Munurinn á 2009 og 2016: Fjártjón.

Mikil og vaxandi reiði vegna margfalt meira fjárhagstjóns margfalt fleira fólks en nokkru sinni í sögu landsins, olli mestu um það hve öldur risu hátt veturinn 2008-2009 svo að heil ríkisstjórn féll og stjórnarandstaðan tók við.

Enn fleira fólk kom á mótmælafundinn á Austurvelli fyrir rúmri viku en á nokkurn fund í Búsáhaldabyltingunni, fundir hennar voru miklu fleiri og með jafnari aðsókn en nú.

Núna telja að vísu margir að ríkisstjórnin hafi hlunnfarið aldraða og öryrkja og hyglað efnafólki auk þess sem unga fólkið hefur orðið útundan.

Siðrof, sem mikið er talað um, er að vísu jafn mikiið nú og 2008, raunar framhald á sama siðrofi, en það eru ekki eins margir sem hafa beinlínis tapað jafn miklu fjárhagslega og 2008-2009.

Þess vegna verða ekki kosningar fyrr en í haust, þrýstingurinn á það er ekki eins mikill og fyrir sjö árum.

En jafnvel þótt kosningar verði ekki fyrr en í október, verða þá liðnir sex mánuðir frá birtingu Panamaskjalanna, en það liðu fjórir mánuðir frá Hruninu til valdatöku Jóhönnustjórnarinnar, og alls liðu rúmlega sex mánuðir frá Hruninu til kosninga.


mbl.is „Ríkisstjórnin stendur sterk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaust álitamál.

Skógrækt er eitt af helstu verkefnum þjóðar, sem býr í landi einhverrar verstu gróður- og jarðvegseyðingar sem finnst í nokkru landi.

Af nógu er að taka í verkefnum uppgræðslu á Íslandi og eitthvert sjálfsagðasta mál, sem hægt er að hugsa sér, að minnst sé á það í stjórnarskrár slíks lands.

En stjórnarskrárnefnd hefur fellt ákvæði um það úr textanum í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Vegna þess hve mikið verk er óunnið í landgræðslu og skógrækt á Íslandi mætti ætla að gróðursetning hvers kyns gróðurs og trjáa ætti rétt á sér hvar sem er.

En um það má deila.

Það er til dæmis vandséð hvort brýna nauðsyn bar til þess að gróðursetja há barrtré í gígnum Sandey úti í miðju Þingvallavatni.

Eitt fallegasta náttúrufyrirbærið í miðju Borgarfjarðarhéraði eru klettabelti og klettaröðlar, sem gefa landinu ævintýralegan blæ þegar sól er lágt á lofti.

Nú má sjá á nokkrum stöðum skógrækt upp við þessi klettabelti sem mun kaffæra þau með tímanum.

Á svæðinu í kringum Hvaleyrarvatn og Hvaleyrarholt suður af Hafnarfirði getur að líta einn glæsilegasta árangur skógræktar og landgræðslu á landinu.

En í nyrsta hluta Undirhlíða hefur þó verið gengið of langt að mínu mati, þegar sett var þar niður þráðbein girðing á ská niður syðri hluta Sandfellsins og er skógur sunnan við en ekki norðan við.

Þessi þráðbeina og áberandi reglustikulína er í æpandi mótsögn við ósnortna ásýnd þessa magnaða svæðis.

Hæð trjáa skiptir máli.

Þar sem ég átti heima á fyrsta áratug aldarinnar var plantað öspum á lóðamörkum tveggja íbúðablokka.

Á þessum tíu árum urðu þessar aspir svo háar að þær byrgja nú fyrir allt útsýni úr þessari blokk sem ég átti heima í, yfir austurborgina.

Alveg hefði verið hægt að ná sama árangri og jafnvel betri með gróðursetningu lægri trjáa sem hefðu haft sitt mesta laufskrúð neðar þar sem hefta þurfti vind og skafrenning á veturna.

Hvert gróðursetningarmál er að sjálfsögðu mál útaf fyrir sig.

Ákveðið stjórnleysi ríkir enn í þessum málum.

Það er tíl dæmis ákveðin mótsögn í því að yfirleitt þarf ekkert leyfi eða samráð þarf til að hefja rækt á hvaða trjátegund sem er, en hins vegar að sjálfsögðu leyfi eða samráð til að höggva tré eða skóg.  

  


mbl.is Nágranni felldi tré í óþökk eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílbeltaleysið hefur kostað á annað hundrað mannslíf.

Á þeim áratugum sem liðið hafa síðan tekin var upp skylda til að vera í bílbeltum hafa á annað hundrað manns látist vegna þess að þeir hafa ekki notað beltin.

Að meðaltali hafa þetta verið um 4-5 á ári eða 40-50 á hverjum áratug.

Slysið á Laxárdalsheiði er dæmi um alvarlega áverka sem hlotist hafa að því að vera ekki í beltum, og líklega er þar um að ræða um enn fleiri slasaða og örkumla en látna.  


mbl.is Kastaðist úr aftursæti bílsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband