Langur friður er gulls ígildi, en getur slævt árveknina.

Lön friðartímabil í sögunnu hafa verið mikilsverð fyrir framfarir og betri kjör þjóða og velferð mannkynsins.

En þau hafa líka einn galla: Þegar ríkjandi kynslóð man ekki lengur eftir síðasta stríðinu og afleiðingum þess, getur slaknað á árvekninni varðandi það að uppfylla hugsjón Krists: Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guð sjá.

1914 hafði í meginatriðum ríkt friður í Evrópu í 43 ár. Fólksfjölgun hafði verið mikil í álfunni og mikill minnihluti þjóðanna mundi eftir stríði Frakka og Þjóðverja 1870-71, sem batt enda á svo langt tímabil styrjalda og óróa í álfunni, að árið 1871 mundi enginn Evrópubúi eftir tímum þegar oftar var friður en ófriður.

Stórfelldustu manndráp mannkynssögunnar í Heimsstyrjöldunum tveimur ollu því, að Evrópuþjóðirnar, sem fyrst og fremst höfðu komið höfðu þeim af stað, kristnar þjóðir í ofanálag, hlutu að gera friðarviðleitni að höfuðverkefni sínu.

Nú hefur engin stórstyrjöld verið háð í Evrópu í 71 ár, sem er svo miklu lengra friðartímabil en 1871-1914, að þeir allra síðustu og örfáu, sem muna eftir seinna stríðinu og nokkrum fáum erfiðum árum allra næst á eftir því, eru við grafarbakkann.

Aðrar núlifandi kynslóðir muna í grófum dráttum aðeins eftir efnahagsuppgangi og stórfelldum tækniframförum.  

Hætta er á að slíkt slævi árveknina, sem nauðsynleg er, til þess að afstýra ófriði og átökum.


mbl.is Verdun tákni sameinaða Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er heilinn ekki líffæri?

Öll líffæri líkamans geta orðið fyrir áföllum eða starfsemi þeirra raskast. En svo er að sjá, að eitt líffæri, heilinn, teljist ekki vera líffæri þegar um er að ræða endurhæfingu vegna þess að starfsemi hans hafi raskast.

Þar með vaknar önnur spurning, hvar endar heilinn? Er það við efsta hálslið og utan höfuðkúpuna eða á að telja mænuna og taugakerfið með heilanum?

Eða teljast skjálfti, óstyrkur, magnleysi, meltingartruflanir og önnur taugaviðbrögð sem stafa út frá heilanum eða leiða inn í hann, til dæmis sársauki, lenda utan við mörk þess sem skilgreint er sem ástand líffæra?  


mbl.is Sálfræðiþjónusta ekki talin endurhæfing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrikalegt dæmi um grimmd styrjalda.

Þeir staðir eru margir í veröldinni, þar sem reist hafa verið minnismerki um blóðbað fyrri tíma þar sem herir mættust í frægum orrustum.

Patton, hershöfðingi, var mærður af mörgum fyrir snilli og mikinn eldmóð í herförum sínum á skriðdrekasveitum 7. hersins sem þóttu einkar glæsilegar.  

En hann var ómyrkur í máli um "göfugan tilgang og fórnarlund hermannanna":

"Þú ferð ekki í stríð til að fórna lífi þínu fyrir föðurlandið, heldur til þess að hinn brjálæðingurinn fórni sínu lífi fyrir sitt föðurland."

Það lætur engan ósnortinn að koma til Verdun, og upplifa landslag, þar sem grafreitir með krossum fallinna hermanna, ungra manna í blóma lífsins, eru það eina sem blasir við, svo langt sem augað eygir í allar áttir.

Áhlaup Þjóðverja á það safn af virkjum, sem áttu að verja Verdun, stóð mánuðum saman og í lokin, eftir að mörg hundruð þúsund hermenn höfðu fallið, var víglínan í meginatriðum sú sama og hún hafði verið í upphafi.

Frakkar töldu, og í sumum fræðibókum stendur, að niðurstaðan hafi verið franskur sigur, en það byggist aðeins á því, að markmið Þjóðverja var að knýja fram úrslitasigur, og að Frökkum tókst að koma í veg fyrir það.

Í raun höfðu hins vegar allar þessar hundruð þúsunda hermanna, sem féllu, verið leiddir í sláturhús, þar sem hver um sig hafði það eina hlutverk að sjá til þess að "hinn brjálæðingurinn" fórnaði lífi sínu fyrir föðurlandið.

Og öll þessi yfirþyrmandi fórn, orrusta, sem stóð í tíu mánuði,  bar í raun ekki hinn minnsta árangur hvað snerti það að færa víglínuna til að neinu ráði frá því sem hún hafði verið fyrir áhlaup Þjóðverja, heldur þvert á móti, leiddi hún til skelfilegra hörmunga.

Sumir halda því fram að árangur þessara mannfórna hafi skilað sér tveimur árum síðar til Frakka, en það er svona álíka röksemd eins og sú sem einn hershöfðingja Breta setti fram: "Ef við þurfum að fórna öllum herafla okkar þannig að á endanum standi eftir þúsund hermenn okkar en enginn hermaður andstæðinganna, er það þess virði."

Orrustan við Somme var háð með öfugum formerkjum, Bretar réðust á Þjóðverja, seinna á árinu 1916, fyrst með ægilegri stórskotahríð og síðan voru tugþúsundir hermanna sendir fram í bylgjum til þess eins að vera brytjaðir niður af vélbyssum Þjóðverja.

Þeir Bretar, sem lengst komust, hlupu inn í stórskotahríð eigin hers og voru brytjaðir niður af henni! 

Orrustan stóð vikum saman, næstum 60 þúsund breskir hermenn féllu bara fyrsta daginn, og þegar orrustan fjaraði út eftir hálfan fimmta mánuð,  var viglínan að mestu óbreytt, árangurinn enginn, aðeins hörmungar og manndráp og örkuml á báða bóga.

Árið 1916 var ár samræmdra sókna Bandamanna, því að á austurvígstöðvunum hófu Rússar svonefnda Brusilov-sókn, sem neyddi Þjóðverja til að flytja herlið þangað frá vesturvígstöðvunum.

Brusilovsóknin gekk vel í byrjun. Þetta var eina sóknin í Heimstyrjöldunum tveimur sem kennd var við hershöfðinga.

Hún var upplyfting fyrir Rússa um sinn, en á endanum varð hún til þess eins að veikja svo rússneska herinn, að eftir hana var styrjaldarreksturinn hrein hörmung, sem endaði með algerum ósigri og uppgjöf árið eftir.


mbl.is Minntust orrustunnar við Verdun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband