Vonbrigðin í bíóinu.

Hér er saga af atviki sem gerðist þegar ég fór að sjá kvikmyndina Aviator, sem fjallaði um ævi hins magnaða Howard Hughes, sem var flugmaður og hönnuður og varð milljarðamæringur í gegnum flugafrek sín og smíði flugvéla, þeirra á meðal "Spruce Goose", sem var langstærsta flugvél veraldar, með meira vænghaf en Airbus 380 er með núna, enda gátu flugvirkjar gengið innan í vængjunum til þess að sinna hreyflunum ef á þurfti að halda.

Hughes hlaut frægð á við helstu kvikmyndastjörnur Hollywood, enda afar glæsilegur maður á yngri árum, svo að ekki dugði minna en að Leonardo DiCaprio lék hann í myndinni sem var drjúglöng.

Við hlið okkar Helgu sátu roskin hjón og konan ljómaði í hvert sinn sem DiCaprio í hlutverki Hughes birtist á hvíta tjaldinu.

Þegar myndinni lauk og ljósin voru kveikt, sagði hún við mann sinn og vonbrigðin leyndu sér ekki í röddunni:  "Hvað, er þetta búið? Og ekkert um Playboy?"

 

Ég brann í skinninu að spyrja manninn, hvort hann hefði lokkað konuna til þess að horfa á langa mynd um flugmann með því að rugla hana á nöfnunum Hughes og Hugh Hefner.

Eða hvor hún hefði ruglast á þessu sjálf eða þau bæði ruglast í ríminu.

En ég áræddi ekki að spyrja, þannig að það verður aldrei upplýst.


mbl.is Playboy til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að horfast í augu við nakið vald.

Tilgangurinn með þeirri tímamótaaðgerð á Íslandi að hafa þungvopnaða lögreglumenn, sem eru þar með í raun orðnir hermenn, á fjölförnum stað innanlands getur varla verið nema af tvennum toga.874813B[1]

Annar möguleikinn er sá að sýna það á alþjóðlega vísu, að hryðjuverkamenn megi búast við hörðum viðbúnaði hvar sem er, líka á Íslandi.  

Hinn möguleikinn er sá að boða í leiðinni nýja tíma í þjóðlífinu, hervald, sem beitt verði inn á við ef valdamenn telja það nauðsynlegt.

Því að varla eru þessir íslensku hermenn þarna til að stöðva hryðjuverkamenn, sem koma frá útlöndum. Slíkir hryðjuverkamenn væru fyrir löngu búnir að sprengja sig í loft upp ef þeir hefðu komist um borð í flugvélarnar, sem lenda á Keflavíkurflugvelli.

Hryðjuverkamennirnir í Brussel komu "innan frá", komu inn á brautarstöð eins og þeir ætluðu að ferðast innan borgarnnar, og komu inn á flugstöð eins og aðrir farþegar, sem ætluðu að taka sér far til útlanda.

Fyrri möguleikinn, sem nefndur er, liggur í augum uppi.

En samt læðist að manni grunur um að hin hlið málsins, að sýna valdið inn á við, sé ekkert svo mjög fráhverft yfirvöldum, vegna þess að fordæmi eru um slíkt frá síðari árum.

Áður hefur verið minnst á það hér á síðunni, að í júlí 1999 var haldin sérstök heræfing, "Norðurvíkingur," á vegum NATO til að æfa varnir hér á landi.

Valin var sú aðsteðjandi hætta, sem þótti stærst,  til að taka á móti með öflugustu vígtólum bandalagsins, F-15 orrustu- og sprengjuþotum.

Þessi hrikalega vá var sá möguleiki að umhverfis- og náttúruverndarfólk væri að mótmæla inni á hálendinu og var stóru æfingasvæði lokað fyrir allri annarri flugumferð en F-15 þotnanna, svo að flugmennirnir gætu æft sig í að salla náttúruverndarfólkið niður.

Ég var einmitt að fljúga TF-FRÚ inni á hálendinu þegar æfingin átti sér stað og forðaði mér í burtu til þess að þurfa ekki að horfast í augu við nakið hervaldið.

Skýr skilaboð þarna.

14 árum síðar töldu ráðamenn sig þurfa að fjarlægja fólk, alls 25 manns, sem sat í Gálgahrauni í faðmi náttúrunnar. Fyrirfram var vitað að þetta fólk myndi ekki hreyfa legg né lið þótt að því væri sótt og það borið burt ef það hreyfði sig ekki sjálft.Brussel,Helga, hermenn

Til þessa burðar var talið nauðsynlegt að loka með vegartálma leiðinni út á Álftanes, og fara með 60 manna víkingasveit og lögreglulið, búið kylfum, gasbrúsum og handjárnum auk stærsta skriðbeltatæki landsins gegn náttúruverndarfólkinu til að fjarlægja það og færa í fangelsi. Brussel, Helga, hermenn

Aftur horfst í augu við nakið valdið. Skýr skilaboð.

Nú situr maður á páskum strandaglópur í Brussel vegna hryðjuverka, horfir á friðsama borgara tjá hug sinn þúsundum saman á götum úti og hermenn á verði við brautarstöðvar.

Hugurinn reikar heim til Íslans á vængjum Jónasar og Inga T:  "Ég bið að heilsa:..." - "Nú andar suðrið..."

Og líka á vængjum Huldu og Emils Thoroddsens: "...svo langt frá heimsins vígaslóð."

Eða hvað? 

 


mbl.is Þungvopnuð lögregla í Leifsstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband