Volkswagenmálið ekki talið of "viðkvæmt" eins og mál svínabúanna hér.

Svindmál Volkswagenverksmiðjanna snerti beint ekki hvern eiganda bílanna, sem voru með svindlbúnaðinn.

Þeir hefðu aldrei orðið varir við hann nema vegna þess að það tókst að koma upp um svindlið. 

Að sjálfsögðu kom ekki til greina hjá yfirvöldum að leyna því hvaða framleiðandi var brotlegurog kom áreiðanlega ekki einu sinni til umræðu að það væri of "viðkvæmt" mál.

Þaðan af síður að gefa Volkswagenverksmiðjunum allt að tíu ár til að taka til hjá sér.   

Hér á landi eru brot framleiðenda svínakjöts hins vegar talin vera of "viðkvæm" til þess að upplýst verði um hina brotlegu. 

Í staðinn verða allir framleiðendurnir að liggja undir grun almennings. Nú er upplýst að ekkert svínabú á landinu sem slátrar fleiri en 200 grísum á ári uppfyllir allar reglur um aðdbúnað dýranna og menn láta sem ekkert sé.  

Erlendis voru viðbrögð kaupenda VW-bílanna víða hörð, ákveðið að fara í skaðabótamál og öllum innflutningi bíla með vélunum, sem voru með svindl-búnaðinn, var hætt til Sviss, svo dæmi séu tekin. 

Hér á landi yppta menn hins vegar öxlum af fádæma kæruleysi. Hinum brotlegu er gefinn allt að tíu ára frestur til að bæta sitt ráð. 

Stjórnlagaráð ákvað að hafa eina grein í frumvarpi sínu að stjórnarskrá um dýravernd. 

Með því að stjórnarskrárbinda þetta stóra mál, sem er orðið svo fyrirferðarmikið í búskap þjóðanna, er meiri von til þess að því sé fast fylgt eftir. 

Því miður er svo að sjá sem að það hafi verið full þörf á því. 


mbl.is Orðspor greinarinnar í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kyndilberi mannréttinda að öllu leyti ?

Í tveimur heimsstyrjöldum komu Bandaríkjamenn til hjálpar til að skakka leik, þegar kristnum þjóðum í Evrópu hafði mistekist að ástunda friðarboðskap kristinnar trúar. 

Bandaríkjamenn lögðu fram fjórtán punkta Wilsons um sanngjarna og lýðræðislega lausn pólitískra vandamála eftir stríðið, stóðu fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu þeirra eftir síðara stríðið og stórfelldri aðstoð við Evrópuþjóðir, Marshall-aðstoðinni. 

Síðan þá hafa margir litið til þeirra sem kyndilbera mannréttinda og frelsis í heiminum

Engu að síður minnir sumt í réttarfari þessarar merku þjóðar frekar á ástandið í þeim málum hjá þjóðum eins og Sádi-Aröbum, Pakistönum og Kínverjum. 

Það má merkilegt heita. 


mbl.is Aftakan tókst í þriðju tilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegagerðin versti skussinn ? Svo er að sjá.

Á fundi sem haldinn var í fyrra á Grand hóteli í Reykjavík birti ágæt ung kona niðurstöður háskólaritgerðar um það hvernig fyrirtæki á borð við Landsvirkjun, Orkuveituna, Vegagerðina og Landsnets brygðust við mati á umhverfisáhrifum og álitsgerðum Skipulagsstofnunar. 

Ég þekki mörg slæm dæmi um aðfarir Landsvirkjunar í gegnum árin þótt yfirleitt sé hægt að benda á ágætis frágang hennar á virkjanamannvirkjum sínum. 

En niðurstaða fyrrnefndrar háskólaritgerðar kom á óvart: Vegagerðin var í algerum sérflokki varðandi það að hunsa og koma sér framhjá úrskurðum og álitsgerðum varðandi umgengni við náttúru landsins og umhverfið.

Nefnd voru fjölmörg dæmi um það að hún mat umhverfisáhrif allt önnur en gert var í mati á umhverfisáhrifum eða áliti Skipulagsstofnunar, svo sem að umtalsverð áhrif væru lítil og lítil umhverfisáhrif engin. 

Þetta er samt ef til vill ekki svo óvænt miðað við framgöngu hennar í Gálgahrauni, sem senn fer að komast í betra ljós, þegar búið verður að gera öryggisúttekt á veginum þar. 


mbl.is Landvernd kærir Vegagerðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband