Ný ormagryfja. Öldurnar verða varla lægðar.

Atburðarás þrungin tilfinningum og óróa í stjórnarflokkunum mun varla stöðvast núna, heldur er alveg óunnið úr þeim vandamálum sem skapast hafa í ólgusjó farsakenndra og dramatískra viðburða síðustu daga.

Á báðum sjónvarpsstöðvunum í kvöld kraumaði áfram sú óánægja og óróleiki sem hefur verið alls ráðandi undanfarna daga, allt frá því að Karl Garðarsson virtist gráti nær yfir því eftir sneypufor SDG á vit forseta Íslands, að forsætisráðherrann hefði anað í pólitíska feigðarför til Bessastaða án þess að tala við þingflokkinn fyrst.

Þá þegar blossaði mikil óánægja upp innan Framsóknarflokksins yfir hrokafullri gagnsókn forsætisráðherrans sem ætlaði sér ekki að hverfa úr stólnum nema að rjúfa ella þing og veifa þingrofshótun framan í allt og alla til að beygja undir vilja sinn.

Nú virðist Sigmundur Davíð til alls líklegur ef miðað má við komandi gagnsókn hans, sem hann boðaði á Stöð 2 í kvöld gegn þeim, sem hann ætlaði að valta yfir, báða þingflokkana og forseta Íslands í ofanálag, og ungu þingmennirnir í báðu stjórnarflokkunum eru sáróánægðir með það hvernig á að spasla yfir brestina í stjórnarliðinu.

Unga fólkið í flokkunum vill hreinsa betur til, helst að halda kosningar sem fyrst, eða að minnsta kosti að víkja formanni og varaformanni Sjallanna til hliðar og því aflandsfélagaóværuna af ríkisstjórninni.

Fróðlegt verður líka að sjá hvort Sigmundi Davíð verður vært á formannsstóli í Framsóknarflokknum.

Framsóknarmenn hafa áður vikið fyrirferðarmiklum formanni frá, sjálfum mesta áhrifavaldi í íslenskum stjórnmálum á síðustu öld, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, sem þrátt fyrir formannssstól sinn var haldið utan við ríkisstjórn allt frá 1931 vegna persónulegra bresta hans.

Varð Jónas þó ekki heimsfrægur að endemum eins og núverandi formaður.


mbl.is Vænir áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins um eiginhagsmunasemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona leikritshandrit skrifa menn ekki !?

Ef einhver rithöfundur hefði skrifað handrit að því sem gerðist frá morgni til síðdegis í fyrradag, hefði vafalaust verið sagt við hann að svona dirfðist enginn að skrifa eða skálda upp, þetta væri of skrautlegt.

Því að það verður að segjast að jafnvel hugmyndaríkustu leikritahöfunar hefðu varla getað stillt upp myndrænni útfærslu á samskiptum helstu ráðamönnum þjóðarinnar en fundinum með Bjarna um morgninum, facabook færslunni og Bessastaðaför SDG við þriðja mann með tilbúnar útfærslur af því hvernig hann hygðist fara í "aflraunir" við Sjálfstæðisþingmenn.

Í viðtali á Stöð 2 í kvöld játar hann að í "töskunni" frægu hafi hann haft fyrirfram tilbúin plögg fyrir forsetann að undirrita, sem innihéldu mismunandi útfærslur eftir því hvernig "aflraunakeppni" hans við þingflokk Sjálfstæðismanna gengi.

Með þessu segist hann hafa verið að vinna sem besta undirbúningsforvinnu til þess að hafa allt klárt eftir því hvernig leikar færu hjá þingflokki Sjálfstæðismanna.

Sigmundur Davíð er sem sé magnaður leikritshöfundur, ekki vantar það.  

Forsetinnn sagði strax eftir fundinn að hann gæti hvorki undirritað neitt né lofað slíku fyrirfram, og er einsdæmi hvernig hann taldi sig knúinn til að verða fyrri til að setja kúrsinn.

Sú spurning vaknar hvort SDG hafi stungið upp á því að forsetinn skrifaði undir báðar/allar útfærslur þingrofsins fyrirfram gegn loforði Sigmundar um að hafa samband við forsetann rétt áður en hann léti vaða.

Og núna rétt áðan gaf SDG ýmislegt í skyn í viðtali á Stöð 2, sem getur gert handritið enn villtara.  


mbl.is Pappakassi notaður fyrir skjöl ríkisráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburðurinn við 1950.

Á útmánuðum 1950 myndaði Steingrímur Steinþórsson ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Steingrímur var Alþingismaður og búnaðarmálastjóri en hvorki formaður né varaformður Framsóknarflokksins.

Undanfari þessarar stjórnarmyndunar var vandræðagangur og hálfgerð stjórnarkreppa eftir að ágreiningur varð um efnahagsráðstafanir í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar sem var samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og glímdi við efnahagskreppu í kjölfar þess að stríðsgróðinn var uppurinn og ár skömmtunar og kjararýrnunar tóku við.

Sjálfstæðismenn vildu leiðrétta gengisskráninguna, sem var kolröng og bitnaði harkalega á sjávarútveginum.

Ekki var vel tekið í það, stjórnin sprakk, og Ólafur Thors myndaði minnihlutastjórn, sem hugðist koma gengislækkun og fleiri ráðstöfunum í gegn.

Þá var samþykkt vantraust á stjórnina og stjórnarkreppa tók við.

Ólafur Thors og Hermann Jónasson, formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem gátu vegna persónulegs trúnaðarbrests ekki hugsað sér að sitja í ríkisstjórn undir forystu annars hvors þeirra, lögðu óformlega til við Svein Björnsson forseta þann möguleika að rjúfa þing og halda kosningar, en forseti taldi það óráð miðað við það hve stutt væri frá síðustu kosningum.

Um þessar þreifingar vitnaðist ekki fyrr en í bókinni um Ólaf. Þetta var ekki gert með því að gera það heyrin kunnugt fyrirfram og þaðan af síður komið undir smásjá fjölmiðla til Bessastaða með tvo háttsetta embættismenn forsætisráðuneytins og öll tilskilin skjöl til að negla þetta á flýttum hádegisfundi.

Sveinn Björnsson hafði myndað utanþingsstjórn 1942-44 þegar ósætti Ólafs og Hermanns hafði gerði ókleyft að mynda þingræðisstjórn og brýndi þá 1950 til að finna lausn.

Gaf líka í skyn að ef stjórnarmyndun drægist úr hömlu kynni hann að mynda utanþingsstjórn aftur.

Lausnin varð sú að sæst var á forsætisráðherra, sem í minningu minni var svipuð týpa og Sigurður Ingi Jóhannsson er nú.

Ólafur Thors varð sjávarútvegsráðherra og Hermann Jónasson landbúnaðarráðherra.

Aðdragandi og ástæða stjórnarmyndunar nú er ólíkur því sem var 1950. Nú gerist þetta allt í skæru kastljósi fjölmiðla um allan heim og hinn dramatíski farsi um hádegisbilið í gær er í algerri mótsögn við hljóðláta baktjaldavinnu, sem skóp "helmingaskiptastjórnina" 1950.  


mbl.is „Voru embættismennirnir með töskuna mína?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín er segullinn. Sjónvarpið hefur áhrif.

Katrín Jakobsdóttir er byrjuð að draga aukið fylgi að Vinstri grænum með sínu mikla persónufylgi, sem hefur komið berlega í ljós á undanförnum dögum, og á þeim dögum, sem þjóðarpúlsinn var tekinn, 3-6 apríl, kom Óttar Proppé jafn mikið fram í ótal sjónvarpsviðtölum og fulltrúar hinna stjórnarandstöðuflokkanna.

Vandi Bjartrar framtíðar hefur verið að skapa sér einhvers konar sérstöðu, Óttar var laginn við að leggja áherslu á að Björt framtíð væri stofunið fyrst og fremst til að eflal siðferði í íslenskum stjórnmálum og þjóðmálum og það virðist hafa skilað sér í auknu fylgi.

Aukið fylgi Bjartrar framtíðar er mest á kostnað Samfylkingar og Pírata.


mbl.is Fylgi Pírata dalar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband