Glyttir í jákvæð áhrif á gagnstæðan vanda, öldrun þjóðanna.

Allar rannsóknir á aldursamsetningu Evrópuþjóða hníga að því að á næstu áratugum muni þær verða fámennari og aldraðir og lífeyrisþegar miklu stærri hluti þessara þjóða en nú er. 

Það þýðir, að æ færri verði að vinna fyrir æ meiri fjármunum, sem verja þarf í heilbrigðis- og velferðarkerfið, sem er stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Aðeins tvennt er mögulegt til þess að breyta þessu. 

1. Að barnsfæðingar verði mun fleiri en nú er svo að ungu fólki fjölgi sem vinni nauðsynleg störf. Litlar líkur eru á því að fæðingum fjölgi, jafnvel þótt reynt yrði að auka aðstoð við barnafólk. Ungt fólk giftir sig mun seinna en áður var og eignast færri börn, - tímir ekki að eyða of miklu af lífinu í þetta hlutverk. 

2. Að flytja inn fólk á heppilegum aldri til að vinna nauðsynleg störf í starfsgreinum, sem mannekla er í. Dæmi um þetta eru útlendingarnir, sem hafa komið til bjargar atvinnulífinu úti á landi hjá okkur til að vinna þau störf þar, sem annars hefur verið erfitt að manna. 

Í nær allri umfjöllun um flóttamannastrauminn mikla til ríkja Evrópu vantar að nefna þetta atriði.

Dæmi um þetta er hinn mikli fjöldi innflytjenda, sem vinna láglaunastörf eða verksmiðjustörf og þjónustustörf í Evrópu og Bandaríkjunum, svo sem Tyrkir í Þýskalandi.

Flóttamenn nú munu því breyta Þýskalandi eins og Angela Merkel spáir, rétt eins og Tyrkir og aðrir innflytjendur hafa þegar gert.  


mbl.is Mun breyta Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og dagur og nótt.

Forsætisráðherra getur á stundum haft býsna mikil völd og áhrif en þó ekki svo mikil að hann geti með einni setningu opnað eða lokað öllum skemmtistöðum að næturlagi. 

En í hita leiksins, í þessu tilfeli hita leiksins utan leiksins, er skiljanlegt að menn láti ýmislegt flakka í fljótfærni.

Í fréttum mátti fyrst heyra að forsætisráðherrann hefði lofað landsliðinu á facebook að allir skemmtistaðir í miðborginni yrðu opnir um nóttina, en síðar brá því fyrir í hádegisfréttum að að ekki hefði verið sótt um leyfi hjá borgarstjóra til að hafa staðina opna að þess vegna hefði lögreglan lokað þeim. 

Sjálfsagt er að sýna misskilningi og aðgerðum lögreglu skilning, sem og fljótfærni SDG í hita leiksins skilning og umburðarlyndi, enda gæti dagskipun, - afsakið næturtilskipun Sigmundar Davíðs í anda Pútíns hafa verið sungin á þessa lund ef hún hefði verið gefin í enn meira stuði, en með sömu afleiðingum vegna misskilning:  

 

Tækifærið nú skyldi nýtt, - 

í nafni Simma sprengdur lás.

Barirnir opnir breitt og vítt,

bjórinn og snitturnar, svaka glás,  

veisluföngin veitast frítt, 

og vínið að sjálfsögðu "on the house." 

 

Þótt EM stæði þeim opið nú, 

of mikil var landsliðsins trú, -

lífsgleðin breyttist í leiða og sút

þegar löggan kom og henti þeim út. 

Því Dagur veit muninn á degi og nóttu, 

til Dags átti að leita´ef um leyfi þeir sóttu.

 

Nautnirnar umvafði næturdimma 

í nafni Dags en ekki Simma.  

 

 

 

 


mbl.is Lögreglan lokaði börum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegirnir á þessu svæði enn í engu samræmi við umferðina.

Þrátt fyrir nýjan veg að Dettifossi að vestanverðu eru vegirnir enn, sitt hvorum megin við Jökulsá á Fjöllum, enn að mestu leyti í engu samræmi við þá miklu ferðamannaumferð sem þarna er og þær gríðarlegu tekjur sem hún gefur. 

Í hvert sinn sem ekið er um þessar slóðir, er maður minntur á að litlar framfarir hafi orðið í vegagerð frá því fyrir 1946 þegar brú var gerð yfir Jökulsá fyrir vestan Grímsstaði. 

Fram að því hafði þjóðleiðin legið áratugum saman yfir Reykjaheiði, um Kelduhverfi, yfir Jökulsá austan Ásbyrgis og suður um Hólsfjöll.

Stórslys á einbreiðri brú yfir Hólsselskíl með afvegaleiðandi merkingu sagði sína sögu um það ástand vega og brúa sem enn hefur lítið batnað síðustu 80 ár.

Því ber að fagna því að loksins eigi að ráðast í langþráðar vegabætur, þótt betur megi ef duga skal.  


mbl.is Langþráðar vegabætur hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband