Skilningsleysi á eðli máls.

Alla þessa öld hefur ríkt skilningsleysi á eðli og stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Vegna þess að þetta er langfjárfrekasta starfsemi ríkisins hafa ríkisstjórn og Alþingi freistast til að skera kostnaðinn niður eins og verið væri að spara í bílainnkaupum með því að kaupa ódýrari og minni bíla. 

Lengi vel tókst að vísu að spara á slíkan hátt, en ekki var tekið með í reikninginn að öldruðum fjölgar stöðugt og á eftir að fjölga mikið. 

Ekki gefur rétta mynd að mæla útgjöldin í krónutölu, þegar launakostnaður vex vegna þess að staðið var frammi fyrir atgervisflótta sem hefði jafngilt því að lama starfsemina og fórna lífi og limum sjúklinga. 

Ef eitthvað á að vera að marka digurbarkaleg ummæli um að það sé nauðsynlegt fyrir viðgang þjóðfélagsins að boðið sé upp á jafn gott heilbrigðiskerfi og aðrar þjóðir hafa, verður ekki hjá því komist að kaupa og endurnýja dýr tæki, sem aðrar þjóðir eiga og eyða hlutfallslega jafn miklu af þjóðarframleiðslu til heilbrigðiskerfisins og aðrar þjóðir gera. 

Í fyrstu stjórnarmyndunarviðræðunum hefur komið í ljós, að ekki hafði verið gefin rétt mynd af stöðu mála í ríkisrekstrinum, og heyra mátti á þátttakendum í þessum viðræðum, að það drægi ekki aðeins úr áhuga á því að leysa þessi mál, heldur skapaði þetta ágreining um það. 

En þjóðin var ekki að kjósa sér fulltrúa til þess að hrökkva frá úrlausn brýnustu mála samfélagsins, heldur til þess að takast af fullum krafti á við þá áskorun sem sú úrlausn felur í sér.  


mbl.is Uppsagnir, lokanir og skerðing blasa við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þarf mikið fjármagn, aðstöðu og mannskap."

Ofangreind setning voru lokaorð sérfræðinga, sem ég leitaði til síðsumars 2005, til að reyna að finna út hvort verið væri að hlera síma minn og síma margra annarra. 

Í stuttu máli lýsti þetta sér þannig, að samband komst hvað eftir annað með nokkurra mínútna millibili á aðra leiðina milli síma míns og síma annarra, þannig að hringing kom úr síma mínum til þeirra án þess að ég vissi af því.

Þeir heyrðu í símanum hljóðin í kringum síma minn en ég hafði ekki hugmynd um símasambandið. 

Miðað við það hverjir kvörtuðu yfir þessum símhringingum mátti ætla að sími minn væri í einskonar símatorgi með símum fólks á öllum stigum þjóðfélagsins. Já, öllum stigum. 

Eftir að sími minn hafði verið rannsakaður og ég spurði, hvort í gangi gæti verið svipað og fréttir höfðu borist af frá New York, að snjallir háskólastúdentar hefðu hlerað síma í skrifstofu utan af götunni voru lokaorð sérfræðingsins hjá símafyrirtæki mínu þessi:

"Þetta er ekkert svoleiðis og hafðu engar áhyggjur af því að sími þinn geti verið hleraður. Til þess að það geti lýst sér á þennan hátt þarf mikið fjármagn, aðstöðu og mannskap." 

Þess má geta, að ég komst að því, að á þessum tíma þurfti aðeins einn yfirmaður að samþykkja símahleranir hjá mínu símafyrirtæki, en hjá hinu þurfti þrjá. 

Ástæðan fyrir því að það þyrfti þrjá var sú að sögn þess, sem tjáði mér þetta, að tryggja að fyllsta öryggis og vandaðra vinnubragða væri gætt. 

Eftir því sem tölvunotkun breiðist meira út á öllum sviðum þjóðlífins er augljóst að alls kyns átök um fjármuni, völd og áhrif munu teygja anga sína æ víðar. 

Og hamfarir,slys og skaðvænleg mistök og misnotkun munu að sama skapi verða líklegri en áður.  


mbl.is Líklega „sami ríkisstyrkti aðilinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknmynd ameríska draumsins.

Alþjóðavæðing í framleiðslu, verslun og viðskiptum, skóp óánægju lægri millistéttarinnar í "ryðbeltinu" svonefnda, sem hafði ekki fengið efnt draumsýnina um ameríska drauminn að komast til auðs og velsældar. 

Donald Trump sótti afl í kosningabaráttu sína með því að lofa því að gera Ameríku stórkostlega á ný og færa hana aftur til þess tíma þegar Bandaríkin framleiddi meirihluta allra bíla í heiminum og Detroit var djásnið í uppsprettu langstærsta neyslusamfélagi veraldar. 

Fólkið, sem Trump hefur ráðið í æðstu stöður fram að þessu er táknmynd ameríska draumsins, sautján manns sem eiga meiri auðæfi samanlagt en þriðjungur þjóðarinnar. 

Líklega hefur ekkert svipað þessu gerst um valdamesta hóp eins lands síðan einvaldskonungar og helstu handbendi þeirra voru og hétu í Evrópu. 

Þessir konungar voru kallaðir "hinir menntuðu einvaldar" og voru taldir vera með guðlegt umboð til þess að vera "vinir litla mannsins." 

Og draumur litla mannsins um að eiga jafnvel fjarlægan möguleika á að eignast auðugan og voldugan vin er nú að birtast í Trump og hirð hans. 


mbl.is Ríkisstjórn Trump auðugari en þriðjungur þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband