Þetta gerði Þórunn Jóhannsdóttir aldrei opinberlega.

Fyrir um 60 árum áttu Íslendingar kornungan píanósnilling, undrabarn að nafni Þórunn Jóhannsdóttir. Hún bar hróður landsins út fyrir landsteinana, ekki síst þegar hún giftist öðru undrabarni, Wladimi Ashkenazy, sem var orðinn að einum fremsta píanósnillingi heims á sjötta áratugnum.

Á endanum gerði Ashkenazy íslenskur ríkisborgari og beitt sér fyrir stofnun listahátíðar í Reykjavík.

Þórunn átti sín glansnúmer við píanóið sem hrifu áheyrendur, en ekki held ég að vitað sé til þess að hún hafi spilað á bakinu aftur fyrir sig á píanóstólnum.

Nú er spurningin hvort Ásta Dóra Finnsdóttir muni í fyllingu tímans hitta píanóleikara í fremstu röð og giftast honum líkt og Þórunn gerði.

Á sínum tíma varð það að heimspólitísku máli þegar Ashkenazy flúði land, en nú hafa netið og breytt alþjóðlegt umhverfi gert ólíklegt að jafn mikið stórmál gæti orðið úr hugsanlegan ráðahag Ástu Dóru Finnsdóttur í framtíðinni og ráðahag Þórunnar Jóhannsdóttur 1961.


mbl.is Ein og hálf milljón áhorf í Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga jarðgöng að ráða því hvenær kosið er?

Nú þegar er byrjað að koma því svo fyrir að loforðið um kosningar í haust verið ekki efnt.

Að minnsta kosti er ekki hægt að finna annað út úr því að Ásmundur Einar Daðason segir, að það verði að fresta þessum lofuðu kosningum, því að annars verði ekki hægt að byrja á Dýrafjarðargöngum á tilsettum tíma.

Sem sagt: Annað hvort kosningar og ekki Dýrafjarðargöng eða göngin og ekki kosningar.

Talað er eins og að Alþingi hafi ekki fjárveitingavald, vald, sem hefur verið notað til þess að fresta Dýrafjarðargöngum í áratugi og halda Vestfjörðum, einum landshluta, á svipuðu stigi í samgöngum og fyrir meira en hálfri öld.  


mbl.is Dónaskapur gagnvart þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40 ára lærdómur af Víetnamstríðinu? Of lítið. Of seint.

Bandaríkjamenn voru með 550 þúsund hermenn í Víetnam þegar flest var. Varpað var fleiri tonnumm af sprengjum á þetta fátæka land en varpað var samanlagt í Seinni heimsstyrjöldinni.

Fyrir hvern Bandaríkjamann sem féll í stríðinu féllu tugir Víetnama.

Samt töpuðu Kanarnnir stríðinu. Forsendurnar fyrir því, að öll Suðaustur-Asía myndi falla eins og í dómínóspili ef Vietnam tapaðist, voru rangar.

Ætla mætti að einhver lærdómur hefði verið dreginn af stríðinu, bæði af Bandaríkjamönnum og Rússum, fyrir 40 árum.

En svo var ekki. Rússar sendu her inn í Afganistan 1979, sem hrökklaðist þaðan eftir sneypuför 1985. George W. Bush sendi her inn í Írak 2003 og Kanar voru með puttana í að steypa Gaddafi í Líbíu og Assad í Sýrlandi, og þetta þrennt hefur leitt af sér verra ástand í þessum heimshluta en fyrr, dæmalausan flóttamannastraum til Evrópu og vaxandi hryðjuverkaógnar.


mbl.is Útilokar landhernað í Sýrlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því beinni nýting sólarorkunnar, því betra.

Doktor Bragi Árnason, sem hlaut heimsfrægð fyrir það á sínum tíma að benda fyrstur manna á möguleikana á því að nota vetni sem orkubera, varð sannspár hvað það snerti að einhverjir fengju trú á þessu.

Hjá Toyota er fyrsti vetnisknúði bíllinn kominn á markaðinn, og vetnisgeymar hafa þann kost fram yfir rafgeyma, að drægi bílsins er meira.

Þetta er bara byrjunin. Toyota ætlar að halda áfram á þessari braut og fleiri bílaframleiðendur eru við startholurnar.

Fyrir rúmu áratug spáði doktor Bragi því að bein nýting sólarorku hlyti að verða hin endanlega aðferð við orkuframleiðslu.

Afar rökrétt, því að allar jarðefnaorkulindir jarðar voru í upphafi kveiktar með sólarljósi.

Framfarir í nýtingu sólarorkunnar eru mjög miklar og ef sú orkulind verður ofan á, verða þær þjóðir ofaná sem búa næst miðbaug.

Raunar sömu þjóðirnar og eiga stærstu olíulindirnar af þeirri einföldu ástæðu, að á þeirri breiddargráðu bjó sólarorkan til mesta gróðurinn sem síðar lenti undir jarðlögum.   


mbl.is Rafhlöður þekja vegina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband