Sigurður Ingi gæti átt möguleika.

Sigurður Ingi Jóhannsson hefur vaxið mjög í áliti við það að ná mun meiri árangri í starfi en nokkurn óraði fyrir þegar hann tók við forsætisráðherraembættinu á óróatíma í stjórnmálunum. 

Auðvitað þarf fleiri til en einn þegar margir flokkar koma sér saman um eitthvað svipað því sem gert var í vor og haust varðandi störf Alþingis og stjórn landsins. 

En allt stóð það fyrst og fremst og féll með forsætisráðherranum sem sigldi úfinn sjó af lagni og skynsemi. 

Þegar grunnur Framsóknarflokksins er skoðaðu sem miðjuflokks getur niðurstaðan orðið sú að einmitt þessi staða geti gert Sigurði Inga og flokki hans auðveldara en ella að mynda ríkisstjórn yfir miðjuna eins og Framsókn hefur staðið svo ótal oft að í aldar sögu sinni. 


mbl.is „Sigurður Ingi gæti fengið áheyrn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plan B: Fjárlög eins og oft fyrrum og stjórnarmyndun í janúar .

Þegar sett var upp áætlun síðastliðið vor um skipulag þingstarfa fram að kosningum 29. október náðist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um plan A, hvernig hægt yrði að afgreiða allra mikilvægustu mál fyrir kosningar og vera komin það langt með fjárlög, að hægt yrði að afgreiða þau fyrir jól, og að þá yrði ný ríkisstjórn tekin við.

Nú hefur þetta síðasta brugðist og þá blasir plan B við, að klára fjárlögin og taka upp stjórnarmyndunarviðræður í janúar.

Aðstæður eru mun skárri en þær voru í janúar 1979 þegar olíukreppa var skollin á í heiminum með stórversnandi viðskiptakjörum og þjóðarhag.

Þess vegna er svo mikilvægt að einbeita sér að þingstörfum fyrir jól og jafnvel milli jóla og nýjárs og klára þessi mikilvægust árlegu lög þingsins.

Það eru mýmörg fordæmi frá fyrri árum um að fjárlögin hafi verið á síðasta snúningi í árslok og þess vegna er enginn voði á ferðum núna, þótt vissulega hefði verið æskilegra að plan A hefði gengið upp. ´


mbl.is Þingstörf setja strik í reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á hverju byggist þessi flugtækni?

 

Hvernig geta hundruð þúsunda fugla í stórum fuglabjörgum eins og Hornbjargi flogið með ógnarhraða sitt í hverja áttina án þess að lenda nokkurn tíma í árekstri? 

Varla stjórnast þeir af tölvustýrðum rafsegulbylgjum?

Hvernig má það vera að fuglar taki það upp hjá sjálfum sér að fljúga í oddaflugi á þann hátt að samanlögð loftmótstaða verði minni en ella?

Hvernig má það vera að farfuglar læri á það og hagi ferðum sínum í samræmi við það að vegna hlýnunar loftslags jarðar vori fyrr og haustið komi seinna?

Nota fuglar og dýr jafnvel eins konar hugsanabylgjur, sem mælitæki manna nema ekki?

Það eru ekki nema nokkrar aldir síðan menn höfðu ekki hugmynd um að hægt væri að senda ósýnilegar rafsegulbylgjur / útvarpsbylgjur sem bæru hljóð og myndir um óravegu. 

Hví skyldi ekki geta verið til fyrirbæri, sem eru handan við okkar skilning og ráða miklu í tilverunni?


mbl.is Ótrúlegur himnadans – myndband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband