru miklu færri en í Evrópu og tekjur íbúa margfalt minni, bliknar flóttamannavandinn í Evrópu í samanburðinum.

Donald Trump gerir mikið úr því að 11 milljónir ólöglegra innflytjenda séu í Bandaríkjunum, en það er 14 sinnum hærri tala en þeir 800 þúsund flóttamenn, sem nú er mikið gert úr að séu að setja allt á hliðina í Evrópu og rústa ESB.

Samkvæmt því ættu Bandaríkin þegar að hafa liðast í sundur og hrunið, svo að notað sé orðalag, sem sumir nota nú um ESB.   


mbl.is Schengen að liðast í sundur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarna er fædd?

Íslendingar hafa eignast marga góða listamenn á sviði kvikmynda á alþjóðlegan mælikvarða síðan "Börn náttúrunnar", kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, var tilnefnd til Óskarsverðlauna.

Hún fékk ekki verðlaunin og máltækið að margir væru kallaðir en fáir útvaldir átti því við því í því tilfelli þótt litlu munaði. 

Síðar varð Björk Guðmundsdóttir fyrsta íslenska stóra alþjóðlega tónlistar- og kvikmyndastjarnan, en bið hefur orðið á því að íslenskur kvikmyndaleikstjóri kæmist á þann stall.

Flestar stórar kvikmyndastjörnur og kvikmyndaverk hafa verið umdeilanleg.

Aldrei fékk Alfred Hitchcock Óskarsverðlaun.

En val myndarinnar "Everest" sem opnunarmynd einnar af þekktustu kvikmyndahátíðum heims og það, hve margir virtist gagnrýnendur gefa henni allt að fimm stjörnur af fimm mögulegum bendir til þess að við Íslendingar séum að eignast stórt nafn á heimsvísu á sviði kvikmyndagerðar.

Á Hollywood-máli hafa orðin "a star is born" stundum verið notuð um slíkt.

Myndin Everest fær að vísu ekki einróma lof en kvimyndagerð Baltasars Kormáks hefur þegar vakið meiri athygli en nokkur önnur mynd Íslendings.

Ekki spillir þegar kynning myndarinnar í upphafi stórrar kvikmyndarhátíðar er út af fyrir sig afar vel heppnað "Hollywoodshow" þar sem glæsileg eiginkona hans og flott framkoma þeirra hjóna fá fimm stjörnur.     

 


mbl.is Everest fær fimm stjörnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Franskir bændur, áhrifamiklir langt út fyrir landsteinana.

Frakkland er áberandi dreifbýlla en Þýskaland, Ítalía, Bretland og fleiri nágrannalönd. Áhrifa þess hefur gætt á mörgum sviðum fransks þjóðlífs og menningar. 

Þegar Citroen 2CV og Renault 4 voru hannaðir, voru þarfir franskra bænda hafðir í huga, með því að hafa þessa bíla með mikla veghæð og langa, mjúka fjöðrun til að fara mjúklega yfir lélega malarvegi, slóða og akra. 

Citroen-bragginn átti að standast þær kröfur að hægt væri að aka yfir plægðan akur með glás af eggjum án þess að nokkurt þeirra brotnaði. 

Byltingarkennd vökva-loftfjöðrun Citroen DS var undramjúk og með stillanlegri veghæð. 

Franskir bændur hafa alla tíð verið harðir aðgerðarsinnar og öflugir í að halda hagsmunum sínum fram.

Rekja má gríðarlega ríkisstyrki allra Evrópulandanna til landbúnaðar til forystuhlutverks franskra bænda lungann úr síðustu öld og þar með til ábyrgðar þeirra á einhverju mesta óréttlætinu í heimsbúskapnum, sem felst í niðurgreiðslu- og styrkjakerfi vestræns landbúnaðar sem kemur í veg fyrir að suðrænni lönd geti nýtt sér landkosti sína.

Öll þróunarhjálp vestrænna landa er aðeins lítið brot af þeim fjármunum, sem með þessu er rænt frá fátækum landbúnaðarþjóðum utan Frakklands.

Og lítið stoðar að minnka styrkjakerfi landbúnaðarins í öðrum löndum Evrópu en Frakklandi á meðan franskir bændur eiga vélaherdeildir mörg þúsund traktora ( hugsanlega fengna á niðurgreiddu verði) til þess að sækja til Parísar í þeim mæli, að minnir helst á sóknir vélaherdeilda Rommels 1940 og Pattons 1944.    


mbl.is Bændurnir koma - til Parísar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband