"Refskák stjórnmálanna" á fullu. Dugar hún?

Gamalkunnir hrókeringatilburðir sem nú eru viðhafðir með því að skipta út Sigmundi Davíð og Sigurði Inga í forsætisráðherraembættinu, geta varla orðið endapunktur á því óhjákvæmilega uppgjöri í íslenskum stjórnmálum sem verður að fara fram og hlýtur vonandi að fara fram. 

Þvert á móti eru þessar kúnstir til þess fallnar að rýra enn frekar traust á íslenskum stjórnmálamönnum en orðið er, og var þó ekki af miklu að taka. 


mbl.is Sigurður Ingi taki við af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara byrjunin.

Panamaskjölin eru yfirgengilega viðamikil. Ormagryfja. Kona situr þar í stjórn félags og skrifar upp á skjöl í átta ár eftir að hún er steindauð. 

Einn er stjórnarmaður í 10 þúsund fyrirtækjum. 

Það mun taka langan tíma að vinna úr þessum skjölum sem sumir stuðningsmenn SDG hér á blogginu telja uppspuna og þar með að nær allir fjölmiðlar heimsins fari með staðleysur. 

Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þorsteinsson hafa gefið fordæmi um viðbrögð við upplýsingunum og nú, þegar þetta er párað, ætlar Sigmundur Davíð að segja af sér sem forsætisráðherra, en halda áfram sem formaður flokksins. 

Ætlunin virðist að reyna svipaðar hrókeringar og í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn síðustu árin fyrir kosningarnar 2007, berja í brestina og rembast við að halda stjórninni á floti. 

Ef SDG heldur að við það eitt verði unað að hafa mannaskipti í einu embætti áttar hann sig ekki á því að þetta er bara byrjunin en ekki endirinn á að því að vinda ofan af þeim tröllauknu málum, sem nú eru uppi í kjölfar Panamaskjalanna.  


mbl.is Júlíus Vífill segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einleikur, - hefur málað sig út í horn.

Í dag höfum við verið vitni að einstæðum einleik forsætisráðherra sem rúinn öllu trausti bæði hér á landi og um allan heim, gerir ekki svo lítið að ræða við eigin þingflokk né heldur samstarfsflokksins áður en hann hyggst beita ímynduðu valdi sínu algerlega upp á eigin spýtur til að berja bæði þessa þingflokka til hlýðni, heldur krefst þess af forseta Íslands að hann samþykki þennan einleik. 

Þingflokkarnir og forsetinn frétta af fyrirætlunum á facebook síðu SDG. 

Hann kemur á fund forsetann með ekkert í höndunum nema þann einbeitta vilja að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Margfalt og langvarandi vanmat hans á stöðu sinni ríður ekki við einteyming og með þessum einleik sínum hefur hann endanlega málað sig út í horn.

 

Hann áttar sig ekki á mismun stöðu hans nú og þeirra Ólafs Jóhannessonar 1974 og Tryggva Þórhallssonar 1931, og því síður á þeirri breytingu sem 24. grein stjórnarskrárinnar olli þegar hún var sett 1991.

Því fer hann verðskuldaða sneypuför til Bessastaða og segir "bless, bless" í útgöngunni.

Allt er þegar þrennt er.

Fyrst gekk hann út úr viðtalinu 11.mars og síðan gekk hann út úr viðtalinu við Ólaf Ragnar með orðunum "bless, bless."

Nú er að fullkomna þrennuna og ganga út úr forsætisráðuneytinu og finna sér önnur störf.    


mbl.is Veitti ekki heimild til þingrofs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki margir", hvorki syðra né nyrðra?

Forsætisráðherra fannst ekki vera margt fólk á Austurvelli í gær þótt lögreglumenn og aðrir segðust aldrei hafa séð annan eins fjölda. 

SDG segir líka að það séu ekki margir á bak við vantraustsyfirlýsingu á hendur honum í Framsóknarfélaginu í langfjölmennasta bæjarfélagi heimakjördæmis hans. 

Heitustu stuðningsmenn hans á blogginu telja að fjöður hafi orðið að hænsnabúi í umfjöllun um mál Sigmundar, sem sé ómerkileg herför á hendur honum. 

Þó fjalla allir helstu fjölmiðlar heims áfram um þetta smáatriði. 

Fólk, sem er annt um að heiður lands og þjóðar verði reistur við, fyllti miðbæinn í gær til að kveðja forsætisráðherra en hann segir ekki einu sinni hafa íhugað að kveðja starf sitt. 

Minnir á gamansöguna af Frankó, einræðisherra Spánar, síðasta ævidag hans, þegar stuðningsmenn hann smöluðu fólki í garðinn fyrir framan herbergið hans, þar sem hann lá í hálfgerðu dái, og lét mannfjöldann hrópa: "Lifi Frankó! Lifi Frankó!" 

Það bráði nóg af Frankó þar sem hann var var að fara yfirum til þess að hann skynjaði þessi hróp og spurði: "Af hverju er fólkið að hrópa þetta?"

"Það er komið til að kveðja þig" var svarað. 

"Og hvert er allt þetta fólk að fara?" spurði Frankó. 

SDG gekk út úr frægu viðtali fyrir þremur og hálfri viku. Hvernig væri að hann færi að íhuga það að ganga út úr islenskum stjórnmálum um sinn? 

Hann er ungur og hefur ýmis ágæt áhugamál sem geta hjálpað honum til að ná áttum og verða þjóð sinni að gagni með því að horfa raunsæjum augum á stöðu sína og vinna úr henni í stað þeirrar firringar, sem meðal annars birtist í því að eiga lögheimili á eyðibýli á hinum enda landsins.

Hvað skyldu erlendir stjórnmálamenn, til dæmis forsætisráðherra Svíþjóðar, segja um það? 


mbl.is Mjög hafi fjarað undan Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband