Næstum eins og að syngja "....það er kominn sautjándi apríl".

Það getur komið fyrir alla að mismæla sig á þann hátt að sá, sem mismælir sig, tekur ekki eftir því og jafnvel ekki þeir sem hlusta á hann.

Gaman hefði verið ef Trump hefði sagt 10-11 í stað 7-eleven því að þá hefðu verslanir með því nafni hér á landi fengið auglýsingu, að vísu í fréttum frá útlöndum.

Það er tveggja mánaða munur á 9-eleven og 7-eleven, þannig að þetta samsvarar því hér á landi að syngja: "Hæ, hó, jibbíæ og jibbíæei, það er kominn sautjándi apríl."


mbl.is Trump minntist atburða 7/11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasamur tími fyrir skoðanakönnun.

3. apríl síðastliðinn sat þjóðin sem lömuð fyrir framan sjónvarpið og horfði á þáttinn um Panamaskjölin.

4. apríl er stjórnmálalífið í uppnámi, Bjarni Ben á Flórída, og þá hefst skoðanakönnun MMR.

5. apríl fer SDG sneypuför á Bessastaði, Ólafur Ragnar gerir hann afturreka, heldur einstæðan blaðamannafund þá þegar og leggur fyrir módelið að ríkisstjórn undir forsæti nýs forsætisráðherra. Þetta er seinni dagur skoðanakönnunar MMR.

Allt of mikið er á öðrum endanum og allt of hraðar breytingar dagana 4. - 5. apríl til þess að hægt sé að taka mikið mark á fylgi flokka í skoðanakönnun þessa daga.

En ljóst er að fumlaus, hárrétt og snör viðbrögð forsetans stórjuku ánægju með störf hans síðdegis 5. apríl.  


mbl.is 60% ánægð með Ólaf Ragnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1968 og 1980, ár umróts og óvissu.

Leitun er að ári annarrar eins óvissu í stjórnmálum hér á landi og alls staðar í kringum okkur og árinu 1968. Heil kynslóð er kennd við það ár bæði hér á landi og erlendis.

Í Bandaríkjunum voru Martin Luther King og Robert Kennedy skotnir og borgir landsins loguðu í bókstaflegri merkingu vegna óeirða og uppþota hjá þjóð, sem var klofin í herðar niður, bæði vegna mesta kynslóðarbils sögunnar og vegna Víetnamstríðsins.

Johnson forseti hrökklaðist úr embætti.

Þessi órói teygði sig um allan heim, svo sem til Frakklands, þar sem sjálfur De Gaulle riðaði til falls.

Hér heima var djúp efnahagskreppa vegna hvarfs síldarinnar og verðfalls á fiskmörkuðum. Gengi krónunnar hafði verið fellt tvisvar árið áður og brostinn á fólksflótti til Svíþjóðar.

Óeirðir og átök lögreglu og uppreisnargjarnra ungra róttæklinga voru tíð.

Í öllu þessu einstæða umróti ákvað farsæll forseti, Ásgeir Ásgeirsson, að stíga til hliðar eftir 16 ára setu á Bessastöðum og gefa nýjum mönnum tækifæri til að taka við.

Ef Kristján Eldjárn hefði ekki verið orðinn nokkuð þekktur fyrir þátt sinn "Muni og minjar" í Sjónvarpinu hefði varla nokkur Íslendingur vitað neitt um manninn.

Við tók farsæll forsetaferill hans. "Þetta fór allt einhvern veginn á endanum, þótt margir hefðu efast um það fyrirfram" eins og Nóbelskáldið orðaði slíka hluti.

Í árslok 1980 ákvað Kristján að stíga til hliðar eftir 12 ára setu með þeim orðum að enginn væri ómissandi.

Þegar hann sagði þetta í nýjársávarpi ríkti meiri upplausn í íslenskum stjórnmálum en dæmi höfðu verið um í áratugi og dæmi hafa verið um í allri lýðveldissögunni.  Nýafstaðnar voru tvennar kosningar á rúmu ári á tíma ríkissjórnar þar sem hver höndin var uppi á móti annarri og stjórnin óstjórnhæf, en stjórnin hafði verið barin saman með harmkvælum eftir eitt mesta verkfalla- og átakaár sögunnar.

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat til bráðabirgða en alvarlegasta stjórnarkreppa síðan 1950 var í landinu og engin lausn í sjónmáli. Forsetinn hótaði að skipa utanþingsstjórn.

Í landinu hafði verið óðviðráðanleg óðaverðbólga, sem á árunum 1978-83 var sú lang, lang mesta sem þekkst hefur í sögu landsins.

Samt ákvað þessi farsæli og merki forseti að gefa nýju fólki færi á að taka við.

Og aftur fór þetta allt einhvern veginn á endanum, þótt margir hefðu efast um það fyrirfram.  


mbl.is „Hlýtur að vera svona einstakur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband