Stórbrotin tilraun í skugga vantrausts á stjórnmálum?

Traust Íslendinga á stjórnmálamönnum beið einstæðan hnekki í kjölfar Hrunsins. 

En Hrunið var ekki það eina. Í borgarstjórn Reykjavíkur ríkti upplausnarástand frá 2006-2010 sem átti sér ekki neina hliðstæðu í borginni frá upphafi. 

Afleiðingin varð sú að kjósendur voru tilbúnir til að gera stórbrotna tilraun árið 2010 með því víkja reyndum stjórnmálamönnum til hliðar og kjósa algerlega nýtt og óreynd afl til forystu í borginni. 

Þetta nýja afl náði samkomulagi við hluta hinna gömlu stjórnmálaafla og þessi meirihluti sat út kjörtímabilið án teljandi vandræða við stjórn borgarinnar. 

En þar með virtist hins vegar hið nýja afl vera orðið hluti af hinu gamla valdakerfiog það fjaraði fljótt undan því í kosningunum og eftir þær. 

Að minnsta kosti er það eina finnanlega skýringin á uppgangi Pírata síðasta ár.

Þeir eru að vísu starfandi í borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík, en virðast ekki gjalda þess, enda lítt áberandi þar á bæ.

Hugmynd Birgittu Jónsdóttur um að samið verði fyrirfram um stefnu kosningabandalags, sem byði fram á gegn núverandi stjórnarflokkum, er nýjung í íslenskum stjórnmálum, því að enda þótt Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hafi lýst fyrirfram yfir stjórnarsamstarfi í kosningunum 1963, 1967 og 1971, lögðu þeir ekki fram stjórnarsáttmála fyrir kosningar eins og Birgitta talar um að stefna ætti að fyrir næstu kosningar.

Þessi hugmynd er djörf, því að enginn veit áður en viðræður hefjast milli væntanlegra bandalagsflokka, hvað muni koma upp í slíkum fyrirfram gerðum stjórnarsáttmála. 

En Píratar eru hvort eð er að máta ýmsar hugmyndir um fullkomna stefnuskrá þeirra sjálfra, og þess vegna gæti það verið ákveðin þrautalending að ljúka fyrirfram við alla stefnumótun fyrir þá ríkisstjórn, sem þeir lofa að mynda eftir kosningar. 

Fróðlegt verður að sjá hverju á eftir að vinda fram á næstu vikum í þessum málum. 

 

 


mbl.is Sjóræningar taka Ísland með beinu lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert ætti að aftra því að kosningar fari fram.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar láta eins og aflétting gjaldeyrishafta sé að bresta á í vor og þess vegna megi alls ekki kjósa.

Þetta er ekki rétt. Aðeins er um útboð að ræða í maí og augljóst að það muni taka einhver misseri að aflétta gjaldeyrishöftunum, hvernig sem unnið er.

Ríkisstjórnin lofaði þessum ráðstöfunum í síðastliðnum október en drátturinn er þegar orðin sjö mánuðir.

Ríkisstjórnin lofaði húsnæðisfrumvörpum, afnámi verðtryggingar og afgreiðslu stjórnarskrármála fyrir löngu og getur aðeins kennt sjálfri sér og sundurþykkju í stjórnarflokkunum um það hve illa gengur að koma frá sér frumvörpum, hvað þá að afgreiða þau.

Glæsilegur mótmælafundur á Austurvelli í dag er í samræmi við skoðanakannanir og undirölduna í þjóðfélaginu.

Hér á blogginu hældust stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar um fyrir tveimur dögum að engin mótmæli væru í Bretlandi vegna aflandsmála David Cameron forsætisráðherra Breta.   

Annað hefur komið á daginn og hin íslensku mótmæli og afsögn okkar forsætisráðherra hafa meira að segja hugsanlega haft áhrif erlendis.

Ekkert ætti að aftra því að þessi ríkisstjórn fari frá, kosningar fari fram og ný ríkisstjórn með nýtt umboð taki við.  

 


mbl.is „Kominn tími á Píratana“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfmiðaðir kostir. "Sáuð þið hvernig ég tók hann!"

Kostirnir, sem Sigmundur Davíð segist hafa gefið sér, þegar hann fór sneypuförina til Bessastaða, miðuðust eingöngu við stöðu hans sjálfs og ríkisstjórnar undir forsæti hans sjálfs.

Því að þriðji kosturinn, sem hann kom ekki auga á, varð niðurstaðan.

Svo sjálfmiðaðir voru þessir kostir, að hann bar ætlun sína um að fá þingrofsheimild hvorki undir eigin þingflokk né þingflokk samstarfsflokksins, heldur flýtti þvert á móti fundinum með forseta Íslands til að fá hann til samþykkja það að "vera stimpill" fyrir sig.

Meðreiðarsveinarnir háttsettu og skjalataskan áttu að undirstrika að frá öllu væri tryggilega gengið og að forsetanum væri gert tilboð sem ekki væri hægt að hafna.

Það átti að taka slaginn um forsætisráðherrastólinn á fullu með "fósturföðurnum" og gefa skít í þingræðisregluna með honum, jafnvel þótt búið væri að breyta lagaumhverfinu fyrir slíkt árið 1991.

Bjarni Benediktsson var nýstiginn út úr flugvél, þreyttur og ósofinn með tímaröskun langs flugs austur yfir Atlantshafið á bakinu, og hafði ekki fengið ráðrúm til að eiga fund með þingflokki sínum.

Svo mjög ofmat Sigmundur eigin stöðu sem eins konar einræðisherra í stjórn atburðarrásarinnar, að hann ætlaði að ná tilgangi sínum með leiftursókn án þess að spyrja sinn eigin þingflokk neins, hvað þá þingflokk samstarfsflokksins.

Sem betur fór hitti hann fyrir forseta, sem ekki var tilbúinn til að brjóta meginreglu íslenskrar stjórnskipunar og því fór sem fór.

Sjálfmiðuð afstaða Sigmundar ríkti áfram þegar hann hældist um eftir á um það hve snjöll leikflétta hefði komið út úr pólitískri feigðarför hans.

Það minnir á ummæli Jóns sterka úr Skugga-Sveini: "Sáuð þið, hvernig ég tók hann!"   

 


mbl.is Átti tvo kosti í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband