Minnsta kosti hundrað sinnum lengri en Berlínarmúrinn.

Hugmynd Donalds Trumps um að reisa múr eftir endilöngum landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna er ekki einasta þess eðlis, að hún varpi skugga á væntanlegan forsetaframbjóðanda flokks Lincolns, heldur er hún einnig íhugunarefni þegar athugað er, hvaða málflutningur það er sem nú um stundir getur náð hljómgrunni hjá milljónum borgara í vestrænu lýðræðisþjóðfélagi.

Þessi múr yrði að minnsta kosti hundrað sinnum lengri en ein illræmdasta framkvæmd kommúnista, Berlínarmúrinn, svo að hann bliknar í samanburðinum.

Ronald Reagan, forseti Bandríkjanna og Republikani, stóð við þann múr og sagði fleyg orð: "Herra Gorbatsjov, rífðu þennan múr niður."

Nú verður maður kannski senn að fara að venja sig við þá tilhugsun, að næsti forseti Bandaríkjanna standi við landamærin við Mexíkó og segi: "Reisum hér múr sem verður jafn frægur og Kínamúrinn."


mbl.is Mexíkó borgar ekki vegginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg hegðun þjóðar Brundtlands.

Nafn Gro Harlem Brundtlands, fyrrum forsætisráðherra Noregs verður letrað gullnu letri í sögunni fyrir hlut hennar að svonefndri Brundtlandsskýrslu sem var undirstaða Ríósáttmálans með sínum tveimur meginreglum um sjálfbæra þróun og varúðarregluna.

Nú er svo að sjá að þjóð Gro Harlem hafi þessi grundvallaratriði að engu varðandi hegðun sína gagnvart villtum laxastofnum, allt vegna peningasjónarmiða.

Og hegðun okkar Íslendinga virðist ekki langt á eftir í þessum efnum, þótt Orri Vigfússon, áhrifaríkasti maðurinn um verndun villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi, sé Íslendingur.  


mbl.is Laxar eru að hverfa í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndi ríma við fyrri forsetakosningar.

Í fyrra lenti ég í hópi "álitsgjafa" fyrir DV um það hverjir gætu komið til greina til að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.

Ég átti að leggja til nokkur nöfn og röksemdir fyrir þeim, bæði með og á móti.

Katrín Jakobsdóttir var í þeim hópi, og þegar ég hitti hana fyrir tilviljun þar sem hún var að koma úr útvarpsviðtali, greindi ég henni frá þessu áliti mínu og sömuleiðis því að hún gæti átt góða möguleika, einkum vegna þeirrar stöðu hennar að njóta langmests fylgis formanna stjórnmálaflokkanna þótt flokkur hennar væri á róli í kringum 10% fylgi.

Hún brosti og virtist undrandi, - sagðist ekkert vera á þessum buxum.

Meðal ástæðna sem mælti með Katrínu var sú staðreynd að allir fyrri forsetar, sem hafa verið kosnir í beinum kosningum, virtust kosnir sem mótvægi við ríkjandi stjórnvöld.

Tveir stærstu stjórnmálaflokkarnir sammældust um það að bjóða fram séra Bjarna Jónsson 1952, sem var við aldur, á svipuðum aldri og nýlátinn forseti.

Þjóðin kaus hins vegar mun yngri mann af vettvangi stjórnmálanna, Ásgeir Ásgeirsson, sem hafði fyrrum verið bæði forsætisráðherra og forseti sameinaðs Alþingis á Alþingishátíðinni á Þingvöllum, glæsilegan mann, sem ekki naut beins stuðnings stjórnmálaflokka eins og séra Bjarni, og virkaði því sem mótvægi við ríkjandi stjórnmálaöfl.

Ásgeir hafði fyrrum verið Alþingismaður fyrir Alþýðflokkinn, sem var í stjórnarandstöðu frá 1949.

Þegar Ásgeir hætti 1968 bauð tengdasonur hans, Gunnar Thoroddsen, mjög frambærilegu maður, sig fram, og hefði líkast til átt mun betri möguleika fjórum árum fyrr.

En þetta var árið 1968, og Gunnar hafði verið fjármálaráðherra í ríkjandi stjórn, sem byggðist þá á áratugs setu í valdastólum.

Árið 1968 var eitt mesta óróa og ólguár eftir stríðið og fólkið valdi ólíkan mann, Kristján Eldjárn, sem gengdi embættinu með ekki síðri sóma en hin þrautreyndi Gunnar hefði gert.

Aftur var kosinn maður sem telja mátti mótvægi við ríkjandi öfl.  

1980 buðu þrír rosknir og reyndir karlar sig fram, en framboð Vigdísar Finnbogadóttur var alveg á skjön við hina algengu karlauppstillingu til enbætta.

Að þessu leyti var framboð Vigdísar á skjön við ríkjandi viðhorf feðraveldisins, hún var kjörin, gegndi embættinu með glæsibrag og kjörið vakti alheimsathygli.

1996 voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur nýteknir við stjórn landsins og voru því í svipaðri aðstöðu og þessir sömu flokkar höfðu verið 1952.

Að vísu kenndu kosningarnar 1952 þá lexíu að stjórnmálaflokkar gerðu frambjóðendum óleik með því að lýsa yfir beinum stuðningi við þá, en þrátt fyrir þetta var kosinn sá frambjóðandi sem helst gæti valdið straumaskilum, Ólafur Ragnar Grímsson, augljóst mótvægi við ríkisstjórnina.

Nú hefur Ólafur setið í 20 ár og svo sannarlega látið að sér kveða, jafnt innanlands sem utan, og enn virðist liggja straumur sem feli í sér breytingar, í þetta sinn ung og snjöll kona, óvenju reynslumikil miðað við aldur, til að taka við af miklu eldri karlkyns reynslubolta.

Þar að auki mótvægi við ríkjandi stjórnmálaöfl, rétt eins í kosningunum 1952, 1968, 1980 og 1996.

Hún hefur núna jafnmikið fylgi og þeir fjórir eða fimm, sem koma henni næst að fylgi.

Það er bæði kostur og galli hvað hún er ung og á því kannski erfitt með að rjúfa sig út úr spennandi verkefnum sem tiltölulega nýkjörinn formaður stjórnmálaflokks.

En á móti kemur, að jafnvel þótt hún sæti í embætti forseta í 12 til 16 ár, yrði hún þá enn á besta aldri til að snúa sér að öðrum verkefnum þegar hún hætti sem forseti, og eiga drjúgan tíma eftir af starfsævinni.

Það eina, sem hugsanlega gæti velgt henni undir uggum, væri framboð annarrar hæfrar og glæsilegrar konu.

En eins og er, virðist slíkt ekki í sjónmáli.

  

 

 


mbl.is Veltir fyrir sér forsetaframboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er pláss fyrir bæði nöfnin á treyjunum.

Ekki þarf annað en að líta á landsliðstreyjurnar til að sjá að það er pláss fyrir bæði fornafn og eftirnafn á hverri treyju landsliðsmanna, það er, að hafa fornafnið fyrir ofan eftirnafnið.

Mikið væri nú gott ef farin yrði þessi leið til að sætta tvö sjónarmið í þessu máli, sem er mun mikilvægara en umdeilanleg hönnun nýju treyjanna.

Þá gætum við orðið enn stoltari en við erum þegar yfir "strákunum okkar".

 


mbl.is Leikmenn vilja eftirnöfnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ringulreið ekki nýtt fyrirbæri hjá svona stórum flokkum.

Árið 1968 var engu líkt á Vesturlöndum, jafnt í Bandaríkjunum, Frakklandi og á Íslandi.

Bylgja uppreisnar unga fólksins, sem nærðist í Bandaríkjunum á reiði vegna mannfallsins í vonlausu stríði í Víetnam, skók allt samfélagið þar og eldar loguðu í borgunum.

Að ferðast um landið í júní 1968 var áhrifamikið í kjölfar morðanna og Martin Luther King og Robert Kennedy og koma á morðstað hins síðarnefnda.  

Í upphafi ársins áttu Bandaríkjamenn forseta, sem hefði undir öllum venjulegum kringumstæðum staðið með pálmann í höndum eftir mestu umbætur í réttindamálum sem um getur í bandarískri sögu og tryggt demókrötum glæsilegan sigur í forsetakosningum haustsins.

En sívaxandi mannfall og ófarir Kana í Víetnam eyðilagði allt fyrir Johnson.

Í ársbyrjun hófst atburðarás sem skók flokkinn, fyrst með Tet-sókn Vietcong, sem boðaði hrakfarir mesta herveldis heims með yfir hálfa milljón hermanna í Vietnam, framboði Eugene McCarthy og góðu gengi hans í forkosningum, uppgjöf Johnsons og flótta hans út úr stjórnmálum, framboði Roberts Kennedys, George McGoverns, Huberts Humphreys og George Wallece, morðunum á King og Robert Kennedy og loks óeirðum og blóðbaði fyrir utan fundarstað flokksþings demókrata í Chicago.

Og niðurstaðan varð síðan afar naumur sigur Richards Nixons,nokkuð sem engan hefði órað fyrir í ársbyrjun.

Nefna má fleiri dæmi um erfiðleika stóru flokkanna í aðdraganda forsetakosninga, svo sem hjá Republikönum 1992, sem sýna, að þegar um svo stóra flokka er að ræða, getur gengið á ýmsu, rétt eins og nú hjá Republikönum.  


mbl.is Ringulreið meðal repúblíkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. mars 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband