Ný sýn á fæðingarborgina og samborgarana.

Eftir eitt ár sem hjólreiðamaður er ég þakklátur fyrir að hafa á gamals aldri byrjað að upplifa fæðingarborg mína og íbúa hennar á alveg nýjan og gefandi hátt, miðað við þau 55 ár, sem liðu á milli fyrri reiðhjólatímabilsins og hins síðara í lífinu.Náttfari við Engimýri

Þrennt veldur þessu aðallega:

Nýjar ferðaleiðir, til dæmis þvert yfir Geirsnefið og um Elliðaárdalinn, sem opna fyrir manni svæði sem maður þekkti ekki áður.

Að hitta fólk á leiðinni, mæta því og jafnvel heilsa því. Það hefur maður ekki gert á leiðum sínum í bíl eftir Miklubrautinni og öðrum götum, - þetta hefur verið ópersónulegur massi af einhverju fólki í bílum sínum.

Að heyra jafnvel hin lægstu umhverfishljóð allt í kringum sig.

Að draga djúpt að sér andann og fylla lungun af fersku lofti og finna kraftinn í fótunum og blóðstrauminn seytla um skrokkinn.  

Á myndinni sést hjólið Náttfari í einni af ferðum sínum, - þarna við bæinn Engimýri efst í Öxnadal eftir ógleymanlegan áfanga frá Akureyri, þar sem hægt var að hlusta á lækjarnið og tístandi unga í hreiðrum á leiðinni upp dalinn.   


mbl.is Hvar hjóla Íslendingar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Hvíta húsið eftir ráðherrafund á strigaskó.

Nú berast þær fréttir að beint í kjölfar fréttanna af eign konu forsætisráðherra á Tortóla hafi Obama Bandaríkjaforseti boðið honum í heimsókn í Hvíta húsið.

Er það sagt vera síðbúið heimboð í kjölfar fundar Obama með forsætisráðherrum Norðurlanda þar sem SDG var berfættur í strigaskó á hægri fæti, en uppbúinn í svörtum blankskó á vinstri fæti.

 

Ráðherrum varð um og ó /  

út af Simma fótlama  /

striplandi á strigaskó /

svo starði á hann Obama /

og fær hann með elegans /

í að fræða´um Tortóla,  /

skafa ryk af skónum hans  /

og skoða vel hans skósóla.


mbl.is Félagið hluti af stærri rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danir taka forystuna af okkur.

Íslendingar hafa haft alla burði til þess að vera í forystu að öllu leyti í að hætta að nota jarðefnaeldsneyti á samgönguflotann.

En loforð um að setja þetta í gang hafa reynst með frekar holan róm.

Auðvelt hefði verið að búa svo um hnúta að hægt sé að aka milli Akureyrar á rafbílunum, sem þegar eru komnir, en ekkert bólar á efndum.

Í Tapei á Taívan er þegar búið að koma upp sjálfsölum á öllu höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, þar sem ökumenn rafhjóla af gerðinni Gogoro geta rennt upp að sjálfsölunum og skipt á einni mínútu um rafhlöðurnar, fengið hlaðnar og afhent tómar gegn sáralitlu gjaldi, líkt og þegar gaskútum er skipt út á íslenskum bensínstöðvum.

Hægt er að láta þennan pistil verða miklu lengri með því að telja upp ótal framfaraskref erlendis í þessum efnum.

Á sama tíma flytja æðstu embættismenn þjóðarinnar ræður um möguleika Íslendinga á þessu sviði, sem eru að mestu orð án innistæðu.


mbl.is Bylting í dönskum bílasamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spýta í lófana og taka á móti!

Smáþjóð eins og Íslendingum er mikil nauðsyn á því að taka hressilega til hendi við að andæfa rangfærslum á borð við þeim, sem uppi eru hafðar varðandi þorskinn, sem skaða orðspor lands og þjóðar og geta haft neikvæð áhrif á afkomu okkar.

Hastarlegt er að verða fyrir slíku á sama tíma sem þorskstofninn hefur ekki verið öflugri um áratuga skeið.

Þörfin fyrir það að spýta í lófana í áróðursstríði af þessu tagi kom berlega í ljós í Icesave málinu, þar sem ekkert minna dugði en að forseti okkar nýtti sér stöðu sína sem þjóðhöfðingi og beitt færni  og áhrfinum sínum til hins ítrasta til þess að rétta hlut okkar þegar allar helstu nágranna- og vinaþjóðir okkar beitt okkur fádæma þrýstingi.


mbl.is Orðspor þorsksins gæti beðið skaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlega flott frammistaða, - magnaður sprettur Katrínar Öglu.

Ekki þarf að óttast um framtíð lands okkar á meðan þvílíkt atgervisfólk er að vaxa upp eins og lét ljós sitt skína í lokaþætti Gettu betur í gærkvðldi.

Í þessum þáttum eru þar að auki oft flutt góð skemmtiatriði sem varpa ljósi á fjölbreytilega hæfileika ungu kynslóðarinnar á mörgum sviðum.

Í liði MR var ekki veikan hlekk að finna og taktíkin var greinilega þaulæfð, svo sem þegar spurt var um stærðfræðilegt efni í hraðaspurningunum, sem leit í blá upphafinu fyrir að geta orðið frekar tímafrekt, en hefði þó verið frekar fljótlegt að svara, en þau ákváðu umsvifalaust að segja pass við, til þess að vinna tíma til að reyna við sem flestar hraðaspurningar af þeim sem á eftir komu.

Á tímabili átti Katrín Agla magnaðan einleik. 

Þar að auki voru margar spurningarnar þegar á leið afar áhugaverðar fyrir þá sem heima sátu og gátu velt þeim fyrir sér á sama tíma og keppendur.

Eina athugasemd mátti sjá á blogginu eftir á um meinta gyllinæð Karl Marx, sem ekki skipti þó máli varðandi möguleika keppenda á að svara.

Yndislegt sjónvarpsefni. Takk.  


mbl.is MR sigrar í Gettu betur og setur met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband