Víetnam, Íran, Afganistan tvisvar, Írak tvisvar, Sýrland núna.

Risaveldin, Sovétríkin og Bandaríkin, eða eigum við að segja Rússar og Kanar, eiga að baki furðu langan og samfelldan feril kolrangs mats á aðstæðum í fjarlægum löndum.

Á sjöunda áratugnum mátu Bandaríkjamenn þjóðfrelsisbaráttu Víetnama út frá níðþröngum Kaldastríðssjónarmiðum og héldu að yfirburða bandarísk hernaðartækni myndi skipta sköpum.

"Dómínukenningin" svonefnda gekk ekki eftir, því að sjónarmið Víetnama voru byggð á allt öðrum grunni en sú skipting í hvítt-svart, kommúnismi-vestrænt lýðræði, sem risaveldin stilltu upp. Undir lok Víetnamstríðsins brutust út hernaðarátök milli Víetnama og Kínverja, sem hvorir tveggja voru með kommúniska stjórn.  

Árið 1979, gerðu bæði ríkin, Bandaríkin og Sovétríkin, mikil mistök. Bandaríkjamenn héldu að Resa Palevi Íranskeisari, væri framtíðarleiðtogi í Miðausturlöndum og frábær fyrirmynd.

Þetta var hroðalegur misskilningur. Palevi var orðinn gerspilltur og kominn með mikilmennskubrjálæði vegna mikilla auðlinda landsins og það var aðeins spurning um hvenær honum yrði steypt.

Rússar réðust inn í Afganistan 1979 til að hrekja öfga íslamista frá völdum, sem höfðu steypt stjórn, sem var hliðholl Rússum.

Þetta reyndist svo afdrifaríkt vanmat á aðstæðum, að þessi misheppnaða herferð var ein af nöglunum í líkkistu Sovétríkjanna.

Bandaríkjamenn studdu Talibana með ráðum og dáð og horfðu á málið frá níðþröngu sjónarhorni Kalda stríðsins.

Kanarnir höfðu ekkert upp úr þessu nema að sá fræjum haturs í landinu, sem síðar leiddi af sér jarðveg fyrir árásina á Tvíburaturnana.

Í stríði Írana og Íraka studdu Bandaríkjamenn Saddam Hussein og það fór á svipaða lund og varðandi stuðning þeirra við Talibana í Afganistan, að skepnurnar snerust gegn skapara sínum. 

Bush eldri Bandaríkjaforseti fór að ráðum góðra ráðgjafa og hætti Flóastríðinu áður en til þess kæmi að að hertaka Bagdad og steypa Saddam Hussein.

Bush yngri hélt að hann yrði föðurbetrungur með því að ráðast á landið á fölskum forsendum og hafði ekkert upp úr því nema mannfall upp á mörg hundruð þúsund manns og grunninn að því ástandi sem nú ríkir í stórum hluta landsins, sem er á valdi Ríki Íslams.

Rússar hafa alla tíð stutt Assad einvald og harðstjóra í Sýrlandi, og hefur afar kalt mat ráðið því, sem sé það, að þótt Assad sé slæmur, sé þó nokkurn vegið vitað hvar menn hafa hann, en öðru máli gegni um byltingaröfl, sem enginn viti fyrirfram hvað muni leiða af sér.

Nú sést, að þær vonir Bandaríkjamanna og Vesturlandabúa, að "Arabíska vorið" sprytti fram hjá fjöldahreyfingu Araba, sem aðhylltust vestræna stjórnarhætti, voru algerar tálvonir.

 

Þvert á móti varð þetta ástandi gróðrastía hinna örgustu öfgaafla. 

Afleiðingar þessa ranga mats og þess hugsunarháttar að setja eingöngu vestræna mælikvarða á öll átök í fjarlægum heimshlutum með allt aðar sögu og menningu en hjá Vesturlandabúum, blasa nú við í allri sinni nekt.    


mbl.is Pútín sá vandann fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveimur sérstæðustu vötnum Íslands ógnað.

Þingvallavatn og vatnasvið þess eiga enga hliðstæðu í heiminum, ekki aðeins varðandi jarðfræðilegt gildi, heldur jafnvel enn frekar hvað varðar tærleika og ósnortna náttúru. 

Sótt hefur verið að þessu jafnt og þétt undanfarna áratugi, allt frá því er Alþingi hóf að úthluta sumarbústaðalóðum þar fyrir hálfri öld til þess að auka svo umferð á alla lund og setja niður stóra gufuaflsvirkjun við suðurendanna, sem þar að auki felur í sér rányrkju, að þessum gimsteini á heimsvísu er ógnað. 

Í stað þess að stytta leiðina milli Reykjavíkur og uppsveita Árnessýslu fyrir sunnan vatnið var það gert við norðausturenda þess þannig að nítur frá útblæstri berst í vatnið samkvæmt rannsóknum Péturs Jónassonar. 

Og arsen hefur fundist í sunnanverðu vatninu, enda rennur affall frá Nesjavallavirkjun í átt að því. 

Mývatn, annað tveggja sérstæðustu vatna Íslands, er enn meira ógnað en Þingvallavatni. 

Hafið var kísilgúrnám í vatninu fyrir um 40 árum og sett niður Kísilverksmiðja skammt austan við austurbakkann. Hverju sem um var að kenna fór lífrikinu að hraka í hrinum, og hefur aldrei verið verr á sig komið en í sumar. 

Þegar Íslendingar viðruðu þá hugmynd að setja Mývatn á Heimsminjaskrá UNESCO fyrir um 20 árum var sú hugmynd að sjálfsögðu hlegin út af borðinu. 

En þetta er ekki nóg. Sívaxandii byggð og umferð við vatnið felur í sér vaxandi mengun og það er staðfastur vilji að fyrir árið 2025 verði reist 90 megavatta gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi, aðeins örfáa kílómetra frá austurbakka vatnsins. 

Hún verður talin nauðsynleg vegna þeirrar yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar, að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær verður lagður sæstrengur til Skotlands, og að þess vegna verði brýn nauðsyn á að tvöfalda rafmagnsframleiðslu Íslands fyrir 2025. 

 


mbl.is Silfra nálgast öryggismörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband