Harpa, plúsar og mínusar.

Harpa, stórglæsilegt mannvirki, eitt af helstu táknum Reykjavíkur og vekur aðdáun útlendinga.

Kostaði 20,9 milljarða. Hverjir eru plúsarnir og mínusarnir?:

Plúsarnir:

Með tilkomu Hörpu urðu tímamót í menningarlífi Íslendinga og það er hennar stærsti plús. Margra áratuga barátta fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík bar loksins árangur, eftir að skortur á slíku húsi hafði verið helsti dragbítur íslensks tónlistarlífs.

Það vekur bæði undrun og depurð að þetta tæki svona langan tíma.

Mikilvægi Hörpu sést best á hinni miklu notkun hússins, sem einnig byggist á aðstöðunni, sem þar er til ráðstefnuhalds.

Mikilvægi Hörpu fyrir lífi og fjöri í gamla miðbænum í Reykjavík verður seint ofmetið.

En mínusarnir?

Kostnaðurinn.

Í Þrándheimi, sem er álíka stór borg og Reykjavík, - og Þrændalög álíka fjölmenn og suðvesturland hér heima, ekkert svæði í heimi eins sambærilegt, á sömu breiddargráðu, svipuð menning og veðurfar og svipuð kjör, - var reist Ólafshöllin fyrir allmörgum árum, tónlistarhöll sem rúmar allt það sem Harpa rúmar og meira að segja fullkomna aðstöðu fyrir óperuflutning, en samt kostaði Ólafshöllin aðeins hluta af verði Hörpu.

Siðfræðín.

40 prósent af byggingarkostnaði Hörpu fékkst í gegnum fé frá útlendingum, sem ekki voru spurðir um það fyrirfram hvert myndu renna í darraðardansi Græðgisbólunnar sem endaði með Hruninu.    


mbl.is Harpa kostaði 20,9 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Elmar slapp við martröð.

Elmar Geirsson var með allra fljótustu og spretthörðustu landsliðsmönnum Íslands, og hann og Baldvin Baldvinsson voru yfirgengilega "fljótir á fimm metrunum" á sjöunda áratugnum eins og stundum er sagt um fljóta framherja.

Sagt var að Baldvin gæti sent sjálfum sér boltann og hraði hans færði KR-ingum meistaratitil 1968.

Hvorugur þeirra var með sérstaka boltameðferð eða leikni með boltann, enda þurftu þeir yfirleitt ekki á henni að halda.

Undantekning var þegar Elmar fékk boltann í frægum sigurleik Íslendinga yfir Austur-Þjóðverjum 1975 á svipaðan hátt og Ásgeir Sigurvinsson í sama leik, - snilld Ásgeirs skóp mark en Elmar náði ekki að nýta hraða sinn til að skora.

Þegar Gunnar Thoroddsen þáverandi sendiherra í Kaupmannahöfn, heilsaði upp á íslensku landsliðsmennina áður en landsleikur við Dani byrjaði á Idrætsparken 1967, þar á meðal Elmar, hné Elmar skyndilega niður og missti við það af leiknum.

Elmar skallaði helst aldrei boltann, þoldi ekki slík höfuðhögg, og einhver sem var að leika sér með bolta þegar sendiherrann ætlaði að taka í hönd Elmars, spyrnti honum óvart í höfuð hins snjalla framherja.

Það var alveg óborganlegt að heyra Hermann Gunnarsson, sem var í liðinu, segja frá þessu atviki og öðrum varðandi þennan einstaða landsleik.

Landsliðið lék því þennan leik án Elmars, en á móti kom, að hann slapp við þá einstæðu martröð sem 14:2 úrslitin voru.

Þau úrslit hefðu varla breyst mikið með Elmar um borð, því að það er enginn grundvallarmunur á 14:2 og 14:3 eða 14:4.


mbl.is Fékk boltann í höfuðið – myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mosfellsheiði er ekki undir Hafnarfjalli.

Með frétt af lokun Þingvallavegar af því að vélhjólamaður missti stjórn á hjóli sínu og lenti utan vegar er birt mynd frá hringveginum í Melasveit þar sem Hafnarfjall sést hægra megin en hluti Snæfellsnesfjallgarðarins í baksýn.

Sjá má tvo bíla sem lent hafa í árekstri en hvergi nein merki um lokun hringvegarins.

Engin skýring er gefin á því af hverju þessi mynd er birt í frétt um allt annan atburð á allt öðrum þjóðvegi uppi á heiði í meira en 60 kílómetra fjarlægð.

Nokkrum grundvallarspurningum þarf að svara í fréttaflutningi svo sem: Hvar? Hvenær? Hvernig? Hvers vegna?

Svörin þurfa að vera rétt og birtar viðeigandi myndir.


mbl.is Þingvallavegur lokaður eftir mótorhjólaslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eiturefni og þungmálmar" í trjánum?

Í Yellowstone þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum urðu gríðarlegir skógareldar 1988. Slíkir stórbrunar verða þar með um aldar millibili en stundum styttra millibili.

Ákveðið var að láta eldana afskiptalausa nema ef hægt væri að bjarga mannvirkjum.

Ástæðan var sú, að ætlunin með þjóðgarðinum var sú að náttúran nyti vafans og inngrip í gang hennar væri í lágmarki.

Tvær ferðir þangað, 1998 og 2008 voru eftirminnileg upplifun. Í ljós hefur komið að eldarnir eru nauðsynlegir til þess að sjá um endurnýjun skógarins og sjálfkrafa grisjun hans.

Þeir hlutar hans, sem brunnu, voru gömul tré, sem orðin voru þurr og feyskin, en hins vegar sluppu yngri og safaríkari tré frekar undan eldunum.

1998 voru tíu ára gömul tré að byrja að spretta upp af brunarústum eldri trjánna og 2008 voru þau orðin miklu stærri.

Nú verður hægt að fylgjast með uppvexti hins nýja skógar og því, hvernig rotnandi leifar hinna föllnu eldri kynslóða verða að næringu fyrir yngri og uppvaxandi kynslóðir.

Hringrás náttúrunnar birtist þarna á einstakan hátt. Hún sér sjálf um það að nýju trén mun standa hæfilega þétt og að maðurinn þurfi ekki að grípa neitt inn í það ferli með grisjun.

Fyrirbæri eins og "mengun vegna eiturefna og þungmálma" eru víðsfjarri í Yellowstone, en hins vegar alvarlegt vandamál í brunarústunum í Fort McMurrey heldur norðar við Klettafjöllin.

Hvernig skyldi standa á því? Gott íhugunarefni.   


mbl.is Geta ekki snúið til Fort McMurray vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband