"Að gera frostlögin bragðvondann"?

Ágætis frétt er á mbl.is í kvöld um frostlög, sem gerður er bragðvondur til þess að ekki sé hægt að eitra fyrir ketti með honum. 

Því miður gengur í gegnum alla fréttina hreint ótrúleg grundvallarritvilla, þannig að í öll fjögur skiptin, sem talað er um frostlög í þolfalli með greini, er ritað eitt n í lok þessa nafnorðs, talað um "frostlögin". 

En nafnorðið "frostlögin" gæti verið heiti á sönglögum um vetur og kulda, sem menn syngja til dæmis þorrablótum. 

Gott dæmi er lagið Þorraþræll. 

Til að kóróna stafsetningarruglið  er strax í upphafi fréttarinnar talað um efni, "sem gerir frostlögin bragðvondann", -  sett tvö n í lok lýsingarorðsins en ríghaldið í eitt en í greini nafnorðsins frostlögur. 


mbl.is Bitri frostlögurinn freistar ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir ýktar af andláti víðfeðmustu flugeldasýningar Evrópu?

Sjá hefur mátt á samfélagsmiðlum í dag miklar áhyggur og jafnvel reiði yfir því að ESB ætli að ganga af íslensku flugeldaskotahefðinni dauðri um næstu áramót. 

Hins vegar er svo að sjá af tengdri frétt á mbl.is að ekki verði hróflað við 70% af núverandi framboði flugelda, en að 30% af núverandi úrvali flugelda verði skipt út fyrir aðrar tegundir sem að vísu verði ekki eins stórkarlalegar og þær risatertur, sem eiga að hverfa, en muni samt þjóna sama tilgangi um heildarútlit víðfeðmustu flugeldasýningar Evrópu.

Síðan er það önnur spurning, hvort við eigum að hunsa tilskipun ESB og breyta engu.

En þá verður líka að liggja nokkurn veginn ljóst fyrir hve mikil breyting yrði við það að fara eftir kröfum ESB.  


mbl.is Hætta að selja 30% af flugeldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump, F-35, og hinn þýski Tiger.

Á öllum tímum hafa verið uppi stórhuga hernaðarsérfræðingar sem hafa ýmist látið sig dreyma um hrikaleg stríðstól eða jafnvel hrint smíði þeirra í framkvæmd. 

Í kringum 1970 voru uppi stórfengleg áhorm um geðveikislega stóra sprengjuþotu, svonefnda Valkyrju, sem yrði að leysa hina úreltu B-52 af hólmi. 

Í ljós kom að hugmyndin um Valkyrjuna var fullkomlega óraunhæf vegna þess hve óskaplega dýr, flókin og viðkvæm hún var.  Og enn í dag er B-52 í notkun, meira en 60 árum eftir að hún var hönnuð. 

Þetta leiddi hugann aftur til ársins 1943 þegar Þjóðverjar hugðust snúa stríðsgæfunni á austurvígstöðvunum við með því að tefla fram lang öflugasta skridreka þess tíma, ofurskriðdrekanum Tiger, en sagt var að einn slíkur dreki hefði í fullu tré við 10 rússneska T-34 skriðdreka. 

Tiger átti að verða lykillinn að sigri í stærstu skriðdrekaorrustu sögunnar við Kursk. 

Þetta misheppnaðist gersamlega. Tiger var alltof dýr í framleiðslu, þurfti allt of marga menn til viðhalds, var alltof bilanagjarn og einfaldlega alltof flókin smíð.

Aðeins tókst að framleiða um 1800 skriðdreka af þessari gerð, en Rússar framleiddu meira en 80 þúsund T-34 skriðdreka.

Gríðarlega flókin orrustu- og sprengjuþota með hreyfanlega vængi átti að verða skæðasta vopn Bandaríkjahers á árunum eftir Valkyrju-ævintýrið, en örlög hennar urðu litlu skárri.

Á flugsýnningu í París ætluðu Bandaríkjamenn að sýna yfirburða orrustuþotu, X-31, sem átti að geta flogið með stefnukný nánast eins og þyrla í viðbót við mikla alhliða getu.

Sýningin mistókst að mestu og Rússar stálu senunni á Sukhoi-37 sem varð glæsilegasta sýningaratriðið.

X-31 hvarf hljóðlega af sjónarsviðinu.

Nú er ætlunin að framleiða F-35 þotuna, sem á að verða afburðavél. Kostnaðurinn við gerð hennar rýkur upp og Donald Trump hefur boðað, að hætt verði við framleiðslu hennar.

Sömuleiðis að hætt verði við gerð nýrrar og rándýrrar forsetaþotu á meðan sú gamla gerir það bara gott.

Líklega skynsamlegar ákvarðanir hjá honum og honum ekki alls varnað.  


Ástandið nú keimlíkt því sem var í janúar 1980.

Eftir þingkosningar í byrjun desember 1979 skall á svipað ástand og nú á vettvangi íslenskra stjórnmála. Þáverandi forseti setti í gang gamalkunna "hringekju" þar sem hver formaðurinn á fætur öðrum fékk stjórnarmyndunarumboð, stýrði stjórnarmyndunarviðræðum ákveðinna flokka, gafst upp og afhenti umboðið að nýju. 

Frá því fyrr um haustið hafði setið minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, nokkurs konar starfsstjórn, varin vantrausti af Sjálfstæðisflokknum. 

Sex vikum eftir kosningar var ástandið keimlíkt því sem það er nú, formenn búnir að reyna, enginn hafði umboðið, og þing og minnihlutastjórn voru að störfum. 

Í kosningum til nefnda þingsins höfðu flokkar ýmsa möguleika á samstarfi, en vegna þess að þingið var í tveimur deildum, var ástandið flóknara en nú. 

Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn höfðu möguleika á samstarfi sem myndi gera meirihlutasamstjórn þeirra mögulega, en kratar, einkum Benedikt Gröndal formaður þeirra, voru því fráhverfir. 

Þess vegna varð það ekki framkvæmanlegt að mynda starfhæfa meirihlutastjórn í anda gömlu Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971. 

Jón Baldvin Hannibalsson sagði síðar að þarna hefði orðið pólitískt umferðarslys. 

Ástand efnahagsmála var mun erfiðara á þessum tíma en nú. Klerkabylting í Íran hafði framkallað olíukreppu með stórhækkuðu eldsneytisverði, sem skapaði einstæðan eldsneytisskort í Bandaríkjunum með löngum biðröðum bíla við bensínstöðvar. 

Verðbólga og versnandi staða útflutningsatvinnuveganna vegna eldsneytiskostnaðar var því stóralvarlegt viðfangsefni sem krafðist styrkrar ríkisstjórnar. 

Þótt nú sýnist vera svipað viðfangsefni varðandi það að láta enda ná saman í ríkisfjármálum, er ástandið ekki nærri eins alvarlegt í bili eins og það var í janúar 1980. 

Sjö vikur frá kosningum og þremur og hálfum mánuði frá falli vinstri stjórnarinnar vann Kristján Eldjárn að því að utanþingsríkisstjórn undir forsæti Jóhannesar Nordal gæti leyst minnihlutastjórn Alþýðuflokksins af ef þingmönnum tækist ekki að mynda stjórn. 

Fordæmi Sveins Björnssonar frá 1942 gerði þetta mögulegt fyrir forsetann og myndaði auk þess þrýsting á þingmenn. 

Svo fór að Gunnari Thoroddsen tókst á magnaðan hátt að hugsa "út fyrir boxið" eins og Birgitta Jónsdóttir orðaði slíkt í gær og mynda meirihlutastjórn, sem raunar átti erfitt þegar frá leið að ná saman um nógu bitastæðar aðgerðir, enda afar erfiðar efnahagslegar aðstæður í þjóðarbúskapnum vegna olíukreppunnar í heiminum. 

Þess má geta að á tímabilinu frá fyrri hluta árs 1942 til haustsins 1944, eða í tvö og hálft ár, tókst Alþingi ekki að mynda meirihlutastjórn, mest vegna þess að trúnaðarbrestur ríkti milli forystumanna stærstu stjórnmálaflokkanna, þeirra Ólafs Thors og Hermanns Jónassonar. 

Þá kom það mönnum í koll að hafa gefið stórar yfirlýsingar á báða bóga, sem þeim var um megn að draga til baka. 


mbl.is Þingið og formenn fái svigrúm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband