Óvenjulegt á Íslandi.

Það hefur verið einkenni íslenskra stjórnmálamanna að þráast við að taka ábyrgð á því, þegar blasað hefur við að þeim hafi mistekist ætlunarverk sitt. 

Afsögn Oddnýjar G. Harðardóttur, aðeins sólarhring eftir að úrslit í kosningum lágu fyrir, sætir því tíðindum og sýnir kjark, ábyrgðartilfinningu og heiðarleika. 

Því miður hafa ísenskir stjórnmálamenn komist upp með að sitja sem fastast og þrauka þar til að þeir, sem vildu að þeir öxluðu ábyrgð, létu gleymsku og kæruleysi hrekja sig frá því að láta viðkomandi stjórnmálamenn sæta ábyrgð og jafnvel verðlaunað þrjóskukindurnar eins og nú hefur gerst varðandi forystufólk Sjálfstæðisflokksins.  

Í vor sagði Vilhjálmur Þorsteinsson strax af sér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar þegar það lá fyrir að hann hefði átt fé erlendis, á sama tíma sem forystufólk Sjálfstæðisflokksins sátu sem fastast.

Það er því kaldhæðnislegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa aukið fylgi sitt og segir kannski meira um kæruleysi og ábyrgðarleysi stórs hluta íslenskra kjósenda en um ábyrgðartilfinningu þeirra, sem létu sem ekkert væri.  


mbl.is Oddný hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri svipaðir kostir í stöðunni. Framsókn gæti fengið útspil.

Minnihlutastjórnir hafa nokkrum sinnum setið hér á landi og þær hafa verið algengar í nágrannalöndunum. 

Stjórn Framsóknarmanna 1927-31 var hvað formið varðandi minnihlutastjórn, en Alþýðuflokkurinn veitti henni stuðning og hét að verja hana vantrausti. 

Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórnir Sjálfstæðisflokksins 1942 og 1949, Emil Jónsson minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1958-59, Benedikt Gröndal minnihlutastjórn Alþýðuflokksins 1979-80 og Jóhanna Sigurðardóttir minnihlutastjórn 2009. 

Í þessi fimm skipti var ekki farið í "samkvæmisleikinn" með langvarandi tilraunir til myndunar meirihlutastjórna, heldur var tíminn notaður vel, enda knappur. 

Einn kostur, sem nefndur hefur verið, er stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisngar og Bjartrar framtíðar. 

Helsti galli þeirrar hugmyndar er að sú stjórn myndi aðeins hafa eins atkvæðis meirihluta á þingi og að það er svolítið stór biti að kyngja fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn með slíkri stjórnarmyndun. 

En Framsóknarflokkurinn gæti átt spil á hendi þrátt fyrir að vera lítt stjórntækur vegna óuppgerðra mála innan flokksins, til dæmis með því að bjóða upp á hlutleysi eða jafnvel stuðning við ríkisstjórn, án þess að eiga beina aðild að stjórninni eða ráðherra í henni. 

Þar með myndi vandinn vegna hugsanlegs ráðherradóms Sigmundar Davíðs. 

Framsóknarflokkurinn varði minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009 með nokkrum skilyrðum og gæti notað útspil af þessu tagi ef svipuð staða kæmi upp nú.

Eitt þessara skilyrða Framsóknar var að gerð yrði ný stjórnarskrá!

 

Útspil Pírata núna beinist að því að koma koma bæði Sjálfstæðisflokki og Framsókn úr stjórn.   


mbl.is Vilja styðja minnihlutastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitruðu peðin hjá Framsókn, Sigmundur Davíð og Jónas frá Hriflu.

Athyglisvert er hve fáir ræða þann möguleika að Framsókn gæti orðið með í stjórn ásamt öðrum miðjuflokki, Viðreisn eða í miðju-vinstri stjórn án Sjálfstæðisflokksins.

Af því að Framsókn skilgreinir sig sem miðjuflokk ætti það að vera óskastaða þegar mynda þarf margra flokka stjórn.  

Tvisvar í dag hefur í umræðum forystumanna flokkanna verið tæpt á vandanum varðandi Framsókn, það "eitraða peð" sem felst í nokkuð sterkri stöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem hann ávann sé með því að skrópa á þingi og hamast í kjördæmi sínum fyrir kosningarnar, svo að þar er staðan ekkert lakari en í Suðurkjördæmi hjá Sigurði Inga Jóhannssyni. 

Einn af forystumönnum flokkanna minntist á það í dag að Sigmundur Davíð væri vís til að krefjast ráðherraembættis ef Framsókn yrði með í stjórn. 

Sigurður Ingi minntist á þetta lauslega í dag í viðtali, þar sem hann sagði, að það ætti eftir að "græða sárin" innan flokksins og fylkja honum einhuga á ný. 

Af þessu má ráða, að á meðan Framsókn er í núverandi ástandi, lítist öðrum flokkum ekkert vel á að vera með Framsókn í stjórn nema þá að SDG verði ekki ráðherra. 

Það er til fordæmi fyrir svona ástandi í Framsókn.  Flokkurinn myndaði þrjár ríkisstjórnir á árunum 1932 til 1946, og í öll skiptin var það ómögulegt að dómi samstarfsflokkanna, nema að Jónas Jónsson frá Hriflu væri utan stjórnar. 

Og þannig var það, jafnvel þótt Jónas væri formaður flokksins 1934-46 og af mörgum talinn stjórnmálamaður síðustu aldar. 


mbl.is Útilokar eingöngu Pírata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband