Vissuð þið um negldu dekkin? Rangt skal vera rangt.

Ég hef þurft að fara í sjúkraþjálfunaræfingar á Borgarspítalanum vegna axlarbrots, og ástandið á bílastæðinu þar er oft þannig, að það borgar sig að fara á hjóli. 

Um daginn fór ég á bíl konunnar, sem er ódýrasti og einfaldasti bíllinn á markaðnum og þar að auki með koltvísýringsútblástur undir 100g á km, svo að hann á að fá ókeypis stöðu í 30 mínútur. 

En þegar út var komið var kominn sektarmiði. Stöðumælavörðurinn sagði, að það væri vegna þess að negld dekk væru undir bílnum. Ekki vissi ég að stöðumælasektum væri beitt gegn notkun þeirra. 

Vissuð þið, sem lesið þetta, það?

Fyrir nokkrum árum lagði ég bíl við Tryggvagötu. Veður var kalt og það gustaði. 

Þegar ég kom aftur var stöðumælavörður að skrifa sektarmiða. 

Það fannst mér skrýtið, því að bíllinn hafði alls ekki verið það lengi á stæðinu að miðinn væri fallinn úr gildi. 

Ég opnaði bílinn, tók miðann og sýnd verðinum, að á miðanum stóð greinilega að ég átti enn eftir um 20 mínútur eftir af tímanum. 

En hann sagðist ekki hafa séð það i gegnum framrúðuna af því að miðinn hefi fokið til. 

Ég andmælti og taldi að prentaður tími á miðanum hlyti að vera gilt sönnunargagn. 

Hann sagði að sektin væri óafturkræf úr því að hann væri búinn að ganga frá henni og með þeim orðum setti hann sektarmiða undir þurrkuna. 

Ég fór á vit Stöðumælasjóðs til að fá leiðréttingu; rétt skyldi vera rétt.

En mér var harðneitað um hana. 

Þar gilti greinilega: Rangt skal vera rangt. 


mbl.is Fengu sekt í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er þessi "mögulega útfærsla"?

Ekki er furða þótt Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Skagfirðinga reki upp ramakvein vegna þeirrar ógnar, sem hann sér í því að jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót fari í verndarflokk rammaáætlunar. 

Árum saman hefur rekin áköf virkjunarstefna nyrðra sem miðað hefur að því að reisa álver við Skagaströnd og gefa efnamönnum kost á að eignast jarðir, sem verða verðmætar fyrir eigendurna ef farið verður í virkjanir. 

Kaupfélagsstjórinn kvartar sáran yfir því að komið sé í veg fyrir "mögulega útfærslu" virkjananna sem tryggi náttúruvernd. 

Ekkert minnist hann þó á það, í hverju þessi "mögulega útfærsla" á að felst. 

Sem dæmi má nefna Villinganesvirkjun, sem fór í gegnum mat Skipulagsstofnunar beint í framhaldi af Kárahnjúkavirkjun, sem stofnunin hafnaði. 

Ráðríkasti forsætisráðherra sögunnar hótaði Skipulagsstjóra beint þegar hann sagði, að ekki væri hægt að una því að "kontóristar úti í bær" legðu mat á svona mál. 

Enda fór það svo að Villinganesvirkjun flaug í gegn, þótt fyrir lægi að miðlunarlón hennar myndi fyllast upp af auri og verða ónýtt á nokkrum áratugum. 

Kaupfélagsstjórinn kvartar yfir því hve löng biðin eftir virkjanaframkvæmdum hefur verið, en á móti mætti spyrja hann hvers vegna þær "mögulegu útfærðslur" sem hann talar um, hafi ekki einn komið fram, sem boða þá byltingu í tilhögun virkjana, sem geti komið í veg fyrir setmyndun í miðlunarlónum, breytingu á lífríki Héraðsvatna og eyðileggingu möguleika fyrir flúðasiglingar, svo að dæmi séu nefnd. 

Nú má heyra svipað orðalag hjá Þórólfi og Davíð forðu, "nefndir" og "kontórista", og málum enn stillt upp eftir hinni 50 ára gömlu formúlu um að aðeins stóriðja og virkjanir geti "bjargað" þjóðinni. 

"Eitthvað annað" sé vonlaust. 

 


mbl.is Uggandi vegna rammaáætlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af aftökulistanum, - fyrr og nú. Þjórsárfossavirkjun - Búðavirkjun.

Þegar tími vinnst til verður fjallað um afmarkaða virkjanakosti hér á bloggsíðunni, tekinn í dag einn kostur sem nú er lagt til að fari í verndarflokk og annar kostur, sem lagt er til að fari í virkjanaflokk. Og svipað gert síðar. Dynkur_minni_texti-stor

Ég nota þessi tvö orð, virkjanaflokk og verndarflokk um mismunandi nýtingu, orkunýtingu og verndarnýtingu í stað hlutdrægrar orðanotkunar í formi þess að stilla upp nýtingarflokki og verndarflokki sem andstæðum hvað nýtingu varðar.  

Nýlega var fjallað hér á síðunni um virkjun Skjálfandafljóts með því að sökkva Krókdal.

En nú verður tæpt á Þjórsárfossavirkjun (Kjalölduveita) og Búðafossvirkjun (Holtavirkjun) . Búðafoss í Þjórsá

Efsta myndin á síðunni er af fossinum Dynk í Efri-Þjórsá. Hann er einn af þremur stórfossum, sem allt fram á þennan dag hefur verið ætlunin að þurrka upp í virkjunum undir dulnefnunum Norðlingaölduveita og nú síðast Kjalölduveita.

En aldrei hefur staðið til að virkja Norðlingaöldu né Kjalöldu, heldur Þjórsárfossana þrjá, og því hefði virkjunin átt að heita Þjórsárfossavirkjun á sama hátt og Urriðafossvirkjun heitir nafni fossins sem virkja á.thjorsa_regnbogi_ss

En svona hefur nú notkun orða breyst á 100 árum. Fyrir öld var sagður sannleikurinn í nafninu Urriðafossvirkjun, en nú hefur raunverulegur tilgangur verið falinn með marklausum heitum.

Í bili eru Dynkur, Gljúfurleitafoss og Kjálkaversfoss ekki á aftökulistanum.  Tveir þeir fyrstnefndu eru álíka stórir að umfangi, afli og hæð og Gullfoss, en hafa þegar verið rændir um 40% af afli sínu með Kvíslaveitu.

Með óskertu vatni er Dynkur að mínu mati flottasti stórfoss landsins.

En Neðri-Þjórsá er enn öll á aftökulistanum með þrjár fyrirhugaðar virkjanir.

Hin svonefnda Holtavirkjun á að verða 73 megavött að afli og valda miklum breytingum á svæðinu við Árnes sem tvær neðstu myndirnar eru teknar á.

Að sjálfsögðu ætti þessi virkjun að vera kennd við vatnsfallið sjálft eða hluta úr því, til dæmis fossinn Búða eða Búðafoss og vera allt eins kölluð Búðavirkjun eða Búðafossvirkjun en ekki Holtavirkjun, því að það á ekki að fara að virkja nein holt heldur vatnsfall.

Við Íslendingar erum enn sem fyrr meira en fimmtán árum á eftir Norðmönnum hvað varðar virkjanamál. Árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik, þáverandi forsætisráðherra, yfir því að tími nýrra stórra virkjana í Noregi væri liðinn.

Og þar með tími nýrra stórra virkjana á Norðurlöndu liðinni, - nema á Íslandi.  

Eiga Norðmenn þó álíka mikið vatnsafl í teravattsstundum óvirkjað og Íslendingar.   

 


mbl.is Einhugur ríkti um niðurstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki verri áföll en þeir hafa vanist.

Dagur Sigurðsson og Alfreð Gíslason hafa sýnt það á ferli sínum, að það sem kalla má "áföll" og "vondar fréttir" fyrir flesta þjálfara, eflir þá aðeins og lið´þeirra þar með.

Allir voru búnir að afskrifa Dag fyrir síðasta EM vegna eindæma forfalla í liði hans.

Þau voru svo mikil að talað var um að hann stæði uppi með b-lið sem engum árangri myndi ná.

Annað kom á daginn (Daginn). "Unglingaliðið", "varaliðið", "b-liðið" stóð að lokum uppi sem Evrópumeistari.

Langur ferill Alfreðs er líka varðaður áföllum, sem hann hefur staðið af sér.

Sannur meistari en nefnilega sá sem kann að vinna úr ósigrum og áföllum.


mbl.is Áfall fyrir Dag og Alfreð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband