Ákvæðin í frumvarpi stjórnlagaráðs voru og eru skýr.

Stjórnlagaráð velti í upphafi starfs alls konar möguleikum varðandi þann sem gengdi embætti þjóðhöfðingja Íslands, því að í alþjóðlegum samskiptum er alltaf einhver ein persóna, sem verður að vera fulltrúi hverrar þjóðar, jafnvel þótt ekkert formlegt embætti þess efni sé til, heldur reglur um tilflutning hlutverksins eftir atvikum.

Velt var upp hugmyndum allt frá forsetaræði eins og í Bandaríkjunum og Frakklandi til þess að ekkert formlegt forsetaembætti væri.

Niðurstaðan var sú að hafa í huga það sem best hefði dugað hjá nágrannaþjóðum okkar og að þrátt fyrir ákvæði um þá meginreglu að þjóðinni yrði fengið beint vald í þjóðaratkvæðagreiðslum eftir ákvæðum þar að lútandi, gæti forseti gripið inn í í algerum undartekningartilfellum, þar sem aðstæður væru þannig, að ekki gæfist tími til eða aðstaða til að halda þjóðaratkvæðagreiðslur.

Tvö önnur atriði voru skýr í frumvarpinu: Hámarkstími sem forseti mætti sitja og það að nota STV-útfærslu í forsetakosningum, líkt og í Írlandi, Ástralíu og víðar, en sú regla tryggir að forseti fái meirihluta atkvæða.

Persónulega hefði ég talið að tólf ár væru hæfilegur hámarkstími í embætti, en niðurstaðan varð átta ár.

Nú í sumar eru fimm ár síðan þessar tillögur koma fram og enn virðist víðs fjarri að það sé vilji til að breyta þeim, frekar en flestu öðru í okkar gölluðu stjórnarskrá, sem er stanslaust að koma okkur í koll en valdaelíta landsins mærir sífellt.

Að lokumm er rétt að geta þess að Uhro Kekkonen sat sem lýðræðislega kjörinn forseti Finnlands frá 1956-82 eða í 26 ár, en í Reykjavíkurbréfi í dag er fullyrt að enginn lýðræðiskjörinn forseti hafi setið jafn lengi í embætti og Ólafur Ragnar Grímsson, og hefur hver étið þetta upp eftir öðrum dögum saman.

Hitt er rétt að Kekkonen hefur verið einsdæm hvað þetta varðar meðal forseta í raunverulegum lýðræðisríkjum.


mbl.is Sameinar ekki, heldur sundrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steypustöð og sand- og malarvinnsla við miðborg Lundúna?

Það þarf ekki neinn borgarskipulagsfræðing til að sjá, þegar litið er á yfirlitskort yfir höfuðborgarsvæðið, að Ártúnshöfðahverfið liggur nálægt stærstu krossgötum landsins þar sem leiðir skerast, sem liggja annars vegar milli Vestur-Norðurlands og Suðurnesja, og hins vegar milli Seltjarnarness, sem Reykjavík stendur á, og Suður-Austurlands.

Aðeins 2-3 kílómetra vestur frá Ártúnshöfðahverfinu liggur þungamiðja íbúða og fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Ártúnshöfðinn er að sönnu afar heppilegt stæði fyrir malar- og sandnám af flestu tagi, og þaulsætni fyrirtækja í slíkri starfsemi hefur helgast af því fram að þessu, en augljóst er, að fyrr eða síðar verður að finna slíku annan stað, því að möguleikarnir fyrir því að þétta og gera skilvirkari samsetningu byggðar á höfuðborgarsvæðinu er svo miklir og vaxandi á þessu verðmæta miðjusvæði.


mbl.is Flytur Björgun á árinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útklippta setningin, sem var það merkilegasta þegar upp var staðið.

Í Alþingiskosningunum 1978 áttu allir von á því að Alþýðubandalagið myndi endurtaka leikinn frá í borgarstjórnarkosningum á undan og verða næst stærsti þingflokkurinn, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Það yrðu söguleg straumhvörf.  

Úrslitin urðu söguleg, báðir stjórnarflokkarnir stórtöpuðu, einkum Framsókn, sem fékk minnst fylgi, 12 þingmenn, en öllum á óvart fengu Kratar jafn marga þingmenn og Allaballar, 14.

En sigurinn var engu að síður mikill fyrir A-flokkana og nánast óhjákvæmilegt að þeir færu saman í stjórn.

Þegar Helgi E. Helgason fréttamaður byrjaði að taka viðtal við Guðmund J. Guðmundsson niðri við höfn daginn eftir kosningarnar, var jakinn afar niðursokkinn í hugsanir sínar, tók í nefið, horfði á Esjuna og tóbaksdósina til skiptis og muldraði eitthvað.

Helgi mundaði hlóðnemann, myndavélin fór í gang og Helgi spurði jakann hvað hann hefði að segja um úrslitin, einmitt þegar jakinn var að horfa á Esjuna, þurrkaði sér um nefið með tóbaksklútnum, setti hann í vasann, horfði síðan aftur á Esjuna og stundi loks og sagði stundarhátt: "Þurftu helvítin endilega að fá fjórtán!"

Helgi hafði tvístigið fram að þessu en áttaði sig nú fyrst á því nú, að jakinn var enn að tala við sjálfan sig, því að orð hans voru augljóslega ekki ætluð fyrir sjónvarpsviðtal.

Hann ræskti sig vandræðalega, og gekk alveg að Guðmundi til þess að að gera honum ljóst að myndavélin væri byrjuð að rúlla.

Þá fyrst áttaði jakinn sig á stöðunni, spurningin var endurtekin og svarið, sem birtist þjóðinni um kvöldið, svaraði nákvæmlega engu og enginn man eftir því svari.

En við hlógum mikið uppi á fréttastofu við að horfa á þessa neyðarlegu uppákomu áður en setningin var klippt út.

En í ljós kom, að orð Guðmundar, sem aldrei voru notuð, voru í raun stórmerkileg, því að þau lýstu svo vel ástandinu sem ríkti á milli A-flokkanna.

Hvorugur gat unnt hinum að hafa forystu um stjórnarmyndun, svo að Óli Jó, formaður flokksins sem mestu tapaði, varð að mynda vinstri stjórn sem sat ekki nema í rúmt ár vegna ósamkomulags, - var í raun óstarfhæf vegna rígsinsins sem ríkti á milli flokkanna.

Að því leyti var setning Guðmundar jaka bæði lýsing á þessu ástandi, sem enginn þorði að minnast á, og ekki síður forspá um það sem gerast myndi, það langmerkilegasta sem sagt var þetta ár, að stjórnin myndi springa á mettíma.  


mbl.is Sjáðu senuna sem klippt var út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband