Mikill er máttur "hins helsjúka RÚV."

Hátt hefur verið hrópað hér á blogginu í dag um "hið helsjúka RÚV" sem beri eitt ábyrgð á atburðarásinni að undanförnu sem tengst hefur aflandsfélögunum.

Fyrir þann og þá, sem þessu hafa haldið fram, verður líklega auðvelt að sýna fram á hvernig "hið helsjúka RÚV" gat vélað framkvæmdastjóra alþjóðlegra samtaka gegn spillingu þannig að hann varð líka helsjúkur.

Mikill er máttur hins helsjúka RÚV.     


mbl.is Tími leyndarinnar liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórverkefni í rannsóknarblaðamennsku: Aflandsfélögin.

Framundan er eitt stærsta verkefni íslenskrar og alþjóðlegrar rannsóknarblaðamennsku á síðari árum: Aflandsfélögin, eðli þeirra, umfang og áhrif á efnahagsmál og stjórnmál.

Um leið og listar og upplýsingar birtast um þessi félög og eigendur þeirra, sem og þau fyrirtæki og lönd, sem halda þessari starfsemi í gangi, keppast eigendur reikninganna við að fullyrða að í þeirra tilfelli sé allt eðlilegt, enginn ágóði af tengslunum, allt löglegt.

Eftir situr samt spurningin: Fyrst það skiptir ekki máli, hvorki nú né fyrr, hvort fólk, fyrirtæki og stofnanir stofna aflandsfélög fyrir umsvif sín, af hverju gerði það þetta og gerir enn?

Nú segir Gylfi Magnússon að ekki séu öll aflandsfélög slæm þótt meirihluti þeirra sé það.

Hvernig leggur hann og hvernig leggja aðrir dóm á það í hverju tilfelli?

Gylfi segir að aflandsfélögin hafi gert efnahagslífið helsjúkt. Guðrún Johnsen segir að þau hafi skapað skaðleg ruðningsáhrif sem ryðji burt eðlilegu efnahagslífi.

Ef þetta er rétt hlýtur að þurfa að skoða öll þessi mál miklu nánar. Hér er ekki aðeins heilbrigði efnahagslífs í húfi heldur einnig misrétti meðal þjóðarinnar.

Hluti hennar hefur allt sitt alltaf á hreinu: Stundar viðskipti í erlendum gjaldmiðli í gegnum fyrirtæki í þeirra eigu erlendis sem gefur ekki aðeins möguleika á undanskotum frá sköttum með bókhaldsbrellum, heldur gulltryggir auðinn gagnvart hættunni af gengisfalli krónunnar.

Ef krónan fellur, eins og 2008-2009, heldur þessi forréttindahópur öllu sínu á sama tíma og almenningur í krónuhagkerfinu íslenska verður fyrir stórfelldu eignatjóni.

Og ekki bara það: Forréttindahópurinn og áhangendur þeirra hælist um og mærir krónuna fyrir að "bjarga" íslenska hagkerfinu.

Og björgunin felst meðal annars í því að gengisfelling krónunnar bitnar samstundis á almenningi í formi stórhækkaðs verðlags á erlendum nauðsynjum.


mbl.is Ekki öll aflandsfélög slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Íslendingum var fjölgað uppi á sviði á sveitaböllunum.

Það kom nokkrum sinnum fyrir á þeim meira en þúsund sveitaböllum, sem ég skemmti á hér í gamla daga, að húsin voru svo troðfull, að nánast hvað sem var, gat gerst, bæði i salnum og jafnvel uppi á sviðinu, þétt upp við hljómsveitarmennina.

Einnig fundust stundum afkimar og skot til hliðar sem lagið fólk gat nýtt sér svo lítið bar á.

Gat hið ástþyrsta ungviði oft komist óátalið og að mestu óséð upp með athæfi sem gat stuðlað að "uppbyggingu" íslenska kynstofnsins, enda minnist ég þess ekki að neitt mál hafi orðið úr þessu, - ja fyrr en níu mánuðum seinna.

Það var því af nógu að taka í lýsingunni í laginu Sveitaballi, svo sem:

"...Sveitaball,

öll kvennagullin elska sveitaball,

því næði gefst þeim til að gramsa þar

og kjamsa þar

á kjömmunum, -

jafnvel á ömmunum..."


mbl.is Stunduðu kynlíf á brautarpallinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í tveggja póla forsetakosningar?

Línur virðast nú skýrast hratt í kosningabaráttunni um Bessastaði. Annars vegar birtist mjög sterk staða Ólafs Ragnars Grímssonar sem byggist á því að hann hefur verið mjög aðsópsmikill forseti og glæsilegur og þarfur fulltrúi landsins á erlendum vettvangi.

Í loftslagsmálum og málefnum Norðurslóða hefur hann unnið firnagott starf.

Hann hefur verið nokkurs konar Kekkonen Íslands, en Kekkonen var forseti Finna í 26 ár.

Þegar mikið lá við í Icesave-málinu komu málflutningur Ólafs Ragnars og aðgerðir sér vel, þegar höfuðnauðsyn var fyrir okkur að vinna tíma og snúa okkur í vil herfilega slæmu viðhorfi nágrannaþjóðanna til okkar. 

En líkt og Kekkonen er Ólafur ekki óumdeildur. Þegar fram líða stundir mun menn sjá að lang stærstu mistök hans voru að beita sér ekki í Kárahnjúkamálinu, þar sem framin voru verstu óafturkræfu spjöll á íslenskri náttúru sem möguleg voru. (Sjá niðurstöðu 1. áfanga rammaáætlunar).

Þau mistök mun bitna á öllum þeim milljónum manna, sem eiga eftir að byggja þetta land.

Eins og aðrir íslenskir ráðamenn mærir forsetinn einhliða "hreina og endurnýjanlega íslenska orku", en stórlega skortir á að svo sé þegar að er gætt. Slíkar alhæfingar byggðar á rangfærslum eiga eftir að koma okkur í koll.

Og forsetinn rígheldur í stjórnarskrá, sem í öllum meginatriðum er samin fyrir danskan konung 1849 til að friða hann með því að hafa fyrstu 30 greinarnar um hann sjálfan.

Í stað þess að Íslendingar fengju að semja nýja stjórnarskrá fyrir sig á Þjóðfundinum 1851 riftu Danir fundinum og þröngvuðu stjórnarskrá úr danska kansellíinu upp á Íslendinga 1874.

Með því að skipta út Danakonungi og íslenskum forseta 1944 var líf þeirrar stjórnarskrár framlengt með hátíðlegu loforði forystumanna íslensku flokkanna um að semja loks þá stjórnarskrá sem til hafði staðið að gera á Þjóðfundinum 1851.

Eftir árangurslausar tilraunir nefnda flokkshesta var loks haldinn þjóðfundur 2009, á grundvelli niðurstaðna hans unnið gríðarmikið starf í sérstakri stjórnlaganefnd og loks samin ný og framsækin, en þó klassísk norræn stjórnarskrá 2011, byggð á því besta sem sjá mátti í stjórnarskrám Norðurlanda og þjóða Norður-Evrópu sem yfirgnæfandi meirihluti var fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.

Íslenska elítan og valdastéttin hafa afflutt þessa stjórnarskrá einhliða í síbylju án raka.

Nú er að líða fram á 21. öldina með nýjum krefjandi viðfangsefnum okkar og annarra þjóða heims.

Tveir frambjóðendur hafa nú fylgi 82% svaremda í skoðanakönnun. Ólafur Ragnar og Andri Snær Magnason eru sammála um margt, svo sem loftslagsmál, mál norðurslóða og alþjóðlega samvinnu.

En þá greinir áberandi á um stjórnarskrármálið og sýn Andra Snæs á gildi og mikilvægi íslenskrar náttúru er mun skarpari.

Almennt séð eru meginlínurnar hjá Andra Snæ ákall nýrrar aldar á nýja og skarpari framtíðarsýn.

Því fyrr, sem þessi óhjákvæmilegu sjónarmið verða sett í forgang því betra, burtséð frá því hvernig þessar forsetakosningar fara. Ólafur Ragnar mun hvort eð er ekki geta setið mikið lengur en Kekkonen gerði á sínum tíma, og þegar tími Kekkonens var liðinn, sáu menn, að það breytti litlu um það að Finnar gætu spjarað sig án hans.   


mbl.is Frambjóðendur bjartsýnir á framhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bensínvélin tók kipp.

Fyrir um áratug leit út fyrir að dísilhreyfillinn væri að sigla endanlega fram úr bensínhreyflinum, jafnvel þótt dísilhreyfillinn væri bæði dýrari og þyngri.

Ástæðan var meiri ending dísilhreyfilsins, mun minni eyðsla, einkum í köldu loftslagi og mun minni útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Einnig hafði stórbætt forþjöppu- og innspýtingartækni gefið færi á að kreista tvöfalt meira afl út úr dísilhreyflum en áður.

En í lítt áberandi viðtali við helsta vélahönnuð Fiat-verksmiðjanna árið 2003 sagði hann, að það væri hvergi nærri búið að fá það út úr bensínhreyflinum, sem mögulegt væri, og að eftir nokkur ár myndi það koma í ljós.

Og það gerðist 2007 þegar Fiat Twin-air vélin var kynnt með stórbættri ventlastjórnun, innspýtingu og forþjöpputækni.

Þarna kom í ljós að með því að beita sömu ítrusu aðferðum og gert hafði verið á dísilhreyflinum, átti bensínhreyfillinn heilmikið inni enn.

Þetta var aðeins tveggja strokka 875 cc vél en afkastaði allt að 105 hestöflum, eða 120 hestöflum á litra rúmtaks, sem var næstum tvöföldun afls miðað við rúmtak.

Vélin varð margverðlaunuð og nokkrum árum síðar kom Ford með margverðlaunaða Ecoboost vélina sem afkastar allt að 125 hestöflum á 999 cc þriggja strokka vél.

Í þéttbýlu borgarsamfélagi Evrópu hafa efni í sótögnum og öðrum útblæstri dísilvéla valdið vaxandi áhyggjum, en líklega þarf ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því hér á landi.

Nýju bensínvélarnar hafa enn ekki orðið jafnokar bestu dísilvélanna í sparneytni í köldu loftslagi, en kuldinn, einkum á veturna, virðis hafa meiri neikvæð áhrif á eyðslu bensínvéla en dísilvéla.

Hlutfall dísilvéla í bílaflotanum hér er mun lægra en í nágrannalöndunum og dísilhreyfillinn kemur betur út í bílum, sem mikið er ekið, heldur en bensínhreyfillinn.

Þess vegna er þetta allt saman bara á ágætu róli hjá okkur.  


mbl.is Snúa baki við dísilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband