Margir eiga Bjarna Fel mikið að þakka.

Það var ekkert grín að fjalla svo vel væri um íþróttir í íslenska sjónvarpinu fyrstu svart-hvítu árin. Aðeins einn fastráðinn íþróttafréttamaður vann hjá stofnuninni og fannst erlendum íþróttamönnum það fáránlegt að "sportsjeffen" á Íslandi skyldi vera yfirmaður yfir sjálfum sér einum.

Kvikmyndatökumenn og aðra nauðsynlegir starfsmenn var hægt að telja á fingrum sér og framkalla varð filmur og tónbönd sér, "samhraða" þau á eftir í klippitækjum þar sem efnið var bútað sundur og klippt saman í klippisamstæðu.

Síðan varð annað hvort að hljóðsetja lýsingu inn á eða að lýsa útsendingunni beint úr þuluklefa.

Á þessum árum var Bjarni Felixson gjaldkeri hjá vélsmiðjunni Hamri en varð strax ómissandi í sjónvarpinu við það aukastarf að fjalla um knattspyrnu og getraunir af einstakri elju og færni.

Þar áður, meira en áratug fyrr, hafði hann unnið brautryðjendastarf varðandi íslenskar getraunir.

Á þessum árum var ekki hægt að senda út beint yfir hafið, og þess vegna varð að bíða eftir því að efnið bærist til landsins til sýningar.

Þessi ár gekk ég aukavaktir á fréttastofunni og fór í margar erfiðar ferðir út á land vegna frétta eða dagskrárgerðar.

Þá var ómetanlegt að eiga hauk í horni þar sem Bjarni var og hann var sjálfkjörinn eftirmaður eftir að ég fór alfarið úr íþróttunum 1976.

Bjarni ól ekki aðeins upp nýjar kynslóðir Íslendinga hvað varðaði íþróttir, heldur var málfar hans til fyrirmyndar og hafði líka mikil áhrif.

Áhugi hans og elja átti sér fáar hliðstæður.

Margir eiga Bjarna mikið að þakka og ég er einn af þeim. Það verðskuldað að breskt stórblað geri honum góð skil.


mbl.is The Guardian fjallar um Bjarna Fel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingur leiftursnöggu stefnu- og hraðabreytinganna.

Efast má um að nokkur knattspyrnumaður hafi búið yfir þeim einstaka hæfileika sem Johan Cruyff hafði til þess að breyta örsnöggt og leifturhratt um stefnu og hraða með boltann.

Á augabragði gat hann snúið sér á punktinum og verið kominn á fulla ferð í gagnstæða átt við það sem hann hafði áður stefnt og skilið varnarmenn eftir ráðþrota.

Þegar hann var í þessum ham gat enginn varnarmaður fylgt honum eftir, ráðið við hraða hans eða náð af honum boltanum.

Í landsleiknum við Ísland, þar sem hann skoraði tvö mörk, gerði hann þetta snilldarlega svo að minningin um það lifir sem ein af eftirminnilegustu augnablikunum frá knattspyrnuvellinum.   


mbl.is Leikurinn stöðvaður á 14. mínútu (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er heimurinn í dag.

"Svona er Ísland í dag" var viðkvæðið hjá Jóni Ársæli Þórðarsyni í þáttum, pistlum og fréttum.

Nú má víkka þetta út og segja ekki aðeins "svona er Brussel í dag", "svona er Jemen í dag" eða "svona er Bagdad í dag", "svona er Leifsstöð í dag," heldur líka "svona er heimurinn í dag" þegar litið er yfir fréttir af sjálfsmórðsárásum á ýmsum stöðum.

Áhrifin af þessum árásum eru afar mikil eins og sjá má af þeirri truflun sem orðið hefur bara hér í Brussel þar sem fólk er enn að melta þau og átta sig á þeim usla sem örfáir ofstækis- og glæpamenn hafa valdið.

Heilum alþjóðaflugvelli tveggja milljón manna borgar hefur verið kippt úr sambandi í viku að minnsta kosti og því meiri áhrif sem blóðbaðið í aðeins 300 metra fjarlægð frá bústað Íslendinga hér hefur á daglegt líf og hugsanir, því meiri árangur hefur árás heilaþveginna ódæðismanna á frið, farsæld og mannréttindi vestræns samfélags.

Þess vegna er þrátt fyrir allt uppörvandi að sjá og heyra viðbrögð fólksins dag eftir dag á blómum skrýddum samkomustöðum utan húss, svo sem við Maalbeek brautarstöðina, þar sem mynd á faceboook síðu minni var tekin í gær.

Og í útvarpi má heyra spilað að nýju rúmlega 40 ára gamlan ástaróð til Brussel, borgarinnar sem skrýððist vorsins blómabreiðum á þegar vorið gengur í garð á jafndægrum.


mbl.is 22 látnir eftir sjálfsmorðsárásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband