Tönnlaðist á "vogunarsjóðum" og "hrægömmum."

Forsætisráðherra kvartar nú undan því að alhæft sé um kröfuhafana í föllnu bankana og þeir kallaðir "hrægammar", þeirra á meðal kona hans.

Þetta kemur úr dálítið óvæntri átt, því að í kosningabaráttunni vorið 2013 stagaðist Sigmundur Davíð á orðunum "vogunarsjóðir" og "hrægammar" þegar rætt var um kröfuhafana rétt eins og engir aðrir ættu kröfur á föllnu bankana.

Þetta hentaði honum prýðilega þá til þess að kynda undir kosningaboðskap hans og loforðum um að hafa af þessum hræðilegu kröfuhöfum stjarnfræðilega háar upphæðir sem kjósendur fengju beint í vasann.

Ábendingar um lífeyris- og líknarsjóði auk almennra borgara sem kröfuhafa drukknuðu í síbylju SDG.

Nú kveinkar sami maður sér yfir því að þessi "misskilningur" sem hann hamraði sjálfur inn, skuli villa um fyrir fólki.

Síðan er það haft uppi að í stjórnsýslu sé fólk ekki vanhæft nema hægt sé að sanna á það að hafa nýtt sér aðstöðu sína til vilhallra úrskurða.

Ef þetta væri svona, gæti til dæmis dómari kveðið upp þannig dóm yfir konu sinni, að ekki væri hægt að sanna á hann að þau hjónin hefðu hagnast á því!  


mbl.is „Hvað hefðu andstæðingar mínir sagt þá?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkvæmni fjölda og stærðar.

Um mörg fyrirbrigði gilda ákveðin lögmál um "hagkvæmni stærðarinnar" eða hagkvæmni fjöldans.

Verðið lækkar samhliða því sem fleiri eintök eru framleidd og fjöldaframleiðslutæknin batnar, samanber færibandið og Ford T fyrir rúmri öld.

Fyrstu fólksbílarnir með bogadregnar hliðarrúður voru stærsta og dýrasta gerð Chrysler-verksmiðjanna, Imperial, árgerð 1957. Síðan liðu ein fimm ár þar til næsti Lincoln fylgdi á eftir, en fyrsti ódýri bíllinn með bognar hliðarrúður kom á markaðinn, Ford Taunus í Þýskalandi.

Það var ekki fyrr en tæpum 20 árum eftir bognu hliðarrúðurnar á Imperial, að þessi nýjung hafði breiðst út um allan bílaflotann í krafti vaxandi fjöldaframleiðslu.

Á okkar tímum eru verðlækkanir samfara framförum kannski mest áberandi í framleiðslu rafeindatækja af ýmsu tagi.

Fyrstu farsímarnir voru fokdýrir, þungir og klunnalegir, en nú kosta margfalt fyrirferðaminni, léttari og, fullkomnnari og símar skít og ekki neitt.

Lengi vel var talsverður verðmunur á bílvélum með hliðarventla og toppventla þannig að hliðarventlavélarnar lifðu margar fram til 1960. Á næstu áratugum þar á eftir voru vélar með yfirliggjandi kambása dýrari en hefðbundnar vélar og sömuleiðis beinar innspýtingar.

Aftur varð búnaðurinn flóknari með tveimur yfirliggjandi kambásum en núna eru vélar með gamla laginu æ fátíðari.

Bílar með nýjum orkugjöfum eru dýrir í fyrstu, en ef þeim fjölgar með árunum á verðið eftir að lækka í samræmi við lögmálin um hagkvæmni fjöldans.  


mbl.is Raf- og bensínbílar munu kosta jafnt um 2025
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var þá allt í lagi 2007-2008?

Nú er verið að endurskrifa söguna af krafti af Hruninu og það nefnt "svokallað Hrun".

Haustið 2008 greip mikil vandlæting, hneykslun og jafnvel fordæming um sig þegar það fréttist að sumir Íslendingar hefðu komið fjármunum sínum fyrir í skattaskjólum á borð við Tortóla.

Ástæðan var sú að á meðan íslenska krónan og hagkerfið hrundu og venjulegir Íslendingar urðu fyrir svonefndum "forsendubresti" af óþekktri stærð, gátu sumir Íslendingar verið með allt sitt á þurru í leyni erlendis.

Frægt augnablik í sjónvarpssögunni þótti þegar einn hinna ásökuðu hikaði örlítið við að svara spurningu Egils Helgasonar um það, hvort hann kannaðist við nafnið Tortóla.

Svaraði síðan neitandi.

Í kjölfarið voru settar siðareglur Alþingismanna sem farið skyldi eftir, þannig að allir þingmenn væru skyldir til að gefa upp hagsmunatengsl sín.

Nú er verið að endurskrifa þetta allt.

Þótt forsætisráðherra hafi sjálfur sagt á þingi fyrir ári að ríkisstjórnin færi eftir siðareglunum bendir hann á það nú, að þær hefðu ekki verið í gildi og þess hefði hvorki verið né væri svona skylda fyrir hendi, hvorki lagaleg né siðferðileg.

Og jafnvel þótt skyldan væri fyrir hendi hefði ekki verið nein ástæða til að gefa tengslin upp, "enda gerði það enginn"!

Færsla fjármuna í þáverandi skattaskjól var sem sé ekki gerð af hagkvæmnisástæðum!

Nei, bara alls ekki!

Jahá. Af hvaða ástæðum þá?

Hvers vegna hafa margir erlendir áhrifamenn fimbulfambað um það að koma böndum á hina stórfelldu tilfærslu og kúnstir sem þeir telja að viðgangist í skattaskjólunum og fjármálaheiminum, ef engin ástæða var til þess? 

Nú er sagt að það hefði komið í ljós síðar að allir skattar voru greiddir af þessu hér heima og skattaskjólið því væntanlega rangnefni.

Bara "svokallað skattaskjól"? Nýtt hugtak?

Listinn í nýyrðasmíðinni í endurskrift sögunnar um fyrirbrigðin, sem fólk hélt að hefðu verið aðalatriðin 2007-2008, getur fengið langa framlengingu á næstunni:

"Svokallað Hrun." "Svokallað skattaskjól". "Svokallaðar siðareglur" "Svokölluð hagsmunatengsl..."  Ágætis byrjun.

 

 

 

 

  

 


mbl.is Bar ekki skylda að segja frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Belgísk lögregla og yfirvöld gagnrýnd.

Belgíska lögreglan og yfirvöld hafa legið undir gagnrýni um langa hríð frá nágrönnum sínum, Frökkum og Þjóðverjum, fyrir linku og sleifarlag á ýmsum sviðum.

Frakkar voru afar óhressir með það hvernig ódæðismennirnir í París í fyrra gátu komist undan og falið sig í Brussel eins og ekkert væri.

Þá var að vísu sett á viðbúnaðarstig sem sumum þótti ansi hátt en hefur nú komið í ljós að full ástæða var til.

Það þóttu því ekki tíðindi þótt það væri franska lögreglan sem beitti sér fyrst og fremst til að gera áhlaup á glæpahundana í síðustu viku og handsama Salah Abdeslam, og nú kemur í ljós að belgísk lögregluyfirvöld hafa algerlega sofið á verðinum gagnvart ótíndum glæpahundum, sem meira að segja Tyrkir voru búnir að vara við.

Maður hefur þegar heyrt sögur af belgískum Geir og Grana, sem bendir til þess að taka þurfi til hendi og koma löggæslunni í betra horf.


mbl.is Með langa glæpaferla að baki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband