Hvers vegna þessir "flækjufætur"?

Áratugum saman hef ég undrast hvers vegna er þess krafist að sýningarstúlku gangi á himinháum og mjóum hælum með göngulagi, sem ég hef aldrei séð nokkurn vera með annars staðar en hjá sýningarstúlkum og keppendum í fegurðarkeppni, enda myndi flest venjulegt fólk detta á hausinn ef það gengi svona.  

Enda getur enginn komist neitt áfram af viti ef hann notar svona flækjufótagöngulag. 

Ef það er rétt hjá Örnu Ýr Jónsdóttur að harðar æfingar í ofangreindum fíflagangi í undirbúningi fegurðarkeppni hafi gengið svo nærri henni að hún hafi meiðst á ökklum og glímt við sársauka af þeim sökum verður undrunin enn meiri yfir þessum aðförum.

Að ekki sé nú talað um tilboð eiganda keppninnar um að "hagræða" útliti Örnu Ýrar með því að setja silikon í brjóst hennar.  


mbl.is Viðurkennir að hafa sagt hana of feita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægir þættir gleymast alveg.

DSCN7958 (1)Það ber að fagna því að öll þau framboð, sem geta samkvæmt skoðanakönnunum fengið þingmenn kjörna í komandi kosningum, hafa lýst sig fylgjandi rafbílavæðingu lands, sem býr yfir gnægð raforku, sem ekki er unnin úr jarðefnaeldsneyti. 

En þar að auki verður að nefna atriði, sem alveg gleymist, en það er væntanleg þurrð á jarðefnaeldsneyti jarðar á þessari öld, sem er ekki síðri ástæða til þess að huga að jafnrétti kyhslóðanna, að ein kynslóð hrifsi ekki skefjalaust til sín takmörkuð gæði frá komandi kynslóðum. Náttfari við Engimýri

Alveg gleymist að útskipti á orkugjöfum verða háð tækniframförum, og eins og tæknin er nú í gerð rafbíla, nýtast þeir langbest í notkun í borgum, en ekki eins vel úti á þjóðvegum. 

Uppgefið drægi á mest seldu rafbílunum nú er um 170 kílómetrar. En drægið minnkar mikið við það að ekið sé í lægri hita en 15 stigum, svo mikið, að stundum er það varla meira en 60% af uppgefnu drægi.

Við þetta bætist, að hraðhleðsla skilar ekki alveg eins miklu og venjuleg hleðsla, sem tekur lengri tíma.  Renault Twizy

Það þýðir, að sé ætlun manns til dæmis að fara fram og til baka á rafbíl milli Reykjavíkur og Akureyrar, þarf hann að stansa minnst tvisvar að sumarlagi til að hraðhlaða í ríflega hálftíma, sem er svo sem engin frágangssök.

En sé veður kaldara gætu þetta orðið þrjár eða jafnvel fjórar áningar.

Rafbílar eru líka dýrir og kolefnissporið vegna framleiðslu þeirra og förgunar stórt.

Ég hef í eitt og hálft ár fengist við það verkefni að finna leið til að minnka útblástur og eyðslu af völdum persónulegra ferða minna, ekki aðeins innan borgar, heldur einnig vegna viðfangsefna minna sem liggja víða um land.Léttir%2c ská aftan frá

Þrennt hefur aðallega hamlað:  

1. Kostnaður. Ég hef ekki efni á því að kaupa fjögurra milljón króna rafbíl, ekki einu sinni tveggja milljón króna örlítinn rafbíl eða nógu hraðskreitt rafhjól.

2. Hraði. Ef nauðsyn er að vera fljótur í ferðum innanbæjar, fer rafreiðhjól ekki jafnhratt yfir og bíll, nær í mesta lagi 20 kílómetra meðalhraða á klukkustund. Rafhjól, sem ná meiri hraða, eru dýr og drægið samt ekki nógu mikið. 

3. Drægi. Ef ferðin er lengri en ákveðin vegalengd, þarf að stansa og bíða eftir því að hægt sé að hlaða rafgeymana.Ódýrasta rafhjólið. Yahama EC

Ég hef legið undanfarin misseri í könnunum á samgönguflotanum, allt frá örlitlum samanbrjótanlegum hjólum upp í Tesla S og í ljós hefur komið, að ótrúlega miklum árangri má ná með því að gera það, sem raunar blasti við mér á unglingsárum, þegar fyrsti bíllinn sem ég eignaðist, var minnsti, einfaldasti, ódýrasti, sparneytnasti og umhverfisvænsti bíll, sem þá var fáanlegur, NSU Prinz.Suzuki Alto´2014

Fyrir tveimur árum fékk konan mín sér Suzuki Alto, sem á því augnabliki var sá bíll bílaflotans, sem var í senn ódýrastur og sparneytnastur.

Ég fór hins vegar þá leið, að öngla saman í 450 þúsund króna fjárfestingu, Honda PCX bensínknúið vespuhjól.

Hef nefnilega verið þeirrar skoðunar að sú leið að minnka farartækin, eyðslu þeirra og rýmisþörf á vegum og stæðum, sé bæði fljótlegust og einföldust. 

En það þýðir ekkert að vera að tala um þetta ef ekki liggur fyrir reynsla og sannanir.Honda PCX hjá Möðrudal. Kverkfjöll 

Þess vegna krækti ég í þetta hjól og eftir þriggja mánaða reynslu og 4500 kílómetra akstur liggur þetta fyrir:  

Vespuhjólið eyðir þrisvar sinnum minna innanbæjar en Súkkan og fjárfestingin er fjórum sinnum minni. Ég get farið um allt land jafnhratt og langt og ég væri á bíl.

Skrapp til að sinna erindum á Siglufirði á einum degi nú í september, fór af stað um morguninn og kom heim um kvöldið.

Er búinn að fram og til gaka milli Reykjavíkur og Egilsstaða jafnhratt og á bíl og ók hringinn þar með, en gætti samt fyllsta öryggis varðandi hvíld í 6 stundir á Egilsstöðum og áningu á Akureyri í 3 stundir.Tesla S, Gísli Gíslason, Ak

Bloggaði nokkra pistla og setti myndir og frásagnir á facebook á meðan á þessari ferð stóð. 

Nýr Yaris fellur í verði á fyrsta árinu um svipaða upphæð og hjólið "Léttir" kostar nýtt. 

Umhverfislegur kostur hjólsins er yfirgnæfandi og blasir við: 

2 hjól í stað 4. 

1 strokkur í stað 4. 

Átta sinnum minna rúmtak vélar. 

130 kíló í stað 1100. 

Þrisvar sinnum minni eyðsla og útblástur. 

Fjórum sinnum minna pláss/flatarmál á götunni.

Augljóslega minnsta kolefnissporið við framleiðslu og förgun.  

Það þarf ekki endilega 1300 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti. 10 til 50 sinnum léttara farartæki nægir og hannaðir hafa verið smábílar, sem eru aðeins rúm 400 kíló en standast fyllstu öryggiskröfur. 

Með samræmdri notkun rafreiðhjólsins Náttfara og vespuhjólsins Léttis hefur þegar tekist að minnka útblástur og eyðslu hjá mér um 70%, og er þá tekin með í reikninginn, að auðvitað koma þau tilfelli þegar grípa verður í bíl í stað hjóls, annars væri minnkunin vel yfir 80%.

Eftir eins og hálfs árs reynslu af notkun rafreiðhjóls og vespuhjóls hefur komið í ljós að mótbáran um að slæm veðrátta hamli, er stórlega ýkt. 

Mótbáran um að þetta sé ekki á allra færi líkamlega séð er líka stórlega ýkt fyrst ósköp venjulegur elliborgari á 77. aldursári getur rúllað hringinn á rúmum sólarhring eða skroppið til Siglufjarðar, rekið þar erindi sín og komið til baka sama daginn.

Þess má geta að rafhjólið á myndina fyrir ofan myndina af Altonum, er ódýrasta rafhjólið, sem ég hef fundið á þýska markaðnum, Yahama EC, býðst fyrir 2555 evrur og nær 45 kílómetra hraða.

Myndi líkast til kosta í kringum hálfa milljón hér heima. 

Dýrustu rafhjólin á markaðnum, svo sem hið bandaríska Zero, kosta tíu sinnum meira, ná meira en 160 kílómetra hraða og hafa allt að 300 kílómetra drægi. 

Á neðstu myndinni af Létti er horft í átt til Möðrudals með Kverkfjöll við sjóndeildarhring.

Neðsta myndin er tekin úr ferð á Teslu S hringinn, sem tók 30 stundir í fyrra.

Léttir fór hringinn á 31 klst.  

 

 

 


mbl.is Hver er stefnan um framtíð jarðar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um gullgrafarahugsunarháttinn.

Eftir að búið var að tala niður alla aðra möguleika til "atvinnuuppbyggingar" hér á landi aðra en stóriðju fyrsta áratug þessarar aldar, og það nefnt "eitthvað annað" í háðungarskyni, tók Eyjafjallajökull sig til og gaus með þeim afleiðingum að það truflaði samgöngur um allan heim. 

Þá virtist endanlega úti um Ísland og orðstír landsins að fljótfærnislegum dómi margra. 

En þvert á móti reyndist þetta eldgos upphafið að eins konar gullæði fyrir landann í formi flóðs af erlendum ferðamönnum í krafti þess, að loksins fékk Ísland þá kynningu sem "land like no other" eins og stendur í vandaðri mynskreyttri fræðibók um 100 stór undur veraldar. 

Bílaleigujeppinn svonefndi í Mývatnssveit, sem kannski ætti frekar að kalla bílapartajeppa, er eitt fjölmargra dæma um gullgrafarahugsunarháttinn sem hefur gripið svo marga í ferðamannaflóðinu. 

Annað dæmi um hann einmitt þessa dagana er það ófremdarástand, sem myndast hefur á þeim fjölmörgu stöðum í Reykjavík, þar sem hvers kyns hótel og gististaðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur án þess að hugað hafi verið að nauðsynlegu aðgengi eða aðstöðu til að koma ferðamönnunum til og frá gististaðnum.

Á fróðlegum fundi um umferðarmál, sem ég sat í gærkvöldi, kom meðal annars fram að á næsta aldarfjórðungi muni íbúum Reykjavíkur fjölga um 70 þúsund.

Ég greindi fundarmönnum frá persónulegum ráðstöfunum mínum til að minnka bensíneyðslu og útblástur vegna ferða minna í borginni og út um allt land um 70% nú þegar.

Einnig hefur það rými, sem hjólin mín, rafreiðhjól og bensínknúið vespuhjól, taka í gatna- og vegakerfinu, minnkað um 80%.

Ég minntist líka á það hvernig austrænar þjóðir, svo sem Japanir og Tævanir, hafa gert ráðstafanir, Japanir um áratuga skeið, en Tævanir nú nýlega, til þess að minnka umfang og sóun vegna samgöngutækja sinna.

Þetta virtist koma fundarmönnum mjög spánskt fyrir sjónir.  


mbl.is Ekki skráður sem bílaleigubíll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband