Aðgerðir í ljósi nýrrar stöðu?

Svo er að sjá að í áraraðir hafi biskup talið sig valdamesta mann Þjóðkirkjunnar, bæði andlega og veraldlega, og að allir hafi hagað sér í samræmi við það.

Nú er svo að sjá af skýrslu lögspakra manna að kirkjuráð sé "æðra stjórnvald" en biskupinn, og er merkilegt að það skuli fyrst koma fram nú.

Það er óheppilegt að deilur og jafnvel ósætti skuli vera á kreiki innan þeirrar stofnunar, sem boðar fagnaðarendi kærleika, friðar, fyrirgefningar og umburðarlyndis.

En vitanlega eru þjónar kirkjunnar mennskir menn sem ekki komast hjá því að sýsla við veraldleg gæði.

Nú þarf þjóðkirkjan að vanda sig við að vinna sig út úr þessari stöðu og grípa til aðgerða sem koma ró og festu á hlutina.

Spurning er hvort það sé eðlilegt að þegar kona er í fyrsta sinn biskup skuli það koma upp þá fyrst að vald biskups sé minna en kirkjuráðs.  

Séra Karl Matthíasson bendir á það í bloggpistli að verði niðurstaðan sú að kirkjuráð sé æðra stjórnvald en biskup, kalli það á viðameiri kröfur um val í ráðið en verið hafa.

 


mbl.is Deila um völd innan þjóðkirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róa báðir á sömu mið.

Alþjóðavæðingin í iðnaði og verslun hefur valdið því að hægt er að framleiða hvers kyns vörur, tæki og tól, nánast hvar sem er á hnettinum.

Dæmi um þetta eru orðin óteljandi, til dæmis í bíla- og flugvélasmíði. General Motors framleiða bíla í alls 37 löndum víðs vegar um heim.

Þegar nýjar flugvélar eru kynntar kemur í ljós að hlutar þeirra eru framleiddir í mörgum löndum, og þótt þær séu kenndar við eitthvert sérstakt land eins og Þýskaland, Frakkland eða Japan geta þær allt eins verið framleiddar að mestu í allt öðru landi.

Konan mín ekur á Suzuki Alto, sem japanskur bíll að nafninu til en framleiddur í Indlandi fyrir Evrópumarkað. Hin indverska gerð er með hægri handar stýri, mjórri og styttri og er vinsælasti bíllinn á Indlandi undir merkinu Maruti.

Ég hjóla um á ítölsku reiðhjóli með hjálparrafmótor, sem framleitt er í Kína fyrir Bandaríkjamarkað. Meira að segja Harley-Davidson, amerískasta farartæki semm hugsast getur, er ekki lengur framleitt í Bandaríkjunum, að minnsta kosti ekki allar gerðirnar.

Ein af forsendunum fyrir lágu verði á þessum iðnaðarvarningi er að vinnuafl í þróunarlöndunum er margfalt ódýrara en á Vesturlöndum og í Japan.

En þessi verðhjöðnun og kaupmáttur sem ódýrir hlutir skapa,  er ekki ókeypis, því að störfin í þróunarlöndunum verða til þess að samsvarandi störfum í velmegunarlöndunum fækkar og atvinnuleysi hlýst af.

Á þessi mið róa jafn ólíkir frambjóðendur og Sanders og Trump í forkosningunum í Bandaríkjunum, hvor í sínum flokki og hvor á sínum væng stjórnmálanna, og spila á ónægjuna meðal þeirra sem hafa séð á eftir störfum sínum til annarra landa.  

Michigan er fornfrægt iðnaðarríki þar sem Detroit var lengi vel einhver mesta iðnaðarborg heims, meðal annars með þrjár langstærstu bílaverksmiðjur heims, sem framleiddu lengi vel fleiri bíla en alls staðar annars samanlagt í heiminum.

Tvær þessara verksmiðja, GM og Ford, framleiddu í hálfa öld 70-80% af bandarískum bílum.

GM og Ford eru að vísu enn með höfuðstöðvar í Detroit, (Dearborn er útborg) en framleiðslan sjálf er að mestu farin annað og borgin eitthvert versta dæmið um það hvernig hrun atvinnulífs getur leikið jafnvel glæsilegar borgir.

Í slíku umhverfi þrífst óánægja vel og þess vegna var sigur Sanders kannski ekki svo óvæntur í Michigan.


mbl.is Nauðsynlegt eldsneyti fyrir Sanders
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótaflug.

Skrúfuþotur eru hagkvæmari til flugs á stuttum leiðum en venjulegar þotur. Galli skrúfuþotnanna er hins vegar að þær eru ekki eins hraðfleygar og þotur og munurinn hefur hingað til verið það mikill að flugleiðir skrúfuþotnanna hafa verið stuttar, annað hvort í innanlandsflugi eða til allra næstu nágrannalandanna, Grænlands og Færeyja.

Þegar hætt var að fljúga á Viscount og síðar Rolls Royce (Canadair) skrúfuþotum í millilandaflugi fyrir um 4-5 áratugum tóku þoturnar við.

Nú koma hins vegar kostir Bombardier Q400 vélanna vel fram, sem eru mun hraðfleygari skrúfuþotur en áður hefur þekkst og þar að auki hljóðlátar og smærri þegar tekið hefur verið upp áætlunarflug til Aberdeen í Skotlandi með hálftíma styttri flugtíma en á fyrri skrúfuþotum.

Þetta væru enn meiri tímamót ef flogið væri frá Reykjavíkurflugvelli og ferðatíminn gerður enn styttri.


mbl.is Hófu flug til Aberdeen í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAGA: Fyrirbyggjandi árás.

GAGA, skammstöfun fyrir "Gagnkvæm altryggð gereyðing allra" - á ensku MAD, "Mutual assured destruction", var aðal kennisetning Rússa og Bandaríkjamanna í Kalda stríðínu.

Þá eyddu þessar tvær fjölmennustu kristnu þjóðir heims stjarnfræðilegum upphæðum í að virkja ítrustu tækni og getu færustu vísindamanna sinna í að koma sér upp kjarnorkuvopnabúrum, sem tryggt væri að gæti eytt öllu mannkyni og lífi á jörðinn 

Hjá báðum aðilum var forsendan að hinn gæti treyst því að vopnin yrðu notuð ef í odda skærist, jafnvel þótt það þýddi gereyðingu allra, "assured destruction."

Í raun er slík stefna "ógnarfriðar" í hrópandi mótsögn við boðskap kristinnar trúar og líka sú staðreynd, að báðar þessar þjóðir eiga áfram gereyðingarvopnin "til öryggis".  

1983 munaði hársbreidd að gereyðingarstríð skylli á þegar bilun í tölvukerfi Sovétmanna sýndi að eldflaugar væru lagðar af stað frá Bandaríkjunum í áttina yfir Kyrrahafið.

Samkvæmt kennisetningunni GAGA eða MAD, þýddi það sem lesa mátti af tölvunni hjá Rússunum, að Bandaríkjamenn væru að hefja það sem kallað var "fyrirbyggjandi árás", þ. e. nægilega margar kjarnorkueldflaugar til þess að fyrirbyggja að Rússar gætu svarað.

Eina leiðin til þess að fyrirbyggja að þessi fyrirbyggjandi árás heppnaðist, var að Rússar sendu enn öflugri eldflaugaskothríð strax af stað í sinni eigin "fyrirbyggjandi árás" og fresturinn til ákvörðunar var skelfilega stuttur, talinn í mínútum frekar en klukkustundum.

Greint hefur verið frá því í fréttum að heræfing Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna lúti að því að gera "fyrirbyggjandi innrás" inn í Norður-Kóreu, leggja landið undir sig og steypa hinum firrtu valdhöfum og kúgurum Norður-Kóreumanna. Fyrirbyggja að þeir gætu notað kjarnorkuvopn sín.

Að því leyti eru harkaleg viðbrögð þessara valdhafa skiljanleg, - þau eru dæmigerð og örvæntingarfull Kaldastríðs viðbrögð óttasleginna manna sem hafa risið gegn öllu alþjóðasamfélaginu og sjá ekkert annað svar við útskúfun og refsiaðgerðum þess, en að ógna með kjarnorkuvopnum og jafnvel að hefja "fyrirbyggjandi stríð" sjálfir.

Að þessu leyti ríkir staðbundið kalt stríð á Kóreuskaga og það minnkar ekki spennuna hve tiltölulega örstutta leið þarf að senda kjarnorkuflaugar á Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, til að gereyða þessari 24 milljóna manna borg.

Slík árás myndi verða réttlætt sem "fyrirbyggjandi árás" í varnarskyni, rétt eins og sú innrás í Norður-Kóreu sem nú er æfð árlega sem liður í þeim "ógnarfriði" sem þarna ríkir.    


mbl.is Stærsta heræfingin til þessa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband